29.11.1935
Efri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (2782)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Þegar hv. 1. þm. Reykv. var að tala, datt mér í hug samtal milli tveggja bænda í ungdæmi mínu. Þeir voru að tala um nágranna sinn, eins og gerist og gengur, og sögðu: „Hann er ekki lyginn, hann Guðmundur á Eyri; hann er bara svona smáskreytinn, þegar það dettur í hann.“ Svipað er hægt að segja um hv. 1. þm. Reykv. Helztu reipin í ræðu hans voru smáskreytni, auk þess sem hann hafði buxnatölur og eina krónu til þess að fleyta sér á.

Hv. þm. var að tala um hroll í stjórnarflokkunum, en ef hrollur er í okkur, þá er áreiðanlega galsi í honum. Hann hefir út af vonbrigðum sínum verið að reyna að gera sér upp gleði, og úr því hefir orðið þessi galsi. Þeir finna ekki til mikillar gleði núna, sjálfstæðismenn og bændaflokksmenn; þeir hafa beðið og vonað meðan „sáttanefndin“ hefir starfað. (MG: Var það ekki ósáttanefnd?). Ef ég má ekki taka upp orð hv. 1. þm. Reykv. án þess að hv. 1. þm. Skagf. hneykslist, þá þykir mér nú orðið vandlifað.

Þá var hv. þm. að bera það á okkur í stjórnarflokkunum, að við værum tómir svikarar. Þar brauzt fram hið rétta hugarfar, sem undir niðri ríkir hjá sjálfstæðismönnum. Hann sagði sem sé, að Framsfl. og Alþfl. hefðu alltaf verið að svíkja síðan 1927. Þá lofuðu þeir öllu fögru fyrir kosningarnar, en sviku allt og hafa síðan alltaf verið að lofa og svíkja. En hvernig er þetta annars? Hvað hafa verið margar kosningar síðan 1927? Ég held, að þær hafi víst verið einar þrjár. Og hvernig í dauðanum stendur á því, að kjósendur í landinu hafa ekki rekið þessa svikara frá völdum og falið hinum ágætu sjálfstæðismönnum að fara með völd? (MG: Það var gert á tímabili). Já, hv. 1. þm. Skagf. er ánægður yfir því, að Framsóknarfl. lofaði honum að grípa í stjórnartaumana, aðeins til þess, að hann gleymdi ekki að sitja í stjórnarráðinu. En hvað skeði þá? Það, að Sjálfstfl. tapaði svo við það, hvað hann stýrði klaufalega þessi hv. þm. og fyrrv. ráðh., að hann fékk ekki þau völd, sem hann hafði vonazt eftir. Helzta afrekið frá þessu tímabili er það, að stofnuð var fjölmenn ríkislögregla, sem þó varð ekki eins fjölmenn og til var ætlazt, og svo gleymdist að borga henni. Það var eins og með síldarbraskarann, sem ekkert átti, þegar hann byrjaði, og tapaði á öllu síldveiðitímabilinu, svo að hásetarnir urðu að selja skipið fyrir kaupi sínu. Það var kannske einhverjum borgað úr ríkislögreglunni, en skuldin var skilin eftir um áramót í ríkissjóð, bætt við sem halla á fjárl. Það var þetta stjórnarfar, sem gerði það að verkum, að þjóðin var ekki fíkin í að fela sjálfstæðismönnum að fara með völdin í landinu. Og þess vegna er það, að þessum „svikurum“, sem hv. 1. þm. Reykv. var að tala um, hefir aukizt fylgi ár frá ári, eins og greinilegast kom í ljós við síðustu kosningar. Margir höfðu samt álitið, að Sjálfstæðisfl. hefði meira fylgi heldur en raun varð á, en það eru verk hans, sem hafa talað meðal þjóðarinnar, og þau hafa hvíslað því að kjósendum, að ekki væri ráðlegt að fela þeim að fara með völdin framar.

Í ræðu hv. 1. þm. Reykv. gegn þessu frv., sem hér er um að ræða, voru bókstaflega engin rök. Og hvers vegna? vegna þess, að hann þorir ekki að svo stöddu að ganga á móti þeim málum, sem framkvæma á fyrir þessa tekjuöflun. Sjálfstæðismenn hafa enn ekki þorað að rísa upp gegn þessum málum, en mér þætti sennilegt, eftir framkomu flokksins fyrr og síðar, að ef hann reði, þá mundu þessi mál ekki komast í gegn. (MJ: Hvar eru peningarnir til trollaranna?). Mér heyrist nú, að sjálfstæðismenn hafi ekki tekið sterklega í það mál, og það er ekki auðvelt fyrir Alþfl. að koma fram málum, sem kannske Framsfl. og Sjálfstfl. eru á móti. Annars ætti þessi hv. þm. ekki að tala í glensi um þessi mál, því það er eitt af alvarlegustu málum okkar, hvernig við eigum að endurbyggja skipastólinn. Útgerðarmenn hafa ekki verið þess megnugir á undanförnum árum, og enginn hefir lýst skipastólnum í landinu verr heldur en hv. þm. G.-K., sem í fyrra kallaði togarana okkar ryðkláfa. Hv. 1. þm. Reykv. ætti því ekki að hafa það að glensi hvernig fara eigi að því að endurbyggja togaraflotann; hann og hans flokkur stendur á móti því að það sé gert af því opinbera, þegar togaraeigendur eru ekki færir um að gera það.

Hv. 1. þm. Reykv. byrjaði ræðu sína með smáskreytni. Hann sagðist hafa farið fram á það í fjhn. að fá dálítinn frest til þess að athuga þetta stóra mál, en ekki fengið hann. Sannleikurinn er sá, að á þriðjudaginn var haldinn fundur í fjhn., að afloknum stuttum deildarfundi, og var þá málið tekið fyrir. Þá bað hv. þm. um frest, og ég sagði, að hann gæti fengið hann til kl. 5, til þess að hægt væri að útbýta málinu daginn eftir. En hv. þm. taldi sér ófullnægjandi að fá þennan 4—5 tíma frest, sem hann segist nú hafa beðið um og ekki fengið.

Þá var hv. þm. að tala um það, að það væri ekkert lýðræði, að flokkar, sem færu með stjórn, kæmu sér saman um mál og kæmu þeim þannig fram. Ég veit nú ekki betur en að svona gangi það til í öllum lýðræðislöndum, þar sem fleiri en einn flokkur fer með völd. Stjórnarflokkarnir koma sér saman um þau mál, sem eiga að ganga fram, og ef þeir hafa ekki atkvæðamagn til þess að koma þeim gegnum báðar d. þingsins, eins og stundum kemur fyrir, þá verða þeir að taka upp samninga við fleiri flokka. En ef stjórnarflokkar geta komið fram málum, þá semja þeir aðeins sín á milli um þau mál, sem þeir ætla að koma fram. Það er ekki þar fyrir, ég gæti vel hugsað mér þá leið, að þegar stjórnarflokkarnir væru búnir að koma sér niður á eitthvað, þá væru teknir upp samningar við andstöðuflokkana. En Sjálfstæðisfl. hefir ekki hagað sér þannig í samvinnu um mál, að mér finnist sérstök ástæða til að gera ráð fyrir því, að hann taki því á þinglegan hátt. Ég gæti bezt trúað því, að hann notaði sér það til þess að byrja „agitation“ á móti þeim málum, sem þá væru í samningum milli flokka. Enda hefir Sjálfstæðisfl. gengið út úr samvinnu um ein allra mikilvægustu málin, sem fyrir liggja, svo það er síður en svo nokkurt brot á lýðræði, þó þeim flokki, sem þannig hagar sér, sé ekki boðin samvinna um mál. Þar að auki gat hv. þm. fengið þennan frest til þess að athugu málið, og ef hann að þeim tíma liðnum hefði komið með ærleg skilaboð frá Sjálfstfl. um það, að hann vildi um þessi mál fjalla, þá tel ég víst, að undir það hefði verið tekið.

Hv. 1. þm. Reykv. gerði sér, eins og vænta mátti, gott af kaffi- og sykurtollinum, sem felst í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Það var um þetta eins og aðra smáskreytni hjá hv. þm., að hann gerði meira úr þessu 5% gjaldi, sem nú er gert ráð fyrir í frv., samanborið við þann gengisviðauka, sem létt var af kaffi og sykri í fyrra. 5% gjaldið er tæpir 4 aurar á kg. af kaffi, en gengisviðaukinn var 15 aurar á kg. Á strausykri yrði þetta gjald 3/4 úr eyri á kg., en hér um bil 1 eyrir á kg. af höggnum sykri, en gengisviðaukinn var um 4 aurar á hverju kg. Það er því mikill munur á því, hvað þetta gjald er miklu minna heldur en gengisviðaukinn var. (MJ: Ég er nú hræddur um, að þessi reikningur sé ekki alveg nákvæmur).

Þá kom hv. 7. þm. Reykv. inn á vandræðin hér, og hann vildi ekki ganga inn á það, að við værum neitt snertir af því ástandi, sem í kringum okkur væri, það þyrfti a. m. k. ekki í raun og veru að koma við okkur. Mér finnst þetta vera nú nærri því stórskreytni hjá hv. þm., — því hvers vegna getum við ekki selt okkar vörur? Er það ekki af utanaðkomandi áhrifum? Það strandar allt á því, að þjóðirnar hafa girt sig með háum tollum eða þá algerðu innflutningsbanni. Og þessi vandræði eru því að kenna, að við erum ekki frjálsir að selja né kaupa þá vöru, sem við þurfum. Ef við getum ekki selt, þá höfum við ekki heldur peninga til að kaupa þær vörur, sem okkur vantar. Um allt þetta vildi hv. þm. kenna stríðinu; það var alveg eins og hv. 1. þm. Reykv. vildi kenna stjórnarflokkunum hér um stríðið milli Ítalíu og Abessiníu. Ég skil ekki, hvernig þessi hv. þm. hugsar, ef hann fær ekki séð, að það komi neitt við okkur, hve mikinn markað við höfum misst fyrir okkar afurðir. Við höfum misst helminginn af því, sem við áður höfum selt til Spánar, 1/4 af markaðinum í Englandi, um helming af markaði okkar í Ítalíu o. s. frv. Sér þessi hv. þm. ekki eða skilur, hve mikinn hluta við höfum misst af sölu okkar til annara landa? Hv. þm. komst einu sinni svo að orði í ræðu sinni, að formælendur þessa máls, þ. e. ég og hæstv. fjmrh., hefðum sagt, að þetta væri lúxusskattur. Þetta er smáskreytni hjá hv. þm. Hæstv. fjmrh. er búinn að reka þetta ofan í hann fyrir sitt leyti. Ég vil gera hið sama og leyfi mér því að lesa upp þann kafla í ræðu þeirri. er ég flutti áðan, sem hv. þm. reynir að finna út úr orðið lúxusskattur.

„Athugandi er, að langmestar þær tekjur af innfluttum vörum, sem frv. gerir ráð fyrir, er sumpart á lúxusvörur eða ekki bráðnauðsynlegar vörur, en þó er á nokkrar nauðsynjar lagt gjald, en það er sáralágt.“

Ég veit ekki, hvernig hv. þm. getur fundið það út úr orðum mínum, að ég hafi sagt, að gjald þetta væri lúxusskattur, því það hefi ég aldrei sagt.

Þá var það ein smáskreytni hjá hv. þm., að sendisveinar hefðu 3000—4000 kr. árslaun og kæmust því undir hátekjuskatt.

Þá kom hv. þm. að því, að þetta væri enginn stuðningur við framleiðendur, þó til þessa væri veitt fé. Það er nú svo, að hlutverk ríkisstj. og Alþingis er að veita stuðning þeim atvinnugreinum, sem líklegar eru til þess að verða þjóðinni að gagni og veita nokkrum hluta hennar lífsuppeldi. Þess vegna gera stjórnarflokkarnir tilraun til þess að flytja fé í slíkar atvinnugreinar eða þær framkvæmdir, sem létta byrðarnar og lífsbaráttu þeirra fátækustu. Má þar nefna t. d. nýbýlamálið, þar sem á að skapa atvinnu fyrir fólk, sem ekki kemst nú að í sveitinni og annars mundi flytja á mölina, en með þessu gefst kostur á að framleiða sér til lífsframdráttar. Er hér verið að ganga inn á brautir, sem verður að fara, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Eða þá alþýðutryggingarnar, sem ekki eiga síður að létta lífsbaráttu fátæka fólksins. Að vísu er því gert að leggja nokkuð fram á móti, en það er verið að skapa því öryggi um afkomumöguleika.

Ég skil það ósköp vel, að þessi mál o. fl., sem nú eru borin fram, eru þyrnir í augum sjálfstæðismanna og þar með hv. 1. þm. Reykv. Og það er þess vegna, sem bræðin brýzt út og veldur ósæmilegum málflutningi og smáskreytni, eins og varð hjá hv. 1. þm. Reykv. Það er vonzka yfir því, að stjórnarflokkarnir eru að koma fram þessum málum til bjargar þjóðinni.

Ég skil vel, að sjálfstæðismenn langi til að vera á móti þessum málum. Þeir hafa sýnt það í verkinu, þegar þeir hafa átt kost á að ráða málum, að þeir eru á móti málum eins og alþýðutryggingum og nýbýlum, sem skapa alþýðustéttinni betri kjör, og það er þessi mótstaða þeirra, sem hefir gert það að verkum, að þeir fengu ekki völdin hjá þjóðinni við síðustu kosningar, eins og þeir sárvonuðust þó eftir, og þeir hefðu áreiðanlega fengið, ef það væri rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., sem hann sagði, að stjórnarflokkanir hefðu verið að svíkja síðan 1927. En það er af því, að það hafa þeir ekki gert. Þeir hafa haldið loforð sín, og fara þess vegna nú með völdin í landinu.