04.12.1935
Sameinað þing: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

1. mál, fjárlög 1936

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég hefi aðeins örstuttan tíma til þess að svara því, sem að mér hefir verið beint, sökum þess að hv. 10. landsk. þarf að svara ýmsu, sem að honum hefir verið vikið.

Það, sem ég vil gera að umtalsefni, er sú staðhæfing hæstv. fjmrh., að ég hafi farið með rangt mál, þegar ég talaði um 6000 kr. greiðsluna til Guðbrands Magnússonar. Það stendur óraskað, að sá, sem átti að úrskurða þetta í stjórnarráðinu, Magnús Guðmundsson, neitaði með öllu að greiða þessa upphæð úr ríkissjóði (Fjmrh.: Fjmrh. átti að úrskurða það.), og þá var leitað samþykkis fjvn. til þess að greiða þessa upphæð.

Greiðslan til Péturs Magnússonar, 30 þús. kr., er greiðsla fyrir málafærslu; það voru 3 þús. mál, eða 10 krónur fyrir hvert mál.

Um þessa 6000 kr. greiðslu til Guðbrands Magnússonar vil ég þá spyrja um það, hvort það eigi að vera verðlaun til þessa manns fyrir að hafa stjórnað málum þessa fyrirtækis þannig, að hann fékk 3000 málsóknir á hálsinn fyrir tilvikið. Annars vil ég segja það, að þessari stóru upphæð til Péturs Magnússonar er kannske ekki svo illa varið, fyrst hann vann þessi mál, því að ef svo illa hefði tekizt til, að öll málin hefðu fallið á einkasöluna, hefði það kostað ríkið millj. kr., og fyrir þetta á að verðlauna með 6000 kr.

Þá vill þessi sami hæstv. ráðh. telja ummæli form. Sjálfstfl. beina sönnun þess, að Bændafl. væri runninn inn í Sjálfstfl. En það, sem sannar, að Framsfl. er runninn inn í sósíalistaflokkinn, er ekki það, sem sósíalistar hafa sagt, heldur það, sem báðir flokkarnir hafa gert. Þar eru það verkin, sem sanna, hvernig hefir farið fyrir þessum tveimur flokkum.

Þá var þessi sami hæstv. ráðh. að tala um húsdýr. Bændafl. væri húsdýr íhaldsins. Það eru þá þessir á 4. þús. kjósendur Bændafl. sem hæstv. ráðh. kallar því nafni. (Fjmrh.: Nei, það eru bara þið tveir). Þetta er lítilsvirðing á þá bændur landsins, sem ekki vilja beygja sig fyrir þessum herrum, sem eru að reyna að svíkja bændur undir sósíalista í landinu, þeir, sem hafa útsendara í landinu til þess að svíkja bændur úr samtökum bændanna í hendur sósíalista.

Ég þykist svo hafa svarað þessum hæstv. ráðh. nægilega og þarf þar engu við að bæta. Ætla ég svo að láta minni ræðu lokið, þó að ýmislegt sé fleira, sem ástæða væri til að athuga, vegna þess að ég vil leifa af tímanum til hv. 10. landsk. — Segi ég svo góða nótt.