17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (2890)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það hefir nú þegar verið sent fram á, að flutningur þessa máls væri óvenjulegur og óviðkunnanlegur. En ég verð að taka dýpra í árinni, því að ég verð hreint og beint að telja hann alveg ósamrýmanlegan stjórnarskránni. Ég veit nú að vísu, á ekki líður yfir stjórnarsinna, þótt ymprað sé á þessu, því að í þeim herbúðum reiknast það ekki til neinna dauðasynda, þótt þingið verði nærgöngult við stjórnarskrá landsins, ef það er í þágu stj. og flokka hennar. En mér þykir þó rétt að taka þetta skýrt fram og láta því ekki ómótmælt, að grundvallarlög landsins séu brotin svo augljóslega sem hér er stefnt að.

Í 35. gr. stjskr. er svo ákveðið, að engan skatt megi leggja á, breyta né af taka, nema með lögum. En í 39. gr. er hinsvegar skýrt ákveðið um það, hversu með lagafrv. skuli fara, svo að þau geti orðið að lögum. Þau skal ræða þrisvar í hvorri deild, og að lokum í Sþ., ef ekki næst samkomulag.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ásamt brtt. í rauninni þrjú lagafrv. Eitt er um breyt. á tekju- og eignarskatti, annað um breyt. á verðtolli, og hið þriðja um breyt. á benzínskattinum. Um tvö hin fyrstu er ekkert að segja að því leyti, að þau hafa farið lögskipaða boðleið gegnum báðar deildir. En þriðja frv., um benzínskattinn, á að sæta þeirri meðferð, að vera rætt aðeins einu sinni í hvorri deild, sem samkv. stjskr. er alveg ólögmætt.

Það liggja líka fyrir forsetaúrskurðir um, að lögum verði ekki breytt með fjárlagaákvæðum, vegna þess að þá sæti lagabreytingar allt annari meðferð en stjskr. ákveður. Forsetar hafa margsinnis lýst yfir því, bæði í tíð hæstv. núv. forseta þessarar deildar og áður, að ástæðan til þess, að þeir vísuðu frá slíkum till., væri sú, að á þennan hátt fái lagabreytingar ekki þá löglegu meðferð, að ganga gegnum þrjár umr. í hvorri deild. Nú er frv. að vísu oft breytt á þann hátt, að brtt. komast inn í þau. En þar verður þess fyrst og fremst að gæta, hvort breytingin er viðvíkjandi einhverju ákveðnu málsatriði eða málinu alveg óviðkomandi.

Hér er hvað benzínskattinn snertir ekki um neina brtt. að ræða, sem komi efni hins upphaflega frv. við, heldur alveg nýja lagasetningu. Því er hér stofnað til alveg óleyfilegrar meðferðar á málinu og ólöglegrar afgreiðslu þess. Hér eru brotin tvö ákvæði stjskr., bæði ákvæðið um almenna meðferð á löggjafarmálum og hið sérstaka ákvæði um það, hvernig megi leggja á skatta.

Ég hefði vænzt þess, að forseti hefði þegar vísað till. þessari frá af sjálfsdáðum. Ég er þó ekki að áfellast hann fyrir það, að hafa ekki þegar gert þetta, en ég vænti þess fastlega, að hann kveði upp úrskurð þess efnis, eftir að á þetta hefir verið bent.

Til áréttingar vil ég benda á þann þingsið, að afgreiða hverja lagasetningu, sem talið er liggja mjög á, með þeim hætti, að afgreiða hana á skyndifundum með afbrigðum frá þingsköpum. En ef það vari ekki talin skylda samkv. stjskr., að málin gangi gegnum þrjár umr. í hvorri deild, þyrfti engra afbrigða við, því að þá gæti stj., eins og nú er stefnt að, borið fram brtt. við eitthvert alveg óskylt lagafrv. um það, sem hún vill fá fram, við síðustu umr. í síðari deild, fella þannig niður hverja einstaka grein þess frv. og setja inn nýja grein um allt annað efni, breyta síðan fyrirsögn frv. og senda síðan til hinnar deildarinnar til einnar umr. En þetta er bara ekki gert, heldur fengin skyndiafgreiðsla með afbrigðum frá þingsköpum, af því að hin aðferðin er talin óheimil, eins og hún líka er.

Afgreiðsla sú sem hér er áformuð, er því ólögleg og ógild, þótt hún næði fram að ganga. Ég tel slíkt ósæmilegt og vanti þess því, að hæstv. forseti úrskurði þessa till. frá atkvgr., til þess að firra þingið því hneyksli.

Ég hefi ekki miklu við það að bæta, sem sagt hefir verið um sjálft málið. En þó er alveg sérstök ástæða fyrir mig að tala um benzín- eða bifreiðaskattinn, því ég hefi verið á móti honum frá upphafi og átt því láni að fagna fram á síðustu tíma, að eiga öfluga liðsmenn hér á þingi, sem af miklum áhuga hafa beitt áhrifum sínum til að hindra þennan skatt. Þessir bandamenn hafa, þangað til nú, verið þm. Alþfl. Mér fellur því illa að sjá þá nú hlaupa undan merkjum og ganga í óvinahópinn.

Það hafa ávallt verið rök okkar, að þetta væri ranglátasti og tilfinnanlegasti neyzluskattur, sem til er í þessu strjálbyggða landi. Við höfum talið það ranglátt og skaðlegt, að hömlur væru lagðar á það með löggjöf, að menn geti aflað sér bjargar og komið frá sér afurðum. Og við höfum líka bent á, að það er fullkominn misskilningur, að benzínskatturinn sé ekki ranglátari og hættulegri hér en erlendis. Hv. 11. landsk. hefir enn sýnt fram á þetta nú, og hefi ég þar litlu við að bæta.

Þetta land er svo miklu strjálbyggðara en öll önnur nálæg lönd, að þar er ekki hægt að gera neinn samanburð. Er óhætt að segja, að hér séu allar vegalengdir tífaldar vegna strjálbýlis. Auk þess eru í öllum þessum löndum annarskonar samgöngur, járnbrautir, sem hið opinbera annaðhvort rekur eða telur sér skylt að styrkja. Þessar samgöngur vill hið opinbera eðlilega vernda gegn samkeppni frá bifreiðum. Flutningsgjöld í þessum löndum eru ákveðin af þeim, sem ráða yfir járnbrautunum. Bifreiðaflutningar eru ódýrari, en nægja ekki einir. Því er talið nauðsynlegt að halda járnbrautunum og leggja hömlur á samkeppni bifreiðanna. Benzínskatturinn hefir því engin áhrif á flutningsgjöld járnbrautanna, því að benzínverðið er ákveðið af öðrum aðilja en þau. Bifreiðarnar verða að hætta, ef þær þola ekki samkeppnina við járnbrautirnar. En hér kemur hver eyrir í benzínskatt fram í hækkuðum flutningagjöldum, sem leggst á framleiðendur og ferðamenn. Því er ekki hægt að gera neinn samanburð við Ítalíu eða önnur lönd að þessu leyti. Hér verkar skatturinn sem bein íþynging fyrir alla flutninga og framleiðslu. Og sú íþynging verður ekki aðeins eyrir fyrir eyri, heldur eins og hv. þm. G.-K. hafði eftir hv. 2. þm. Reykv., tveir aurar fyrir eyri. Það má leiða töluverð rök að því, að þetta hefir verið svo. Því hvernig sem á því stendur, þá er verð á benzíni hér allt að því helmingi hærra en í nágrannalöndunum. Vitanlega er það ekki af því, að benzínið sé hér í sjálfu sér dýrara, en það verður svona miklu dýrara í meðförunum. Þar af leiðir, að það, sem á benzínið er lagt, eykur verðið líka að sama skapi. Mér er sagt, að þessi mikla viðbót við innkaupsverðið standi í sambandi við þá áhættu, sem fylgir verzlun með þessa vöru, og er auðséð, að sú áhætta hlýtur að aukast við þennan nýja toll og verðhækkunin að verða tvöföld miðað við tollinn. Ef þarf að tvöfalda verð á benzíni af þeim ástæðum, sem ég hefi nú drepið á, er auðsætt, að tollurinn kemur einnig tvöfaldur fram í söluverðinn. Af þessu geta menn séð, að ummæli hv. 2. þm. Reykv. á þingi 1930 um, að 200000 kr. benzíntollur í ríkissjóðinn þýddi 400000 kr. úr vasa almennings í landinu, sem nota þessa vöru. Þetta er það raunverulega og sanna í málinu, og þó það þyki alls ekki sjálfsagt, að það, sem þessi hv. þm. hefir sagt í þessu og öðrum tilfellum, sé allt sem áreiðanlegast, þá má þó geta þess, að vegna stöðu sinnar hefir hann aðstöðu til að vita hið sanna í þessu efni.

Það er þessi skattur, sem ég hefi jafnan barizt gegn hér á þingi, og Alþfl.þm. hafa allt að þessu barizt gegn honum líka. Því veit ég, að þeir hljóta að skilja það, hve sárt mér er að sjá á bak þessum samherjum mínum í þessu máli, sjá þá leggja á flótta og bregðast svo mjög því trausti, sem þeir hafa notið vegna baráttu sinnar í þessu máli. Því það er alveg víst, að sá mikli vöxtur í þingmannaliði Alþfl. nú á síðustu tímum stafar m. a. af því, hve þeir hafa hér barizt einbeittir gegn þessum skatti, fyrir hagsmunum almennings, og að þess hefir verið vænzt, að þeir heldu þeirri baráttu áfram. Nú hefir reynslan sýnt, að þetta traust hefir verið oftraust, þar sem þeir hafa nú svikizt svo geipilega frá sinni stefnu í málinu, sem brtt. um benzínskattinn hér vitni um, eins og þeir yfirleitt hafa svikið stefnu sína í tollamálum.

Hæstv. atvmrh. sagði eftirtektarverð orð í svari sínu til hv. þm. G.-K. Þó hv. þm. G.-K. hafi að vísu svarað þeim, þá vil ég leyfa mér að vekja á ný athygli hv. þm. á þessum orðum hæstv. ráðh. Hann sagði, að það hefði verið allt öðru máli að gegna með aðstöðu Alþfl. til benzínskattsins 1930 heldur en nú. Þá hefðu verið nóg önnur ráð fyrir hendi til að afla fjár handa ríkissjóði, þá hefði legið fyrir frv. Alþfl. um hækkun á tekju- og eignarskatti, en þingið hefði ekki viljað samþ. það Þess vegna hefði Alþfl. algerlega beitt sér gegn benzíntollnum, eins og öðrum tollum yfirleitt. Það er nú að vísu svo þegar athuguð er farin braut Alþfl. í tollamálum, þá er hún nú nokkuð hlykkjótt. Það er sannast sagna, að í þeim efnum hefir flokkurinn aðallega hagað sér eftir því, hvernig vindur blés í hvert skipti. Eitt árið hefir hann verið með, en annað árið móti tollinum, allt eftir því, hvaða afstöðu flokkurinn hefir haft til stj. En hæstv. ráðh. sagði meira en þetta. Hann sagði, að raunverulega hefði nú Alþfl. ekki viljað fallast á tollinn að þessu sinni heldur, en hefði bent á aðra leið til tekjuöflunar, sem sé þá, að ríkið tæki alla innflutningsverzlunina í sínar hendur. Ég fæ nú ekki betur séð af þessu en að nákvæmlega eins sé ástatt nú og 1930. Framsfl. vildi ekki þá samþ. frv. Alþfl. um hækkun tekju- og eignarskattsins, en nákvæmlega eins er ástatt nú. Alþfl. hefir að vísu bent á aðra leið en 1930, þegar hann neitaði að samþ. benzínskattinn, en það skiptir engu máli. Og hvers vegna neitar þá Alþfl. ekki nú eins og þá, að fallast á þessa gersamlega óforsvaranlegu tekjuöflunarleið? Alþfl. hefir nákvæmlega sömu afstöðu til málsins og 1930. Flokkurinn er í bandalagi við sama flokkinn og þá. Hvers vegna hefir Alþfl. ekki sömu aðferð og þá? Hitt er svo allt annað mál, að það er náttúrlega enginn munur á leiðum til tekjuöflunar, að leggja toll á nauðsynjavörur eða hinu, að láta ríkið taka alla verzlun með innfluttar vörur og taka gróða af þeirri verzlun, því það eru fengin óyggjandi rök fyrir því, að vörur þær, sem ríkið fer að verzla með, hækka í verði sem hagnaðinum nemur a. m. k., og vafalaust meira. Þetta er ekki lengur teoretisk staðhæfing, heldur reynsluvísindi, að allar vörur verði dýrari í ríkisverzlun en þær voru áður. Nú hefir Alþfl. haldið því fram, að hann gæti yfirleitt ekki fallizt á tollaleiðina og teldi ríkisverzlun réttari leið, en þá bar honum skylda til að halda þeirri leið til streitu eins og kröfunum um hækkun tekju- og eignarskattsins 1930. Það má líka líta á þessa yfirlýsingu hæstv. ráðh. frá öðru sjónarmiði. Hann sagði, að 1930 hefðu verið nógar leiðir til að afla tekna til allra mögulegra hluta, sent Alþfl. þá vildi framkvæma, en nú væri þetta gerbreytt, nú væru allar leiðir lokaðar, nú hefir verið, að sögn hæstv. ráðh., svo hlaðið sköttum og tollum á alla gjaldendur, bæði einstaklinga og fyrirtæki, að stj. hefir ekki lengur séð neina smugu til þess að komast í vasa borgaranna og ná þaðan síðustu aurunum, aðra en þá, sem Alþfl. sér, að koma á allsherjar ríkiseinkasölu, eða þá að leggja nýjan toll á brýnustu lífsþarfir og neyzluvörur almennings, og ekki aðeins vörurnar sjálfar, heldur á möguleikana á því að nálgast þær, flytja þær að sér. Hæstv. ríkisstj. veit, að það er visst „minimum“ af vörum, sem fólk kemst af með að afla sér, og hún lætur sér ekki nægja að leggja aðeins skatt á þetta „minimum“ af vörunni sjálfri, heldur skattleggur hún líka þá framkvæmd að draga þessar vörur að sér. Það verður ekki annað sagt en að stj. og flokkar þeir, er hana styðja, hafi sýnt fyllstu viðleitni í því að afla ríkissjóði tekna, því eins og kunnugt er; þá hefir hún nú með varlegustu áætlun á tekjunum ráð á hátt á 16. millj. kr., og með þeirri viðbót, sem benzínskatturinn gefur, hefir stj. a. m. k. fullar 16 millj. kr., og sennilega á 17. millj. kr. Þetta eru, eins og margsinnis hefir verið tekið fram, miklu hærri tekjur heldur en nokkru sinni áður hafa verið áætlaðar til ríkisþarfa, og líklega upp undir það, sem mest hefir aflazt, og þetta er í því árferði, þegar öll atvinnufyrirtæki í landinu eru að meira eða minna leyti stöðvuð, og ekki annað sjáanlegt en að margir séu í þann veginn að flýja frá sínum atvinnurekstri, bæði til sjávar og sveita, og allar framkvæmdir mega heita liggja í dái. Það eru allir sammála um þetta, að ekki horfi vænlega fyrir atvinnuvegunum. En verða horfurnar vænlegri fyrir það, að svo harkalega er að því gengið að reyta síðustu aura borgaranna í ríkissjóðinn? Jú, stj. og hennar stuðningsflokkar segja, að eitthvað verði að gera til þess að draga úr atvinnuleysinu, það verði að stöðva straum fólksins í hóp atvinnuleysingjanna, og það á að gera þetta með því móti að reka smiðshöggið á það, að allur atvinnurekstur stöðvist. En það er ákaflega einkennileg hugsun að halda, að þetta sé sú eina lífsbjörg fyrir fólkið, halda, að nýir og nýir skattar á atvinnuvegina, sem neyða þá til að hætta, sé rétta leiðin til þess að afla fjár handa þeim, sem þá verða atvinnulausir. Það er bersýnilegt, að þetta er hið mesta Lokaráð. - Og þó stjórnarflokkarnir haldi, að þeir geti fleytt sér á því að telja þjóðinni trú um, að með þessu séu þeir að bjarga henni, þá missýnist þeim, því fólk er yfirleitt ekki svo skyni skroppið, að það geri sér ekki fullkomlega ljósar þær afleiðingar, sem hljóta að verða af slíkri fjármálastefnu.

Þegar frv. um bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs var fyrst lagt fram, voru talsmenn stj. og stjórnarflokkanna mjög málreifir og gerðu mönnum miklar gyllingar. Þeir sögðu, að þó nærri væri gengið með álögur í þessu frv., þá væri þó eitt víst, að með því væri ekki verið að íþyngja framleiðendum. Yfirleitt væri ekki seilzt til annara en þeirra, sem annaðhvort hefðu fyllilega efni á að borga, eða þá þeirra, er ekki horfðu í skildinginn til þess að kaupa fyrir hann meira eða minna óþarfar vörur, því allar vörur, sem telja mætti til nauðsynja, væru undanþegnar. Vafalaust hafa margir menn verið svo barnalegir að trúa því, að þetta væri sagt í fullri einlægni. Margir hafa vafalaust þótzt vissir um það, að þessir málsvarar lítilmagnans, þessir bjargvættir fátæklinganna mundu ekki viljandi koma með þær álögur, sem íþyngja fátæklingunum eða lömuðu framleiðsluna fram yfir það, sem orðið er, eða gerðu dýrara að lifa í landinu en áður var. En þeir, sem lifðu í þessari sælu trú og trúnaðartrausti til núv. valdhafa, að þeir mundu ekkert vilja gera, sem lamað gæti framleiðsluna, þeir hljóta nú að vakna við vondan draum, þegar fram kemur þessi nýja till. um að tvöfalda benzínskattinn. Og það hlýtur að fara að vakna efi hjá þeim um það, að stjórnarflokkarnir hefðu tekið sér það svo nærri sem þeir létu, þó nýr skattur yrði lagður á framleiðsluna, jafnvel svo þungur, að hún lamaðist. Það var svo sem reynt að sýna fram á það, að því fari fjarri, að hið svokallaða viðskiptagjald legðist á framleiðsluna. Því heldur enginn maður fram lengur, því að öllum er ljóst, að allar þær vörur, sem undir þann toll falla, eru að meira eða minna leyti notaðar til framleiðslunnar í sambandi við hana. Og svo er bitið höfuðið af skömminni, eftir að flett hefir verið ofan af blekkingunum, með því að bæta við þessari tvöföldun benzínskattsins, sem öllum er ljóst, að er tilfinnanlegur skattur á framleiðendur baði til sjávar og sveita.

Við þetta er þó a. m. k. eitt unnið. Hv. stjórnarflokkar hafa sjálfir svipt af sér grímunni. Þeir reyna nú ekki lengur að dyljast. Þeir hafa nú orðið að meðganga það opinberlega, að þeir hugsi nú um það eitt að afla fjár, og að þeim sé alveg sama, á hvern hátt þeir gera það.