26.11.1935
Efri deild: 79. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

158. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Páll Hermannsson:

Mér þykir rétt að geta þess í sambandi við þetta mál, að þegar allshn. tók það til meðferðar, þá skildi hún það svo, að þetta frv. næði til manna, sem væru 65 ára og eldri. Ég varð ekki var við aðra skoðun í n. Og þess vegna var það, að nm. töldu það varhugavert að gefa ekki 65 ára mönnum kost á að halda áfram fiskimatsstarfi. Nú er það upplýst, að í l. um aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna frá 9. jan. síðastl. er tvímælalaus heimild handa ráðh. um að veita 65—70 ára gömlum mönnum undanþágu, svo að þeir geti verið áfram við starf sitt. Það er því rétt, sem hv. 2. þm. S.—M. benti á, að þetta frv. á eingöngu við það, að gefa 70 ára gömlum mönnum kost á að vera áfram fiskimatsmenn, því að í l. er heimild fyrir ráðh. um að veita þeim undanþágu til 70 ára aldurs. Ég verð því að telja, að það sé ekki óeðlilegt, að þegar mönnum er orðið það ljóst, að um svona gamla menn er að ræða, þá líti menn á það öðrum augum, heldur en þegar þeir í gáleysi gengu út frá því, að átt væri við 65 ára gamla menn.