13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1902 í B-deild Alþingistíðinda. (2850)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.:

Ég ætla aðeins að minnast á stærstu atriðin í þeim aths., sem fluttar hafa verið. — Hv. 6. þm. Reykv. fann hvöt hjá sér til þess að taka upp vörn fyrir sitt kjördæmi, eins og hann kallaði það, þ. e. a. s. mæla á móti þeirri gagnrýni á fjármálastjórn Rvíkur, sem ég kom fram með. Með því að gera þetta hefir hv. þm. gert það, sem ég einmitt vildi, að hann gerði. Ástæðan til þess, að ég hóf ádeilu á fjármálastjórn Rvíkur var sú, að ég vildi fá hv. þm. til þess að taka upp vörn fyrir hana. Og það var af þeirri einföldu ástæðu, að ég var búinn að sýna fram á það, að þeir, sem stjórna fjármálum Rvíkurbæjar, hafa hvorki meira né minna en tvöfaldað þá upphæð, sem þeir kröfðust af skattborgurum sínum árið 1929, en ríkisstj., sem íhaldið vill telja mesta skattræningja, sem þekkzt hefir, hugsar hinsvegar ekki hærra en það, að ná inn tæplega sömu upphæð eins og 1929. Nú hefir hv. 6. þm. Reykv. tekið sér fyrir hendur að verja þá, sem eru tvöfalt meiri skattræningjar heldur en ríkisstj. Þetta er mér nóg. Það er fullnægjandi vopn gegn hv. þm. og öðrum, sem deila á okkur á þessum grundvelli.

Þá var hv. þm. Vestm., auk þess sem hann talaði fyrir brtt. sínum, sem ég ætla ekki að fara út í, að minnast hér á, hvernig sjálfstæðismenn hefðu farið að samkv. sínum kenningum, ef þeir hefðu verið við völd. (JJós: Hvernig þeir hefðu ekki farið að). Hv. þm. var í mestu vandræðum með þetta, og í staðinn fyrir að svara því beint, var hann að tala um, hvernig farið hefði, ef þeir hefðu gert þetta og þetta, sem þeir ekki ætluðu að gera. Hvað var það, sem hv. þm. ætti að leysa úr? Hann átti að leysa úr því, hvernig sjálfstæðismenn hefðu komið jöfnuði á fjárl., ef þeir hefðu ráðið og ekki viljað samþ. þær álögur, sem stjórnarfl. hafa samþ. Hvernig þeir hefðu getað fært útgjöld ríkisins niður um 4 til 5 millj. eða aflað tilsvarandi tekna án þess að fara þær leiðir, sem þeir fordæma ríkisstj. fyrir. Það gerði hann ekki, — hann á það eftir. Og hann mun aldrei geta fært rök fyrir því, að hægt sé að færa útgjöld fjárl. niður í 11 millj., nema þurrka um leið gersamlega út öll framlög til verklegra framkvæmda.

Annað kom fram í ræðu hv. þm., sem mér þótti vænt um að heyra. Hann sagði, að sjálfstæðismenn mundu aldrei fara að eins og Framsókn hefði gert, að láta undan stórum kröfum frá litlum flokki. Nú er öllum mönnum kunnugt, að til er hér Bændafl., sem byrjaði tilveru sína á því í síðustu kosningum, að hann mundi koma fram stórfelldum umbótum fyrir bændur með því að starfa með sjálfstæðismönnum. Og ennþá flytur sá flokkur till., sem hann segir bændum, að hann hefði getað komið fram, ef hann hefði fengið aðstöðu til að ráða í þinginu, — þ. e. a. s. ef hann hefði getað selt sig Sjálfstfl. Nú hefir hv. þm. Vestm. lokað þeim möguleika fyrir honum. (HannJ: Það er bezt fyrir stj. að segja af sér og sjá, hvernig fer). Hv. þm. sagði, að það kæmi ekki til mála að láta undan litlum flokki með stórar kröfur. Ég álít, að hann geri þarna miklu erfiðari aðstöðu sinna starfsbræðra heldur en ástæða er til. En honum hefir orðið þetta á vegna þess, hvað hann er í miklum vandræðum með að sýna fram á, hvernig sjálfstæðismenn hefðu getað fylgt þeirri stefnu, sem þeir hafa nú í stjórnarandstöðu, ef þeir hefðu farið með völd. Það mun því hafa verið óviljaverk, en ekki af því, að hv. þm. hafi viljað gera Bændafl. þennan ógreiða.