10.12.1935
Sameinað þing: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

1. mál, fjárlög 1936

Guðbrandur Ísberg:

Hv. þm. A.-Sk. hélt hér áðan mikla ræðu, sem aðallega voru aðfinnslur til mín út af grg. minni fyrir brtt. um að fella niður ritstyrk Halldórs Kiljan Laxness. Að vísu var aðeins sumt af ræðunni svar til mín, hitt voru hugleiðingar frá eigin brjósti. (ÞorbÞ: Ég talaði yfirleitt frá eigin brjósti). Já, en ekki fyrir hv. fjvn. Hv. þm. var hvað eftir annað að tala um það, sem ég hefði sagt í gær. Ég talaði ekkert hér á þingi í gær, en það var annar þm., sem talaði hér í gær, hv. þm. A.-Sk., og get ég enga ábyrgð borið á því, sem hann sagði. Hitt er rétt, að ég talaði hér í fyrradag. (Forsrh.: Ekki í fyrradag, því þá var sunnudagur). Það er rétt, en skiptir ekki miklu máli, — það var þá á laugardaginn. Hv. þm. A.-Sk. tók rétt upp úr minni grg. Ég sagði, að svo hefði virzt í fyrstu, að þessi maður ætti nokkra framtíð fyrir höndum sem skáld, en eftir því sem hann bætti við rit sín, hefði hann leitað niður á við. Þó jafnvel mætti finna gullkorn í ritum hans, væri þar svo mikið af sora, sem borinn væri á borð fyrir kristilega lesendur í landinu, að ekki væri við unandi, en þó hefði kastað tólfunum, þegar honum illu heilli hefði verið leyft að tala af svolum alþingishússins 1. desember, að þá hefði hann notað sér það leyfi þannig að flytja pólitíska agitation af svæsnustu tegund á fullveldisdegi þjóðarinnar. Ég fullyrði það, að nálega enginn maður í landinu utan kommúnistaflokksins telur þá ræðu hlutlausa eða frambærilega af svölum alþingishússins á þessum degi. Fullveldi þjóðarinnar er viðkvæmt mál, en í sambandi við það leyfði þessi maður sér að haga þannig orðum, að hann móðgaði stórlega svo að segja alla þjóðina.

Hv. þm. sagði, að jafnvel þó smekkleysur væru í ritum og ræðum þessa manns. Þá skipti það engu máli. En hvað skiptir þá máli? Þessi maður hefir nú verið settur með styrk í 18. gr. fjárl., þar sem settir hafa verið fyrr og síðar mestu afburðamenn þjóðarinnar; en ég neita því, að hann eigi að teljast það, eins og hann hefir hagað sér á ritvellinum að þessu. Þar fyrir neita ég því ekki, að eitthvað geti verið í hann varið, en ég taldi líklega leið að taka af honum styrkinn til þess að hann hagaði sér eins og sæmilegur maður, þannig að hann misbyði ekki öllum þorra þjóðarinnar. Ég held, að það sé oflofið, sem á hann hefir verið hlaðið, sem hefir stigið honum til höfuðs. Ég held þess vegna, að honum væri það hollt, að þingið sýndi honum, að það vill ekki borga heiðursverðlaun fyrir að fara svo með efni og mál sem hann gerir. Ég sagði á laugardaginn, að ég vildi ekki fara að lesa upp smekkleysur hans og þaðan af verra hér á Alþingi, af því það væri ekki þinghæft, og ég endurtek þá umsögn hér, en hitt get ég trúað, að gæti haft áhrif, að gefa honum þessa hóglegu bendingu. Þetta, sem ég nú hefi sagt, er eiginlega árétting við það, sem ég sagði á laugardaginn, en ekki svar til hv. þm. A.-Sk., því hann var svo allt of skáldlegur til þess að ég gæti fylgzt með ræðu hans. Að því er snertir það skáld, sem hann var að reyna að hefja til skýjanna, þá sló hann því föstu, að Laxness væri aðeins dálítið meira skáld en almennt gerðist. Ég veit ekki, hvort hv. þm. telur, að þm. yfirleitt séu skáld, en að Laxness sé bara dálítið meiri.

Ég vil svo mótmæla því að lokum, að ég hafi notað þinghelgina til þess að ráðast á þennan mann. Ég tel ekki, að ég hafi misnotað aðstöðu mína, þó ég hafi nefnt hann á nafn. Það er eiginlega það eina, sem ég hefi gert. Það hefði frekar mátt telja, að ég hefði ráðizt á hann, ef ég hefði hér farið að lesa upp hans eigin skrif, en það gerði ég ekki, og ætla ekki að gera að svo stöddu.