29.11.1935
Efri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (2778)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Frv. það, sem hér er borið fram af meiri hl. fjhn., gerir ráð fyrir um liðl. 900 þús. kr. tekjum í ríkissjóð, og er ætlazt til, að það gildi aðeins fyrir árið 1936. Er það ætlað til alveg sérstakra ákveðinna framkvæmda, svo sem sagt er í 1. gr. frv. og nánar er lýst í grg.

Ef við athugum ástandið í heiminum umhverfis okkur, þá er ekki glæsilegt um að litast. Styrjaldir geisa víðsvegar og minni máttar þjóðir eiga á hættu, að hinar stærri leggi þær undir sig og hafi til þess eitt og annað yfirskyn. Svipað er um viðskipti og verzlun milli þjóða að segja. Þar er allt bundið í hina römmustu fjötra.

Hin afskekkta íslenzka þjóð hefir ekki farið varhluta af þessu ástandi í heiminum, og þótt við séum ekki í stríði við neinn og ætlum okkur ekki að eiga illt við neina þjóð, þá má í raun og veru samt segja, að við séum í umsátursástandi, ekki þannig að skilja, að herskip liggi á siglingaleiðum vorum og teppi ferðir vorar til annara þjóða eða herskip varni siglinga á hafnir Íslands, heldur er okkur meinuð að selja aðalframleiðsluvörur okkar í mörgum löndum, sumpart með algerðu innflutningsbanni á þeim og sumpart eru lagðir á þær svo háir tollar, að ekki er viðlit að selja þær, og loks höfum við sjálfir neyðzt til þess að gera samninga um að minnka innflutning vorn til margra landa.

Þó við gætum selt sumar aðalframleiðsluvörur okkar og vildum jafnvel færa þær niður í verði, þá er víða bann við því að flytja þær inn þar, sem til eru kaupendur og neytendur að framleiðsluvörum okkar. Þetta ástand gerir það að verkum, að aðalframleiðsluvörur vor Íslendinga hafa sumpart verið seldar mjög lágu verði og sumpart verið erfitt að selja þær, og jafnvel má búast við, að svo geti farið, að ekki verði hægt að selja þær allar.

Þetta verzlunarástand í heiminum hefir þau áhrif, að við getum ekki látið allt reka á reiðanum og hagað okkur eins og engar tálmanir væru á sölu íslenzkra vara. við verðum að haga okkur eftir þeim kringumstæðum, sem við lifum undir. Við verðum að takmarka það, sem við kaupum frá útlöndum, vegna þess að við getum ekki selt framleiðsluvörur okkar til þess að greiða allt það, sem við kynnum að þarfnast eða vildum kaupa.

Verzlunarjöfnuðurinn 1934 var mjög svo óhagstæður, og hefir varla verið minni halli á viðskiptum við útlönd það ár en um 10 millj. kr. Slíkt getur ekki haldið áfram, og í rauninni eru allir sammála um það. Jafnvel þær stéttir, sem þetta tekur til, eins og t. d. verzlunarstéttin, hefir lýst því yfir, að hún telji það óhjákvæmilegt, að kaupum á erlendum vörum sé hagað eftir kaupgetu íslenzku þjóðarinnar, það er eftir útflutningnum.

En af takmörkun innflutningsins leiðir aftur það, og einnig vegna erfiðleika á sölu afurða okkar, að vandkvæðin aukast innanlands, og þá verður ríkissjóður að hlaupa í skörðin til uppfyllingar á þeim eyðum, sem verða í atvinnunni, a. m. k. á meðan ekki tekst að veita útflutningnum og verzluninni í annað horf og nýrra markaða er ekki aflað fyrir verulegan hluta af afurðum landsmanna. Meðan þannig stendur á, að atvinnuleysið helzt, þá þarf ríkissjóður fé til þeirra framkvæmda, sem eiga að einhverju leyti að bæta upp það atvinnutjón, sem verður við sjálft atvinnuleysið, þótt rétt sé að játa það, að ef að syrtir enn meira, þá getur ekkert sem heitir komið í staðinn fyrir sjálfar aðalatvinnugreinar landsmanna, ef salan á framleiðslu takmarkast stórkostlega frá því, sem nú er.

En þótt ískyggilegt sé með sumar framleiðsluvörur okkar, þá er óþarfi að örvænta. Tilraunir með nýja framleiðslu sjávarafurða í eigi allsmáum stíl hafa fært okkur heim sanninn um það, hversu mikil og margvísleg auðlegð felst í hafinu við strendur landsins, ef við aðeins getum fært okkur þá auðlegð í nyt á réttan hátt.

En til þess að halda uppi framkvæmdum meðan breytt er til, verður ríkið að afla sér nýrra tekna, ef ekki er búizt við nægilega miklum tekjum af þeim tekjustofnum, sem nú eru á fjárl. ríkisins. Og með því að flokkar þeir, sem nú fara með völd, telja rétt að fylgja þeirri stefnu að reyna að hafa jafnvægi á útgjöldum ríkissjóðs og tekjuöflun, þá hefir það ráð verið tekið að flytja tekjuaukafrv. þau, sem hér liggja nú fyrir.

Um hátekjuskattinn er það að segja, að deila má um það, hvort hann sé of hátt settur. Um þetta hefir verið mikið mál skrifað, og hefir margt af því verið fjarstæða. Sumir hafa ímyndað sér og jafnvel sagt opinberlega, að það sé enginn vandi að afla ríkissjóði tekna með stórlega auknum hátekjuskatti. Hjá manni, sem hefði t. d. 10 þús. kr. tekjur, mætti taka allt, sem væri fyrir ofan 6 þús. kr., í ríkissjóð: þá mætti segja, að ríkissjóði hefði hér verið aflað 4 þús. kr. tekna. Og væri þannig reiknað, mætti sjálfsagt fá út háa reikningslega fjárhæð í ríkissjóð. En þá er ekki gert ráð fyrir neinum gjöldum til þarfa bæjar- og sveitarfélaganna, en allir vita þó, að bæjarfélögin þurfa sinna muna með, og ríkissjóður má ekki ganga svo nærri tekjum, að bæjarfélögin hafi ekkert svigrúm til gjaldaálagningar.

Væri sú leið farin að taka allar tekjur fyrir ofan tiltekið launahámark, þá er hætt við, að þær tekjur kæmu aldrei í ríkissjóð, í fyrsta lagi af því, að launin yrðu ekki ákveðin hærri en svo, að hæfilegur skattur yrði greiddur af þeim, og það er hætt við, að svo geti farið, að þessar tekjur hverfi, eða yrðu þá mjög lítilfjörlegar. Þess vegna verður að ákveða skattinn svo, til þess að hann verði tekjustofn handa ríkissjóði, að skattþegnar hafi þó eitthvað eftir af hverju þúsundi, þar sem skatturinn verður hæstur. Og þá verður að taka tillit til þess, að sami skattþegn á einnig að greiða útsvar til opinberra þarfa síns hrepps eða kaupstaðar.

Í þessu frv. er ætlazt til þess, að bæjar- og sveitarsjóðir fái nokkuð af tekjuskattinum, eða helming, ca. 180 þús., af viðaukanum.

Tollar eru að vonum óvinsælir. Alþfl. hefði kosið aðrar leiðir til tekjuöflunar en þá, að leggja vörugjald á nokkuð af innfluttum vörum, en eins og tekjum ríkissjóðs er nú háttað, hefir ríkissjóður allverulegan hlut af tekjum sínum af vörugjaldi og verðtolli. Og miðað við árið 1933 var það að upphæð 3320 þús., eða 27,5% af tekjum ríkissjóðs, en með þeirri viðbót, sem hér er hugsuð, verða tolltekjur ríkissjóðs þó eigi nema 3 millj. króna eða 20% af tekjum ríkissjóðs. Nú þegar innflutningurinn minnkar, þá þarf ríkissjóður samt að halda tekjum sínum óskertum, til þess að halda uppi framkvæmdum, eins og að undanförnu, og til þess að geta veitt atvinnuvegunum stuðning og jafnframt auknar tekjur, til þess að geta aukið framkvæmdir í landinu og til styrktar alþýðu í landinu, eins og framlag í alþýðutryggingarnar. En landsfólkið í heild greiðir, þrátt fyrir þá gjaldaaukningu, sem felst í frv., minni fjárhæð í ríkissjóð í vörugjaldi og tollinn en t. d. bæði 1933 og 1934. Og vert er að geta þess, að allar þær vörur, sem notaðar eru til framleiðslu til lands og sjávar, eru undanþegnar þessu gjaldi, og einnig helztu og óhjákvæmilegustu nauðsynjar.

Þetta frv. er samkomulagsleið um tekjuöflun milli stjórnarflokkanna, og það er sjálfsagt hvorugur ánægður yfir því að þurfa að leggja á nýja skatta; en það liggur í hlutarins eðli, þegar samið er, að þá getur hvorugur farið þá leiðina um tekjuöflun, sem hann hefði farið, ef flokkurinn hefði einn haft hreinan meiri hl. til þess að skipa þessum málum að sínum vilja. Og við Alþýðuflokksmenn myndum, ef við hefðum haft til þess atkvæðamagn í þingi, farið aðra leið en þá í tekjuöflun að leggja á þetta gjald, þótt ekki hefði verið í einu hægt að aflétta öllum tollum. Athugandi er, að langmestar þær tekjur af innfluttum vörum, sem frv. gerir ráð fyrir, er sumpart á lúxusvörur eða ekki bráðnauðsynlegar vörur, en þó er á nokkrar nauðsynjar lagt gjald, en það er sáralegt.

Sjálfsagt verður einhver til þess að segja, að kaffi og sykur séu tolluð og það séu nauðsynjar. Og má að sumu leyti segja, að svo sé, og sumu leyti ekki.

Fyrir 15 árum var kaffi í raun og veru óhjákvæmileg nauðsyn þurrabúðarfólks, sem ekki átti kost á málnytu, en þetta hefir nú breytzt, sem betur fer. Þeir, sem muna 10—20 ár aftur í tímann, vita það, að víða í sjóplássum hér á landi voru það aðeins örfáir menn, sem höfðu kýr og gátu veitt börnum sínum og heimilisfólki mjólk. Þessa óhjákvæmilegu nauðsynjavöru. Það var skoðað sem sérstök náð, ef fátæka þurrabúðarfólkið gat kríað til pela og pela af nýmjólk hunda sjúklingum og ungbörnum.

Fyrir aukna ræktun er þetta gerbreytt. Í flestum eða öllum sjóplássum og kaupstöðum hefir aukizt gífurlega framleiðsla á mjólk, jafnvel svo, að á sumum tímum árs er hún lítt seljanleg. Og það getur enginn neitað því, að þegar nægilegt er til af mjólk, þá er kaffi ekki orðin jafnóhjákvæmileg nauðsynjavara eins og það áður var, og allra sízt ef tekið er tillit til hins alvarlega ástands.

Þetta gildir að nokkru leyti um sykur. Og þótt ég hafi fyrir 10—15 árum talið t. d. kaffi nauðsynjavöru, af ástæðum, sem þá voru fyrir hendi, en þegar þær breytast, væri það heimskulegur einstrengingsháttur að halda því sama fram endalaust.

Sama gildir um gjald af aðfluttum iðnaðarvörum. Á síðustu árum hefir vaxið upp í landinu á okkar mælikvarða stórfelldur iðnaður. Það væri á sama hátt heimskulegur einstrengingsháttur að halda fram tollfrelsi á aðfluttum iðnaðarvörum, þegar þær er hægt að búa til í landinu sjálfu.

Íslendingar verða sjálfir að greiða fyrir þær framkvæmdir, sem þeir vilja gera, og sjálfir að greiða þau framlög til atvinnuveganna, sem til þeirra er beint og óbeint lagt. við höfum hingað til getað tekið lán til slíkra framkvæmda, og það er líklegt, að við getum fengið lán til sérstaklega arðvænlegra fyrirtækja, sem þá er ætlað að standa sjálfum undir rekstri sínum, en það er hvorki ráðlegt nú né æskilegt að taka lán til almennra þarfa ríkissjóðs. Það kemur aftur að skuldadögum, og gjöld ríkissjóðs vegna erlendra lána eru nú það há, að geta ríkissjóðs að óbreyttu leyfir ekki hærri greiðslur í vexti og afborganir af skuldum. Svo að þessar leiðir til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð má segja, að séu lokaðar. Þá er ekki annað fyrir hendi en að ná þessum tekjum inn með gjöldum ár frá ári, ef ekki á að slá af kröfum um framkvæmdir. Það, sem hv. þm. verða því að meta við sig, þegar þeir greiða atkv. um þetta frv., er þetta: Vilja menn hafa þær framkvæmdir, sem gert er í frv. ráð fyrir, að hin nýju útgjöld beri uppi, eða vilja menn það ekki?