20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (2910)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég skal vera stuttorður, þar sem líka þeir þm., sem ég átti orðastað við, eru dauðir.

Hv. 5. landsk. talaði um, að það hefði komizt inn í frv., í Nd. heimild til að undanþiggja ávexti tolli, og það er alveg rétt. En það var gegn mínum vilja. Ég lýsti yfir, að ég væri henni mótfallinn, og lýsti yfir, að heimildina myndi ég ekki nota. Var það vitað áður en til atkv. var gengið í deildinni.

Ég hefi nú æðimikið rætt við þennan hv. þm. um hollustu ávaxta í sambandi við aðra fæðu, sem á boðstóðum er hér á landi. En af því að hann var að vísa í umsögn sérfræðinga, þá leyfi ég mér að minna á það, sem mér var sagt af fróðum manni nýlega. Hér var á ferð kona ein útlend, sem heitir Johanne Christensen, sem að því er sagt var hafði mjög mikið vit á þessu máli og hafði kynnt sér það mjög vel. Hélt hún því fram - að mér er sagt -, að hollast væri í hverju landi að nota sem mest fæðu, sem framleidd er í landinu, og að fæða, sem flutt væri að, tapaði meira eða minna af sínu gildi við langa flutninga og geymslu. Ég er satt að segja hissa, ef hv. 5. landsk. hefir ekki tekið eftir þessu. Ég hygg, að þetta séu réttar skoðanir. Og ég held því hiklaust fram, að þetta sé rétt stefna eins og gjaldeyri er háttað nú, að leggja höft á erlendar vörur ýmsar og auka með því sölu innlendra vara, sem duga okkur eins vel eða betur. Það er enginn vafi, að íslenzkt grænmeti og jarðávextir og íslenzk mjólk geti fullkomlega komið í stað útlendra ávaxta. Hinsvegar munu ávextir verða keyptir eftir sem áður, þrátt fyrir tollinn, m. a. af því, að það er nauðsynlegt vegna viðskipta okkar við Suðurlönd; enda er alls ekki lagt á ávextina til þess að fyrirbyggja flutning til landsins, heldur til þess að ríkissjóður fái styrk. Ég skal ekki segja, að ekki komi til mála, að ég noti þessa heimild, ef einhverjir sjúkir þyrftu á að halda. En í öðrum kringumstæðum gæti það ekki orðið.

Við hv. 1. þm. Reykv. ætla ég ekki meira að segja. Hann hefir ekki svarað þessari margumræddu spurningu minni, og finnst mér það harla einkennilegt. Ég hélt hann hefði þá trú á málstað Sjálfstfl., að honum væri ánægja að skýra frá, hvað þeir ætluðu að gera þjóðinni til bjargar, ef þeir hefðu aðstöðu til að ráða. En það er ómögulegt að fá Sjálfstfl. til þess; þeir fara undan í flæmingi og vilja engu svara. Þetta er út af fyrir sig bezta viðurkenningin, sem hægt er að fá fyrir því, að sú afstaða, sem flokkurinn tekur í stjórnarandstöðu, er algerlega óhæf og svo ábyrgðarlaus, að firnum sætir. Hann sagði, að við mundum ekki vilja notfæra ráð, sem hann kynni að búa yfir. Það er alls ekki í því skyni, sem ég bað hann að gefa þetta upp, heldur til þess, að mönnum gæfist kostur á að bera saman þeirra fjármálastefnu, sem hann telur ágæta, en heldur vandlega leyndri, við það, sem gert er nú.