20.11.1935
Efri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Landbn. hefir haft þetta mál til athugunar, og eins og getið er í nál. hennar á þskj. 569, þá mæla tveir nm. með, að frv. verði samþ., — ég og hv. 2. þm. Rang. —, en þriðji nm., hv. 4. landsk., er frv. mótfallinn, a. m. k. í þeirri mynd, sem það hefir nú.

N. ber ekki fram neinar brtt. við frv. nú, en mun taka það til nánari yfirvegunar á milli umr., og þar sem þetta er 2. umr. málsins og engin brtt. liggur fyrir, þá mun ég ekki fara mörgum orðum um það.

Eins og menn vita, þá er þetta frv. borið fram af landbn. Nd., og er það einskonar samsteypa þriggja frv., sem flutt voru á fyrri hluta þingsins; í fyrsta lagi frv. um byggingu og ábúð á jörðum, sem eru almannaeign. Í öðru lagi frv. um ættaróðul og óðalsrétt, og í þriðja lagi frv. um afnám sölu þjóð- og kirkjujarða. I. kafli þessa frv. er um erfðaábúðina og um ábúð á opinberum jarðeignum. Samkv. honum eiga opinberar jarðeignir að byggjast með erfðafestu, nema þær jarðir, sem eru ætlaðar fyrir embættismannasetur, svo sem prestsetrin. Þá er það nýmæli í þessum kafla, að eftirgjaldið á þessum jörðum sé fastákveðið 3% af matsverði jarðarhúsa. II. kafli frv., um ættaróðul, er nýmæli, þar sem slík löggjöf hefir ekki áður þekkzt hér á landi, en tilgangurinn er auðsær, sem sé sá, að koma á meiri festu um ábúð jarða og að fyrirbyggja brask með jarðir, eins mg átt hefir sér stað undanfarið, landbúnaðinum til stórtjóns. Það ætti að mega vona, að þegar ætt væri búin að gera jörð að ættaróðali sínu, þá mundi hún frekar bera ræktarsemi til þess staðar en oft hefir áður verið um jarðir, sem hafa þó verið í einstaklingseign.

Þriðja meginatriði þessa frv. er um afnám á sölu þjóð- og kirkjujarða, en þó þannig, að sala þessara jarða sé heimil eftir sem áður, ef sú jörð, sem seld er, er jafnframt gerð að ættaróðali.

Það hefir oft verið deilt um þjóðjarðasölulögin. Sumir telja, að þau hafi unnið landbúnaðinum ómetanlegt gagn með því að koma fjölda jarða í sjálfsábúð, en aðrir hafa talið gagnið vafasamt. En í þessu frv. er hugsað til þess að nema burt þá ókosti, sem mönnum hefir fundizt vera í þjóðjarðasölunni, þannig, að koma í veg fyrir, að þessar jarðir séu seldar aftur og lendi þannig í óeðlilegu braski. Aftur á móti á að halda kostunum, þannig, að mönnum sé eftir sem áður gefinn kostur á að eignast jarðir, ef þeir vilja taka á sig þær kvaðir, sem því fylgir að gera jörð að ættaróðali.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara nánar út í þetta mál, því að engar brtt. liggja fyrir. Meiri hl. n. virtist sæmilega vel frá þessu frv. gengið, og er því alls ekki víst, að hann flytji neinar brtt. við það. Þó munum við taka frv. til nýrrar athugunar fyrir 3. umr. — Sé ég svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. að sinni.