16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2048 í B-deild Alþingistíðinda. (2981)

133. mál, framfærslulög

Hannes Jónason:

Það er öllum þm. í fersku minni sú höfuðástæða, sem lá til þess að setja lög um styrk til sveitarfélaga til framfærslukostnaðar. Tilgangurinn var sá, að gera þeim hreppum, sem melt hafa sveitarþyngsli, fært að standa undir þeim byrðum. Var því strax í upphafi leitazt eftir að finna þá reglu í útreikningnum, sem bezt gat náð þessum tilgangi. Og þar eð ekki var fært að veita takmarkalaust fé úr ríkissjóði í þessu augnamiði, þá var hámark á sveitaþyngslum sett tiltölulega hátt, eða 15% fram yfir meðaltalsframfærslukostnað að við bættum 1/3 hl. þess, sem þar var fram yfir, en 2/3 áttu að greiðast úr ríkissjóði. Í þessu frv. er byggt nákvæmlega á sömu reglu, en hámarkinu hefir verið breytt úr + 15% niður í - 10%. Þetta hefði getað gengið, ef kostnaðurinn hefði mátt lenda á ríkissjóði, en nú er komið fram takmörkunarákvæði frá hæstv. fjmrh., sem sennilegt er, að verði samþ., en því hlýtur óhjákvæmilega að fylgja röskun á aðaltilgangi frv., svo að það verður ekki til fullkomins stuðnings fyrir þau sveitarfélög, sem verst eru sett.

Ég1) skal í þessu sambandi benda hv. frsm. á, að ef víkja á frá gömlu reglunni og taka upp þá nýju, þá getur það haft áhrif fyrir verst settu sveitarfélögin til hins verra. Ef við athugum ástandið eins og það er, t. d. í Gullbringu- og Kjósarsýslum, Snæfellsnessýslu og Múlasýslu, þá sjáum við, að þetta getur munað 500-600 kr. fyrir lakar stæðu hreppsfélögin. En ef sú regla er tekin upp, sem ég legg til, verður þessi hætta miklu minni. Ég álít mjög varhugavert að víkja frá höfuðtilganginum í lögunum frá þingi 1932. Ég legg því afarríka áherzlu á og vona að hv. form. og frsm. n. athugi gaumgæfilega mína tillögu, áður en hún er felld, því ég fullyrti, að hún er í rétta átt.

Mér gefst ekki tækifæri til að koma með útreikninga, sem þm. hafi nægilega tíma til að kynna sér eða athuga, en ég er fús til að ræða við n. um.

Ég vil segja, að það felst í minni brtt. nokkuð annað en í brtt. á þskj. 813 við 72. gr. Ein höfuðbreyt. með þeirri till. er að gera alla kaupstaði jafna, en eftir frv. á Rvík að hafa sérstöðu, þar sem hún á að greiða meðaltalsupphæð, þegar aðrir kaupstaðir greiða meðaltalsupphæð að frádregnum 10%.

Því er haldið fram, að þetta sé réttlátt og styðjist við það, að Rvík hafi margháttaða möguleika á við aura kaupstaði til að standa undir þessum kostnaði. Þó ég viðurkenni, að þetta sé rétt að nokkru leyti, þá ber þó að athuga, hver hlutföll eru milli þeirra frumfaktora, sem notaðir eru við útreikning metaltalskostnaðar. Meðal annars er það tekju- og eignarskattur, sem lagður er til grundvallar, og bera kaupstaðirnir og þá sérstaklega Rvík stærstan hluta.

Á það ber líka að líta, að í Rvík er mikið af opinberum húseignum og fasteignum, sem er hátt að mati, en geta þó eigi orðið sem álagningarstofn fyrir bæjarfélagið. Þegar tekinn er samanburður við framfærslukostnaðinn, þá kemur í ljós, að bæirnir greiða 38% móti Rvík, en fasteignamat er 55% í bæjum móti Reykjavík. Gjaldendur eru líka 52% í Rvík móti bæjunum. Það eru tveir þættir, sem eru hærri í ýmsum kaupstöðum en í Rvík. Annar í 1/6 parts, en hinn í 1/3 parts grundvelli, en hinir aftur lægri. Skattskyldar eignir eru 34% í bæjunum á móti Rvík og skattskyldar tekjur 27% í bæjum á móti Rvík. Það hefir verið bent á, að þetta hér að taka varlega með í reikninginn að sumu leyti, eftir að búið er að hækka tekju- og eignarskattinn. Ef við lítum nánar á þá faktora, sem hér eru lagðir til grundvallar, þá er ýmislegt, sem vert er að athuga, og er vafasamt, hvort á að taka eins mikið tillit til þeirra, eins og sú n. hefir gert, sem undirbjó þetta mál, og eins og hv. þd. og hv. allshn. hefir ekki situr gert.

Ég ætla ekki að fara út í einstaka hluti eða atriði þessa frv., enda lítt gerlegt fyrir menn að henda reiður á þeim tölum, sem nota þarf í sambandi við það, ef menn eiga að geta glöggvað sig á, hvað um er að vera, sérstaklega þar sem þeir aðeins heyra þær á sama fundi og á að afgreiða málið. Önnur höfuðbreyt., sem liggur í till. mínum, er að hækka hámarkið frá því, sem frv. gerir ráð fyrir og færa meðaltalskostn. upp. Eftir þeim skýrslum, sem fyrir liggja, er kostnaðurinn áætlaður 250 þús. kr., en fjmrh. hefir gert ráð fyrir 230 þús. kr. eða dregið frá 10%. En ef mín regla yrði upptekin, lækkar metaltalið svo, að miklar líkur eru til, að þessi fjárveiting hrykki, án þess sérstaklega þyrfti að taka það fram í lögum. En ef það skyldi verða meira en útreikningar segja til, þá er brtt. mín við brtt. hæstv. fjmrh. til þess, að fjárveitingin haldi sér og upphaflega reglan haldist. Þm. mega því ekki láta blindast af till. fjmrh., því ef hún yrði tekin upp, gæti það valdið verulegri röskun á útreikningum og tilgangi l. Vitanlega er engin vissa fyrir, að kostnaðurinn verði ekki hærri en útreikningarnir frá 1933 sýna, því að síðan hefir breytzt mjög bæði milli framfærsluhéraða og eins hefir fátækraframfærslan aukizt.

Vil ég þá nánar víkja að brtt. á þskj. 815, að hún er óhjákvæmileg nauðsyn, vegna þess að ef hún er felld, hlýtur ákvæði 72. gr. að misskiljast, þar sem tekið er fram, að ef framfærslukostnaður fer fram úr metaltali í þeim jöfnunarflokki sé reiknað út, hvað þeim hér samkv. 71. gr. Ég veit ekki, hvort þetta hefir verið meint svo af flm., að þeir ættu að fá endurgreiðslu, ef kostnaður færi fram úr meðaltali að frádregnum 10%, en það er óhjákvæmilegt til að fá samræmi í gr.

Þá er smábrtt. við orðið framfærsluútgjöld í 72. gr. Í VIII. kafla er eitthvað 7 sinnum notað orðið framfærslukostnaður, og þykir mér rétt, að samræmi sé í um þetta orð, en hálfóviðfelldið að nota tvö orð um sama hugtak. Ég get ekki séð annað en hv. frsm. fallist á brtt. mína, þó ég geti búizt við, að haft verði á móti brtt. við 72. gr., um að Reykjavík verði gert jöfn öðrum kaupstöðum. Vil ég því biðja menn að athuga vel og vandlega, í hverju ætti þar að vera fólgið ranglæti, og hvaða rök kunna að koma á móti.

Ég held, að allir sanngjarnir menn sjái það, að með samþ. þessa frv. muni útgjöld Rvíkurbæjar aukast meira en nokkurs annars sveitarfélags. Ég hefi enga sérstaka tilhneigingu til þess að halda fram hlut Reykjavíkur, en ég held, að það geti hefnt sín að beita ranglæti og það sé bezt í upphafi að leita réttlætisins og taka afturhvarfið fyrr en lengra er orðið bilið frá því rétta, ella verður erfiðara að nálgast það, ef ekki er reynt strax að komast nær því sanna.

Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta, en þykir miður, að ég skuli ekki hafa fengið tækifæri til að ræða þetta mál nánar, bæði við hv. n. og eins við einstaka hv. þm., því mér finnst þetta skipta allmiklu máli, en sérstaklega þó um úthlutun jöfnunarfjárins milli sveitarfélaga. Vil ég að lokum undirstrika það, að ekki má missa sjónar á höfuðtakmarki laganna, um hjálp til verst stæðu sveitarfélaganna eða þeirra sveita, sem versta afstöðu hafa til að standa undir útgjöldum.