18.12.1935
Efri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (2662)

40. mál, iðnaðarnám

Guðrún Lárusdóttir:

Það eru tvær brtt., sem ég hefi leyft mér að bera fram við frv. Viðvíkjandi fyrri brtt., við 10. gr. frv., þá legg ég þar til, að felld verði niður orðin„ þar með talinn pappír, bækur og teikniáhöld, og annað það, sem námið óhjákvæmilega útheimtir“. Lærimeistarinn á þannig bæði að kosta nemandann í skóla og leggja honum til áhöld og annað til námsins. Um þetta má segja, að það er yfirleitt ekki síður, að þessir hlutir séu látnir ókeypis í skólum landsins. Nemendur kosta þetta alstaðar sjálfir, eða aðstandendur þeirra, og virðist því einkennilegt og óeðlilegt að gera þessa breytingu við þennan eina skóla, og einkanlega, þegar tekið er tillit til þess, að þeir, sem stunda nám við þennan skóla, hafa kaup, misjafnlega mikið kaup að vísu, sem fer eftir því, hvað langt er liðið af námstímanum.

Um þetta urðu allmiklar umr. í n., og að vilja meistaranna, sem mest áttu tal við n., flyt ég þessa brtt. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp úr grg. þeirra í bréfi, er þeir sendu til iðnn.:

„Sú hefir verið venja, að lærimeistari greiði kennslukostnað, þ. e. skólagjald, fyrir nemanda, en að nemandi beri sjálfur kostnað við kaup námstækja, svo sem bóka, teikniáhalda o. s. frv.

Kostnaður við öflun og viðhald námstækja getur verið mjög breytilegur, og fer það að miklu leyti eftir því, hve hirðusamur nemandi er um viðhald og varðveizlu þessara hluta.

Eðlilegast er, að nemandinn eigi námstækin sjálfur, því það skapar honum heilbrigt aðhald um hirðusemi og nýtni, en eigi hann lögum samkvæmt aðgang að meistara sínum um ný tæki í stað þeirra, sem fara forgörðum fyrir illa meðferð, þá mundi það hafa spillandi áhrif á uppeldi hans, skapa lærimeistaranum óþarfa útgjöld og vera opin leið til misnotkunar“.

Þannig er grg. þeirra manna, sem óskað hafa eftir því, að brtt. á þskj. 847 væru teknar upp í frv. Ég hygg, að í þessu felist mikill sannleikur. Auk þess hefi ég talað við fleiri menn, m. a. skólastjóra iðnskólans, og borið málið undir hann. Hefir þeim öllum borið saman um, að betra væri, að nemendurnir ættu bækurnar og áhöldin sjálfir, heldur en taka við gömlum áhöldum af öðrum. Mér þykir það því þess vert að taka þetta til greina.

Þá flyt ég brtt. við 12. gr. frv. mér sýnist það muni vera skynsamlegri og eðlilegri leið, að binda þetta ákvæði í tryggingarlögum heldur en hafa það í frv., er lýtur að námi.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um brtt.; hv. d. ræður, hvað hún gerir við þær, en að öllu athuguðu sá ég ekki annað fært en að líta á hag þeirra manna, sem kostnaðinn eiga að bera, engu síður en hinna, sem réttindanna eiga að njóta.