18.03.1935
Efri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (2388)

81. mál, Háskóli Íslands

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Eins og hv. frsm. sagði, eru í raun og veru ekki nema þrjár breyt., sem máli skipta í frv. Það eru að vísu einnig fleiri smábreyt., sem vægast sagt eru um fyrirkomulagsatriði og tekur því ekki að gera að umtalsefni.

Það er nú alls ekki svo, að kennararnir séu fyllilega sammála um þær þrjár aðalbreyt. á háskólalögunum, sem hér er um að ræða. Breytingin á kennslutíma háskólaársins er komin fram sakir þess, hversu mjög það er erfitt að halda stúdentunum að námi, þegar kemur fram á vorið. Eins og kunnugt er hafa þeir mikið frelsi, þurfa ekki að sækja kennslustundir frekar en þeim sýnist. Þetta akademíska frelsi nota þeir sér því margir hverjir og hverfa frá háskólanum á vorin töluvert áður en fyrirlestrar hætta við skólann. Reynslan hefir t. d. sýnt, að eftir 15. maí er mjög erfitt að fá stúdentana til þess að sækja fyrirlestra, og því er þessi uppástunga, um breytinguna á skólaárinu komin fram. Hinsvegar er vitanlega engin reynsla fengin um það, hvort hægt verður að fá stúdentana til þess að sækja fyrirlestra svona snemma á haustinu, eins og frv. gerir ráð fyrir. Þvert á móti hefir reynslan undanfarið orðið sú, að þeir eru að koma smátt og smátt fram eftir okt., enda er það nú svo, að sumaratvinnan er víða ekki úti fyrr en um mánaðamót sept. og okt. Að ég hefi fylgt þessari breyt., er sakir þess, að ég tel vortímann ekki hentugan til skólanáms.

Hvað snertir breyt. á kosningu rektorsins, þá hafa verið mjög skiptar skoðanir um hana meðal kennara skólans. Um þetta atriði hafa margir fundir verið haldnir og nefndir hafa um það fjallað, en ekkert endanlegt samkomulag hefir fengizt. Það eru margir, sem telja það demokratískt að kjósa rektorinn til 1 árs, sem og vilja því enga breytingu. Aftur er bæði ég og fleiri þeirrar skoðunar, að kjósa beri rektorinn til fleiri ára í senn, enda hefir sami maðurinn verið endurkosinn rektor háskólans nú undanfarin ár og er nú á 3. starfsári sem rektor. Eins og vitanlegt er, þá þarf rektor háskólans oft að beita sér fyrir ýmsum umbótamálum skólans, og það er óneitanlega miklu meiri hætta á því, að hann gerði það ekki af eins miklum krafti, ef hann væri aðeins kosinn til Í árs í einu.

Þau tvö atriði, sem hv. þm. S.-Þ. nefndi, koma ekki hvort öðru við. Verði atvinnudeildin stofnuð, þá verður alveg óumflýjanlegt að setja upp sérstaka skrifstofu við háskólann, því að reynslan mun sanna það, að rannsóknar og atvinnudeildin mun hafa í för með sér allmikla forretningu í sambandi við háskólann. Það er þá ekki nema eðlilegt, að rannsóknarstofa háskólans, sem lögð er undir stjórn spítalanna í svipinn, má ég segja, einmitt af því, að þetta reyndist vera svo umsvifamikið verk, að það var ekki unnt að leysa það af hendi í sambandi við önnur störf, sem háskólann varða, það yrði sjálfsagt, að hún yrði lögð undir þessa skrifstofu háskólans. Ég sé ekki, hvað þetta atriði getur snert rektorskosninguna, því að þetta yrðu störf, sem eru óskyld sjálfri stjórn háskólamálefnanna. Þetta yrði eins og hver önnur skrifstofa við hvert annað fyrirtæki, sem annaðist innkaup og sölu, móttöku og greiðslu á peningum og annað þess háttar. En þá held ég, að það yrði að ráða framkvæmdarstjóra fyrir háskólann, ekki kanslara, heldur hreinan og beinan framkvæmdarstjóra fyrir ýmsum málefnum, sérstaklega rannsóknarstofunni í sambandi við háskólann. Með tilliti til þessa held ég, að það væri alveg rétt að kjósa rektor háskólans til 3 ára jafnt fyrir því.

Ég vil minna á eitt starf, sem rektor hlýtur alltaf að þurfa að annast; það er móttaka gesta, þótt háskólakennarar séu ágætir í sinni grein, þá eru þeir samt mismunandi hæfir til þess að koma fram sem fulltrúar háskólans gagnvart gestum hans. Þess vegna er betra, að rektor sé valinn til lengri tíma. Hann fær þá æfingu í þessu efni eins og öðru því, sem snertir háskólann. Einnig hvað því atriði viðvíkur, að það er m. a. verkefni rektors að brjótast í nýjum tillögum viðvíkjandi háskólanum, þá eru háskólakennarar mjög misjafnlega starfsamir og áhugasamir um slík málefni, án tillits til þess, hvort þeir eru góðir eða lélegir kennarar í sinni grein. Ég hygg því, að þessi breyt., að rektor verði valinn til 3. ára, sé betri, óháð því, hvort síðar meir kann að verða ráðinn framkvæmdarstjóri fyrir háskólann við öll þau afgreiðslumál, sem háskólann varða.