17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (2886)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Thor Thors:

Ég skal ekki lengja umr. mikið, en áður en málið fer út úr d., langar mig til þess að ná í taglið á því. Hér er enn við síðari umr. málsins lagt til að auka skatta á þjóðinni um 250-300 þús. kr., ofan á 1 millj. og 200 þús. kr., sem fyrir voru í þessu frv. Þetta gera þeir sömu flokkar, sem á sínu fyrsta þingi hækkuðu skatta og tolla um 2 millj. kr. Á þessum tveim þingum hafa skattaálögur og aðallega þó tollar hækkað samtals um 31/2 millj. kr.

Þegar þinginu var frestað í apríl síðastl., þá var það gert vegna þess, að það þótti fyrirsjáanlegt, að svo slæmar horfur væru framundan fyrir sölu afurðanna, að fjárl. voru allt of há eins og þau þá voru. Þetta var hin raunverulega ástæða fyrir þingfrestuninni. Nú er komið að þingslitum, og hvað hefir gerzt síðan? Það, að útgjöldin hafa verið hækkuð á þjóðinni um 11/2 millj. kr., - og á hvaða forsendum og með hvaða viti? Hefir það mikið rofað til um sölu afurðanna, að það sé þess vegna hægt að leggja þessar nýju álögur á þjóðina? Það er öllum kunnugt, að allar álögur hvíla á atvinnulífi þjóðarinnar. Ég get ekki séð, að viðhorfið hafi neitt breytzt í þessu efni frá því á fyrri hluta þessa þings, og mér þætti mjög vænt um að fá þá gleðifregn frá hæstv. stj., sem gæti réttlætt þetta. Mér er ekki kunnugt um annað en að einmitt síðustu daga hafi sölumöguleikarnir versnað stórkostlega erlendis, og að eitt af okkar aðalviðskiptalöndum, Ítalía, geti á næsta ári engar vörur af okkur keypt, nema með því móti, að við tökum vörur af þeim í staðinn, og ég veit ekki betur en að Spánverjar séu mjög tregir til þess að kaupa mikið af okkur og að það megi jafnvel búast við, að þeir setji sömu skilyrði og Ítalir. Þegar þessar fregnir berast hingað, þá hlýtur hæstv. stj. að hafa fengið einhverjar aðrar fregnir, sem þingheimur veit ekkert um, fregnir, sem geta réttlætt þessa þungu álagaaukningu á þjóðinni og atvinnulífinu. En meðan þessar gleðifregnir koma ekki, þá verð ég að staðhæfa, að ekkert vit sé í þessari meðferð fjármálanna hér á hv. þingi undir stjórn þeirra flokka, sem nú fara með völdin í landinu.