20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (2907)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég held ég geti ekki verið að eyða miklu af þessari stuttu athugasemd til þess að svara hæstv. fjmrh., þegar hann er svo skyni skroppinn og fáfróður um almenna þingsiði eins og fram kom í síðustu ræðu hans. Hann spyr, hvaða umboð þm. hafi til að gera fyrirspurnir til stj. fyrir sitt kjördæmi. Þinginu berst verkfallshótun frá stétt, sem að vísu er ekki mjög fjölmenn, en hefir þá aðstöðu, að það mundi gersamlega lama bæinn, ef henni virkilega takist að koma verkfalli á, meðan á því stæði. Þm. bæjarins spyr, hvað stj. hugsi sér að gera til að afstýra vandræðum, en ráðh. svarar bara, að hann viti ekki til, að þm. hafi neitt umboð til slíkra spurninga! Vill ekki hæstv. fjmrh. fara til Englands og spyrjast fyrir um, hvaða umboð þm. hafi til þess að gera fyrirspurnir til ríkisstj.

Svo kemur þessi hæstv. ráðh. og spyr andstæðinga sína, hvað þeir vilji gera til þess að bjarga fjárhag landsins; ráðh., sem knýr áfram með liði sínu það, sem honum dettur í hug, án þess að taka nokkurt tillit til þess, hvað andstæðingarnir segja, og drepur allar till., sem þeir koma fram með. Stjórnarflokkarnir hafa engan rétt til að heimta svör um þetta af stjórnarandstæðingum; þeir verða bara að svara með verkunum, ef þeim er falið það af kjósendum. Þegar tveir menn deila um stjórn í einhverju fyrirtæki, annar hefir stjórn þess með höndum og sekkur því æ dýpra og dýpra, þá getur að vísu farið svo að lokum, að hinn sjái engin ráð til að bjarga því. Hæstv. ráðh. getur athugað muninn á þeirri stjórnarstefnu, sem tekin var upp árið 1927, og þeirri, sem réði þrjú til fjögur næstu ár á undan. Eitt atriði í þeim samanburði er t. d. það, að á fyrra tímabilinu voru skuldir ríkisins stórkostlega borgaðar niður, en síðan hafa þær sífellt hækkað. Það má minna hæstv. fjmrh. á, hvílík blóðtaka það er fyrir ríkissjóðinn og gjaldeyrisástandið í landinu, að verða nú að greiða yfir 1/2 millj. kr. í vexti og yfir 1 millj. kr. í afborganir á ári til úr landinu, þ. e. a. s., þurfa nálega 2 millj. kr. til þess að standa straum af ríkisskuldunum. Það er hlægilegt fyrir þennan ráðh. að spyrja aðra ráða. En vill hann þá nota aðstöðu sína til að fara eftir þeim ráðum, sem honum eru gefin? Annars þýðir ekki að vera að spyrja, og verður að skoða það sem hvert annað gjamm. (Fjmrh.: Hv. þm. þorir ekki að svara þessu, fremur en endranær, og það er varla von).

Þá ætla ég að svara hæstv. forsrh. örfáum orðum. Hann var að tala um agitation og hvernig hún væri rekin í sambandi við benzínskattinn. Hann sagði, að hér í Rvík væri sagt, að skatturinn lenti á bílstjórunum, en fyrir austan fjall væri sagt, að hann lenti í bændum. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh. Á hverjum telur hann, að þessi skattur lendi? Lendir hann í bændum? Vill hæstv. ráðh. segja já við því? Eða lendir hann á bifreiðastjórunum? Vill hæstv. ráðh. segja já við því? Hann veit þetta víst, úr því hann talar svona borginmannlega um það.

Ein aðalvörn hæstv. ráðh. í þessu máli er sú, að það sé tryggt, að bílaskatturinn verði aðeins notaður til þess að bæta vegina fyrir þessa sömu bílstjóra. Og í hverju er svo þessi trygging fólgin? Ef maður athugar sögu málsins, virðist tryggingin ekki vera neitt smáræði ! Þegar þessi fyrsti lági bifreiðaskattur var settur í, komst það í gegn fyrir tilstilli nokkurra þm., sem voru beggja blands í málinu, að nota átti skattinn í þá einu tegund vega, sem nokkuð duga til frambúðar. Ráðstafanir voru gerðar til þess, að stofnaður væri sérstakur sjóður, sem malbika átti fyrir mestu umferðavegina. Byrjað var austur á Hellisheiði, og þó féð væri lítið, hefði verið farið að sjást gagn af því nú, ef haldið hefði verið áfram. En þá komu stjórnarskiptin 1927 og til valda komu þeir menn sem aldrei hefir haldizt á nokkrum skilding. Alveg sama þó ákveðið hafi verið með l. að verja einhverjum ákveðnum tekjum til ákveðinna hluta. Hvað varð um peningana, sem áttu að renna til þjóðleikhússins, verkamannabústaðanna, byggingar- og landnámssjóðs o. s. frv.? Það var bara komið með bráðabirgðabreyt. á l. og ákveðið, að þetta fé skyldi renna í ríkissjóð eitt einasta ár. En svo rann það í ríkissjóðinn líka næsta ár og ávallt síðan; hitt allt tóm svik. Er nokkur furða, þó maður eigi bágt með að taka það trúanlegt, þegar sömu menn koma og segjast nú í fyrsta sinni vera búnir að tryggja það, að benzínskatturinn renni til þess, sem sagt er, að hann eigi að renna til. En bílstjórarnir eiga bara að vera glaðir, því það er verið að leggja þennan skatt á fyrir þá!

Ég veit ekki, hvort ég á að fara út í þau ógurlegu dularmál, sem hæstv. forsrh. hreytti hér úr sér eldrauður. Hann var að tala um einhverja menn, sem væru að tala um framgang einhverra mála einhversstaðar, og að það væri verið með hinn ósvífnasta undirróður hjá bílstjórunum. Svo var hann að blanda öðrum málum inn í þetta, einkum mjólkurmálinu, sem hv. 2. þm. Rang. sýndi fram á, að hann ætti sízt að minnast á. Því þó hæstv. forsrh. hefði enga aðra synd í samvizkunni heldur en þá, hvernig honum hafa farið úr hendi hans afskipti af því máli, þá er það eitt nóg til þess, að a. m. k. menn hér í Rvík og nágrenninu ættu ekki að trúa honum fyrir mörgum málum. Hann var að tala um bændaverkfall, sem sett hefði verið á fyrir pólitískan undirróður. Ég get vel unnað hæstv. ráðh. að segja það, að bændur hér í kring, sem sérstaklega standa að mjólkursölunni, séu ginningarfífl einhverra pólitískra snata hér í Rvík. Þeim er náttúrlega alveg sama, hvort þeir fá meira eða minna fyrir mjólkina og hvort þeir fá að ráða þessum málum sínum sjálfir eða ekki; þeir eru bara ginningarfífl einhverra vondra Rvíkinga. Þetta er nú lýsingin, sem hæstv. ráðh. gefur bændunum hér í nágrenninu.

Ég verð að segja það, eins og ég hefi áður tekið fram, að mér eru ekki kunn tildrög þess verkfalls, sem nú er hótað. Ég heyri bara eins og aðrir, að menn eru ákaflega óánægðir með þennan nýja benzínskatt, og ég er ekkert hissa á því; menn með slæma afkomu eru yfirleitt mjög viðkvæmir fyrir því, ef leggja á á þá nýja skatta. Að samtökum bílstjóranna veit ég ekki betur en Alþýðusambandið hafi mest unnið, og þau séu mest í þeim herbúðum. Eftir blöðunum að dæma hafa forgöngumenn verkfallsins talað við forseta Alþýðusambandsins; um aðra pólitíska menn veit ég ekkert í þessu sambandi. Ég mundi ekki mæla því bót, hvaða flokkur sem væri að róa undir, ef það væri í pólitískum tilgangi, en mér finnst skatturinn næg ástæða fyrir þessu verkfalli.

Hitt er algerlega ósæmilegt af manni í slíkri stöðu eins og hæstv. forsrh., að standa upp og hreyta úr sér gersamlega órökstuddum ummælum og ósæmilegum að öllu leyti. Það er eins og hann viti ekki neitt, hvað hann er að segja, nema hvað hann vill reyna að klína einhverjum pólitískum skömmum á einhvern pólitískan andstæðing.