09.12.1935
Sameinað þing: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

1. mál, fjárlög 1936

Frsm. 2. kafla (Bjarni Bjarnason):

Ég ætla ekki að svara hv. þm. Ísaf. að því er snertir lagalegu hliðina á niðurfellingu á prentun umræðuparts þingtíðindanna, enda hefir hv. 1. þm. Skagf. gert það, nógu rækilega. En ég vil biðja hv. þm. Ísaf. um að athuga það í fyrsta lagi, að það eru tiltölulega fáir, sem lesa þingtíðindin núna, og geri ég ráð fyrir, að þeim fari fækkandi, eftir því sem þingfréttir eru greinilegar fluttar út um landið bæði af blöðum og útvarpi. Ég hygg, að þarfara væri að verja því fé, sem fer í þessa prentun, til margs annars. t. d. að einhverju leyti til atvinnuveganna eða til verkafólksins. Ég álít algert ósamræmi í því, að fé skuli vera eytt í slíkan óþarfa, sem hér um ræðir, samtímis því sem menn eru í vandræðum með marga óhjákvæmilega útgjaldaliði. Verði þetta samþ., þá leiðir það auðvitað af sjálfu sér, að skjalaparturinn og öll nál. verða mun nákvæmari, og í þeim getur komið fram stefna manna í málunum. Ennfremur verða tíðari nafnaköll þessu samfara en nú, þegar hver þm. getur haldið ræðu, sem hann veit, að verður prentuð, í þeirri von, að hún verði lesin af fjölda manna úti um land. Er þannig í gegnum nafnaköll og nál. auðvelt að komast að skoðun manna og stefnu í málunum, því að það er það eina, sem kjósendur landsins varðar um, en hitt skiptir sáralitlu og í mörgum tilfellum engu máli, hvaða orð menn nota um stefnu sína og skoðanir.

Þá vil ég svara hv. 1. þm. Reykv. með örfáum orðum að því leyti sem hann gerði aths. við 102. brtt. við 14. gr., sem ég mælti með. Sú till. fjallar, eina og kunnugt er, um lækkun á embættiskostnaði presta. Ég skal geta þess strax sem öllum hv. þm. er ljóst, að fjvn. hefir ekki verið ljúft að gera allar till. sínar til sparnaðar, og skal ég til dæmis um það aðeins nefna mjög litla upphæð til utanfarar lækna og kennara. Ég gat um það í ræðu minni á laugardaginn. að þetta væri samt sem áður gert með tilliti til nauðsynlegs sparnaðar, og líka með tilliti til gjaldeyrisvandræða. Okkur er það vissulega vel ljóst, að a. m. k. margir af prestunum hafa fulla þörf fyrir þetta fé, sem hér er um að ræða. En þetta er samt sem áður eitt af því, sem þeir hafa fengið sem skrifstofu og ferðakostnað fyrir fáum árum, og ég verð að halda því fram, að ferða- og skrifstofukostnaður þeirra geti ekki talizt bein útgjöld svo neinu nemi fyrir prestana. En sé svo, þá stafar það af því, pestarnir gegna fleiri en einn prestakalli og hafa þá ef til vill bíl til afnota, en þá aukast tekjur þeirra líka í hlutfalli við það, sem starfið eykst, eða meira sennilega. Það munu vera rúml. 100 prestar á landinu, svo að þetta yrði tæplega 300 kr. lækkun til jafnaðar á mann eða 240–340 kr., eftir því hve háa upp hæð hver hefir fengið, sem er nokkuð mismunandi. Margir af prestunum eru efnalitlir. Þetta munar þá því nokkru.

Hv. 1. þm. Reykv. benti á það í þessu sambandi, að ein einasta n., fiskimálan., kostaði 54 þús. kr., eða 20 þús. kr. meira en ætlazt væri til, að færi í embættiskostnað presta. Í þessu sambandi vil ég aðeins benda á, að það er nú einu sinni svo í okkar þjóðfélagi, að allir þeir, sem við einhverja verzlun fást, fá miklu hærri laun heldur en embættismenn ríkisins, sem fá föst laun samkv. launalögum. Þess vegna er ekkert undarlegt, þó finna megi menn, sem vinna við atvinnuvegina, sem hafa meira kaup. Annars hefði hv. þm. getað nefnt annað dæmi, miklu meira áberandi, og á ég þar við laun í fisksölusamlaginu, þar sem 3 menn fá t. d. yfir 63 þús. kr. í laun á ári, en í fiskimálanefnd eru þó 10 menn. Annars geri ég ráð fyrir, að ef fjvn. næði til þessara og ýmsra annara hálaunamanna, þá myndi hún fús til að gera till. um lækkun á launum þeirra, og það til mikilla muna.

Þá er hitt atriðið, um styrkinn til stúdentanna. Ég viðurkenni fúslega, að það sé nauðsynlegt fyrir háskólann að gefa út bækur og styrkja kandídata og jafnvel prófessora til utanferða. En ég vil spyrja hv. þm., hvort hann hafi ekki aðstöðu til þess að beita sér fyrir einhverjum sparnaði á bókaútgáfu háskólans, svo eitthvað geti sparazt af því fé, sem til hennar er ætlað, sem verja mætti til styrktar fátækum stúdentum til utanfarar o. fl. Það má vel vera, að hv. þm. haldi því fram, að svo sé um hnútana búið hvað að Sáttmálasjóðinn snertir, að þar sé engu hægt að þoka frá því, sem nú er. Hvað mig snertir, þá hefi ég ekki trú á því, og ég vil biðja hv. þm. og aðra að athuga það, hvort ekki sé réttlátt, að stúdentar njóti nokkurs hluta hins gamla Garðstyrks sem húsaleigu- og námsstyrks. — Skal ég svo ekki hafa fleiri orð um þetta.

Að síðustu vil ég svo mælast til þess við hæstv. forseta, að hann gefi fjvn. kost á að athuga brtt. þær, sem komið hafa fram síðan hún hélt fund síðast. En það þýðir, að fresta verður umr. til morguns. Því að n. getur ekki haldið fund fyrr en kl. 9 árdegis á morgun.