13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (2512)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Nú fer maður að skilja, hvaðan vindurinn blæs, þegar hv. þm. Ak. tekur til máls. Nú fer maður að skilja, hvers vegna hv. 2. þm. N.-M. er svona tregur í taumi eins og hann hefir verið við þessa umr. Nú skil ég, hvers vegna þetta samkomulag hefir verið gert í n. um afgreiðslu málsins og hvers vegna hv. 2. þm. N: M. hefir verið svínbeygður eins og raun er á orðin frá sinni sannfæringu. Það hefir verið af því, að í n. hafa verið menn, sem ekki hafa viljað láta málið ná fram að ganga, nema þá svo, að það gæti ekki komið að neinum notum. Hv. þm. Ak. spurði að því, hvort ég hefði ekkert lært af skuldasöfnun bænda og ekkert lært af lánveitingum byggingar- og landnámssjóðs. Jú, mér er kunnugt um, að menn hafa fengið lán til þess að byggja upp á jörðum sínum, en það er þessi skuldasöfnun, sem hv. þm. Ak. vill ekki innleiða. Hann vill ekki, að menn fái lán til að reisa nýbýli. Það er yfirlýst frá honum, að þetta sé röng leið, sem ekki megi ganga inn á, og hv. þm. hefir gert samkomulag við meðnm. sína um að skera þetta svo við neglur sér, að það komi ekki að neinu gagni. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. að koma fram í dulbúnu gerfi sem meðmælandi frv., vitandi vits um það, að hann er að reyna að vinna á móti málinu á þann hátt að láta lánveitingarnar og styrkinn verða svo lítinn, að ekki komi að neinu liði, og að af þeim sökum verði sem fæstir, sem þessara hlunninda geti notið. Þetta er auðvitað krókaleið til þess að komast að sínu takmarki — því takmarki að leyfa ekki lánveitingar, og ef hv. þm. A.-Húnv. ætlar að taka í þennan spotta með hv. þm. Ak., þá öfunda ég hann ekki af sinni afstöðu til málsins. Ég skal ekki segja, hversu ákaflega mikið þakklæti kann að dynja yfir þessa hv. þm. frá þeim mönnum, sem nú eru að hrekjast úr sveitum landsins vegna þess að þeir hafa ekki aðstöðu til að stofna heimili, en ég get búizt við, að þeir þurfi ekki að hafa vatnsheldar regnhlífar til þess að verja sig í þeirri skúr.

En að taka þessa litlu lánveitingu, 4500 kr., sem menn þurfa til þess að koma upp nýbýli í sveit, til samanburðar við það hófleysi, sem hefir átt sér stað í útlánum úr byggingar- og landnámssjóði, er ekki nema hrein fjarstæða. Hér er aðeins verið að teygja fram grýlu til þess að hræða menn, en það á ekki við; þetta er ekki sambærilegt við lánveitingar úr byggingar- og landnámssjóði, því að ég hygg, að þar sé ekki farið nema þá að örlitlu leyti niður fyrir það, sem ég geri ráð fyrir í mínum brtt.

Hv. þm. Ak. þarf ekki að ímynda sér það, að þeir, sem taka slík lán, 4 þús. kr., séu með öllu skuldlausir jafnt fyrir því. Það er því miður ekki hægt að útiloka það, að menn myndi skuldir til þess að geta komið upp heimili, hvort heldur það er í kaupstað eða sveit. Því miður er ekki hægt að koma þessu svo fyrir, þó að það væri æskilegt, og þess vegna verða menn að stofna til skulda, ef þeir eiga að fá viðunandi heimila í sveit.