03.12.1935
Neðri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (2365)

164. mál, skipun barnakennara

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Það hefir nú orðið veruleg breyt. á horfunum um þetta mál síðan ég talaði síðast, og þá sérstaklega með brtt. þeim, sem hæstv. kennslumálaráðh. hefir borið fram og nú gert grein fyrir. Mér finnst, að með þeim sé frv. í verulegum atriðum breytt til betri vegar, þar sem ætlazt er til, að ákvæði frv. nái ekki til kennara nema við skóla þá, sem njóta ríkisstyrks. Hitt, að ríkið hafi aukið eftirlit með kennslu í einkaskólum, er ekki óeðlilegt. Samkv. brtt. hæstv. ráðh. eiga þeir, sem starfrækja einkaskóla eða kenna við þá, að uppfylla sömu skilyrði. En þó má veita undanþágu, ef eindregin meðmæli skólastjóra og skólanefnda eru fyrir hendi. Þetta er nauðsynleg umbót á frv. Og kemur það þá undir framkvæmdinni, hvernig þessi löggjöf verður. Það liggur í augum uppi, að sanngirni mælir ekki með því, að enginn megi hafa barnakennslu með höndum, nema hann hafi skilyrði þau, sem getið er um í frv. Ég get bent á, að stór einkaskóli er í þessum bæ, sem talinn er í betri skóla roð, og á ég þar við Landakotsskólann. Mér finnst, að það nái engri átt að mæla svo fyrir, að hann megi ekki haga kennslu eins og áður, þó að einhverjir kennarar, sem starfa þar, hafi ekki tekið próf við kennaraskólann. Ég held, að það sé viðurkennt í þessum bæ, að árangurinn af starfi þessa skóla sé í bezta lagi, og því undarlegt, ef hann á að leggjast niður vegna ótímabærrar lagasetningar. Mér þykja því till. hæstv. kennslumálaráðh. vera umbót á frv. og mun ég geta fylgt frv. með þeirri breyt., þó með því fororði, að sú heimild, sem fræðslumálastj. er gefin, verði notuð frjálslega, og ekki í öðru skyni en því að tryggja nemendum það, að árangur í einkaskólum sé ekki lakari en í ríkisskólum. Ennfremur á að nota hana til þess að tryggja það, að þeir, sem hafa haft smábarnaskóla og kynnu að óska eftir að fá að hafa það starf áfram, væru vissir um, að á mál þeirra væri litið með það eitt fyrir augum, hvort kennsla þeirra bæri ekki þann árangur, sem menn óska eftir að fá, og hvort húsakynni þeirra uppfylla þau skilyrði, sem sett eru að því er snertir hollustuhætti. En um það eru til fyrirmæli, svo að ekki er um neina nýjung að ræða í því efni, og er sjálfsagt að gera kröfur í því efni eins og hæstv. ráðh. gerir með brtt. sínum.

Það ætti því að mega gera ráð fyrir því, að þessi löggjöf fullnægi öllum sanngjörnum kröfum, ef hún er framkvæmd með frjálslegum huga og hefir ekki í for með sér meiri breytingar en þær, sem verða að teljast óhjákvæmilegar til þess að vel sé séð fyrir þessum málum.