01.11.1935
Neðri deild: 62. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

149. mál, stimpilgjald

Frsm. (Sigfús Jónsson):

Frv. þetta er komið fram sökum þess, að fjhn. barst bréf frá fjmrh., þar sem hann m. a. skýrir frá því, að það hafi komið í ljós, að nokkur brögð séu að því, að skotizt hafi yfir hjá sýslumönnum að innheimta sektir fyrir vanrækslu á stimplun skjala. En eins og kunnugt er, þá ber að láta stimpla öll skjöl, svo sem afsöl, skuldabréf, kaupsamninga n. fl., innan 2 mánaða frá dagsetningu. Þar sem nú gjald þetta getur í sumum tilfellum orðið nokkuð hátt, eins og t. d. á afsalsbréfum, þar sem það er 1%, en sektirnar geta orðið allt að fimmfalt gjaldið, þá er sýnilegt, að hér getur orðið um allstórar upphæðir að ræða.

Nú er svo ákveðið í 52. gr. stimpilgjaldslaganna frá 1921, að stj. megi geta eftir nokkuð af sektum þessum, eða jafnvel láta þær falla niður með öllu, ef sérstakar kringumstæður mæla með því, en svo er jafnframt ákveðið, að þetta gildi aðeins í 10 ár frá því að lögin öðlast gildi. Var því heimild þessi útrunnin 1931. Reynslan hefir nú orðið sú, að þrátt fyrir þennan langa tíma, sem ætlaður mun hafa verið til þess, að fólk áttaði sig á þessu gjaldi, eru ennþá að berast óstimpluð skjöl til sýslumanna eftir að stimpilfresturinn er útrunninn og stjórnarráðinu beiðnir um lækkun eða uppgjöf sekta. En þar sem heimildin til þess er nú niður fallin, hefir stjórnin ákveðið að fresta innheimtu sektanna, þar til Alþingi hefir verið kvatt saman í haust, og nú fer hún fram á það, að frestur sá, sem um ræðir í 52. gr. laganna frá 1921, verði framlengdir um óákveðinn tíma, og á það hefir fjhn. fallizt, því að það er vafalaust ekki svo almennt, að fólk vilji skjóta sér undan að greiða þetta stimpilgjald, heldur stafar vanrækslan oftast af þekkingarleysi, gáleysi eða gleymsku.