18.03.1935
Efri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (2386)

81. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Bernharð Stefánsson) [óyfirl.]:

Mér kom það á óvart, hve fljótt mál þetta var tekið til 2. umr. Menntmn. hafði ætlað að athuga frv. fyrir þessa umr., en af því gat ekki orðið. Það er þó ekki þar fyrir, að ég telji með þessu neinn skaða skeðan, því að enn er hægt að athuga málið fyrir 3. umr.

Þó að frv. þetta sé töluvert mikill bálkur, þá inniheldur það samt ekki nema þrjár breyt., sem teljandi eru, frá núgildandi háskólalögum. Hin fyrsta er sú, að bæta á við háskólann nýrri deild, sem á að heita atvinnudeild, og er það í samræmi við frv., sem liggur fyrir þinginu um stofnun slíkrar deildar. Um það atriði sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða, þar sem nægur tími er til að ræða um það, þegar frv. um stofnun atvinnudeildarinnar kemur til umr. hér.

Þá er annað atriðið það, að rektor háskólans skuli kosinn til 3 ára í senn, í stað eins árs nú. Það er talið, að með því verði meiri festa á stjórn skólans en ef rektorinn er aðeins kosinn til 1 árs.

Þá er 3. atriðið, sem lagt er til að breyta og nokkru máli skiptir, að kennslutíminn byrji 13. sept., í stað 1. okt., en endi aftur 15. júní, í stað 30. júní. Þessa breyt. telja stúdentar og kennarar til bóta að því leyti, að þetta verði hentugra uppá atvinnu stúdentanna að sumrinu til.

Ég leyfi mér svo að leggja það til, að frv. verði vísað til 3. umr., og að sjálfsögðu mun menntmn. taka það til athugunar fyrir þá umr. og bera þá fram brtt. við það, ef hún sér ástæðu til þess að breyta einhverju, sem vel getur verið. Enda var flutningur n. á frv. bundinn því skilyrði, að hún áskildi sér rétt til þess að bera fram brtt. eða greiða atkv. með brtt., sem fram kynnu að koma, ef hún teldi þær réttmætar.