04.11.1935
Efri deild: 60. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Bernharð Stefánsson:

Það var aðeins út af því, að hv. frsm. meiri hl. lét í ljós nokkra undrun eða óánægju yfir því, sem ég sagði um þetta mál áðan. En ég sé ekki, að hann hafi neina ástæðu til að undrast það, sem ég sagði, því að það var ekkert annað en nánari útskýring á nál., sem við báðir höfum skrifað undir, útskýring á mínum fyrirvara. Hann var að tala um, að ekki væri hægt að bera fullkomlega saman Siglufjörð annarsvegar og Ísafjörð og aðra kaupstaði hinsvegar, sökum þess, hve margir aðkomumenn kæmu til Siglufjarðar á sumrin til þess að stunda þar atvinnu. Það kann að vera nokkuð hæft í því, að Siglufjörður sé ekki að þessu leyti vel sambærilegur við aðra kaupstaði. En ég álít, að það sé þá í alveg öfugri merkingu við það, sem hv. frsm. var að tala um. Það er vitanlegt, að kaupstaðurinn hefir ýmiskonar kostnað af þessum mörgu aðkomumönnum. Þeir nota göturnar á Siglufirði alveg eins og bæjarbúar. Lögreglan t. d. er ekki síður vegna aðkomumanna en bæjarbúa. Margt fleira mætti telja. Þess vegna er það, að Siglufjarðarkaupstaður er einmitt sá kaupstaður í landinu, sem núv. útsvarslöggjöf gerir allra mest rangt til. Og í því sambandi ber ekki sízt að líta á það atriði, að það er orðinn svo geysimikill hluti af atvinnurekstri í bænum, sem ekki er útsvarsskyldur, sem er ríkisverksmiðjurnar. Ég býst við, að það fari að verða óhjákvæmilegt yfirleitt að heimila bæjarfélögum aukna tekjustofna frá því, sem verið hefir. En það finnst mér augljóst, að engu bæjarfélagi er þetta eins nauðsynlegt eins og Siglufjarðarkaupstað, og ekkert bæjarfélag á eins mikinn rétt á því, að eitthvað verði gert í þessa átt, eins og einmitt sá kaupstaður. En það gengur nú þannig, að það frv., sem fyrir þinginu liggur um umbætur í þessu efni fyrir Siglufjarðarkaupstað, þokast nú ekkert áfram. Það er í Nd. enn. Og það er einmitt hv. flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir, sem hefir þetta mál (fyrir Siglufjarðarkaupstað) mikið á valdi sínu, því að hann mun vera form. í þeirri n., sem hefir fjallað um það. En hugsanlegt er nú, að breyt. verði orðin í því efni áður en þetta mál verður hér til endanlegrar meðferðar í hv. d., við 3. umr.