16.12.1935
Neðri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2050 í B-deild Alþingistíðinda. (2984)

133. mál, framfærslulög

Jónas Guðmundsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Barð., frsm. allshn., hefir vikið svo rækilega að brtt. á þskj. 740, að ekki þarf frekara við að bæta. Það er sem sé einskonar samkomulag um það okkar á milli, sem að frv. stöndum og allshn., að fallast á þá breytingu á frv., að embætti framfærslustjóra komi ekki til framkvæmda, en að öðru leyti haldist stjórn þessara mála óbreytt, eins og ráð er fyrir gert. En afleiðingin af þessari aðalbreyt. verður óhjákvæmilega sú, að rekstur mála verður á allt annan veg en ráð er fyrir gert í frv., þar sem ætlazt var til, að boðleið hinna ýmsu mála yrði sú, að sveitarstjórnir sendu til framfærslustjóra beint, en hann síðan til sýslumanns. Nú fellur þessi boðleið niður með niðurfellingu embættisins og þarf vitanlega eitthvað að koma þess í stað. Á þskj. 827 er brtt., sem við flytjum í félagi hv. þm. Barð., hv. þm. V.-Sk. og ég, og er henni ætlað að bæta úr þessu á þann hátt, að gert er ráð fyrir, að lögreglustjórarnir verði milliliðir, þeir felli þá úrskurði, sem framfærslustjóra var ætlað, en þeir úrskurðir gangi síðan til ráðh., eins og nú er. Leiðir það af sjálfu sér, ef 1. liður 9. brtt. á þskj. 740 verður samþ., að þá verður að samþ. brtt. okkar á þskj. 827, annars er komin hrein ruglun á alla boðleið þessara mála. Ef frv. verður samþ. óbreytt, þá eru þessar till. sjálfdauðar, en ef samþ. verður að fella niður embætti framfærslustjóra, sem þar er gengið út frá, þá er óhjákvæmilegt að till. á þskj. 827 verði samþ., því mjög er óheppilegt, ef ekki er ákveðið um gang þessara mála, og vil ég leggja á þetta sterka áherzlu.

Um brtt. á þskj. 748 vil ég segja það eitt, að þær eru allar leiðréttingar, ýmist færsla til betra máls eða leiðréttingar til samræmis við gildandi ákvæði laga, og skal ég ekki fleira um þær segja. Ég vil taka fram, að ég legg áherzlu á sömu till. á þskj. 740 og hv. þm. Barð. lagði til, að yrðu samþ. Hinsvegar er ég á móti sumum þeirra og sérstaklega þó ákvæði til bráðabirgða, sem hér er, og finnst mér ekki geta komið til mála að samþ. það.

Mér heyrist nú á klið þeim, sem hér er í d., að hv. þm. muni hafa kynnt sér þetta mál svo vel, að þeir þurfi ekki að gera sér það ljósara og ég þurfi ekki að fara ýtarlega út í brtt. á þskj. 820, 789 og 790. Skal ég því ekki fara út í þær nákvæmlega, þar sem ég sé, að hv. þm. er mál þetta orðið svo kunnugt, en vil aðeins benda á, að þær hafa allar geysilega þýðingu fjárhagslega, sem er stór liður í sambandi við þetta mál. Gert er þar ráð fyrir, að niður falli 26. og 61. gr. frv., og er bar með fyrirbyggt, að styrkir þeir verði afturkræfir, ef ástæður breytast. Ennfremur er á þskj. 790 sú till., sem [eyða í handr.] skemmtilegra að hafa framfærslu. En ég gæti ímyndað mér, að þar sem mikið er um slík fyrirbrigði, gæti þetta orðið til álita, en ég vil ekki víkja nánar að henni, eða skipta mér af á annan hátt en þann, að ég hika ekki við að greiða atkvæði á móti.

Um brtt. hv. 1. landsk. þm. og hv. 3. þm. Reykv. get ég sagt, að henni er ég samþ., þar sem gert er ráð fyrir, að formaður barnaverndarnefndar verði hafður með í ráðum. Hitt gæti verið óþægilegt að ákveða beint í lögunum, að hann skyldi vera í nefndinni, þó að Danir hafi slíkt ákvæði hjá sér. Um brtt. á þskj. 795 og brtt. við hana á þskj. 813, tel ég sjálfsagt að hafa þá till., sem gengur út frá hærra tillaginu til jöfnunar milli sveitarfélaga.

Hv. þm. V.-Húnv. virtist hafa lagt mikla vinnu í að gera sér ljóst, hvernig væri varið með útreikning eða grundvöllinn fyrir jöfnun framfærslukostnaðar og vill hann gera meiri háttar breytingu þar á eða umsteypa 72. gr. frv. á þann hátt, að Reykjavík skuli vera í sama jöfnunarflokki og aðrir kaupstaðir og kauptún, sem hafa fleiri en 500 íbúa, og eigi þá að fá sama frádrátt á meðaltalsframfærslukostnaðinum eða 10% og verða þannig algerlega skipað á sama bekk.

Hann vill því halda þessum ákvæðum frv. um að skipta landsmönnum í tvo flokka, þar sem í annan komi kaupstaðir og kauptún, sem hafa yfir 500 íbúa, en í hinum verði sveitarfélög og öll smærri kauptún. Svo vill hann afnema það ákvæði, að draga megi 10% frá meðaltalsframfærslukostnaði hjá sveitarfélögum, þegar til útreikninga kemur í þessu efni. Ég er honum alveg andvígur, hvað þessar brtt. snertir. Ég vil halda frádrættinum og byggi það í fyrsta lagi á því, að það er svo með t. d. Reykjavík og kaupstað og sveitarfélög, kauptún eða lítinn kaupstað, að þeir hafa allt aðra aðstöðu til þess að bera hlutfallslega sömu byrðar. Meðaltalsútreikningur á útgjöldum sýnir, að hlutfallslega sömu byrðar eru bornar af hinum ýmsu sveitarfélögum í landinu; en Reykjavík hefir ýms fríðindi og er því betur stæð til að bera hlutfallslega byrði. Og það var þess vegna, að við settum inn 10% frádráttinn í öðrum sveitarfélögum en Reykjavík, til þess að vega á móti beinum fríðindum fram yfir öll önnur sveitarfélög á landinu. (PHalld: Í hverju felst það helzt?). Það felst fyrst og fremst í því, að í Reykjavík eru allir skattskyldir til bæjarins, og þar eru einnig allir bezt launuðu starfsmenn ríkisins, og ríkissjóður greiðir því mest öll laun í Reykjavík, en ég ætla, að þó sé um 6 milljónir króna. (PHalld: Njóta þeir einskis hér?). Jú, en lítils hlutfallslega. Maður, sem hefir 6000 kr. í laun, borgar minna af þeim heldur en annarsstaðar. Og það er víst, að hvort sem þeir njóta lítils eða mikils, þá er hlutfallslega léttara fyrir þá menn að lifa hér en annarstaðar. Annað er líka, og það er það, að hér í Reykjavík eru allar opinberar stofnanir, sem ríkið hefir sett á stofn, og launahæstu fyrirtækin, sem veita mestu atvinnuna, t. d. bankarnir o. fl. Skólarnir eru hér og sjúkrahúsin, sem ríkið hefir byggt, og eru hvorutveggja þau fullkomnustu, sem til eru á landinu, og þeir náttúrlega fyrst og fremst Reykjavík til góða. - Önnur bæjar- og sveitarfélög úti um land þurfa að hafa sjúkraskýli til að koma sjúklingum í. Reykjavík á engan spítala og þarf ekki að byggja neinn, af því að ríkið og aðrir, sem sjá sér hag í að reisa og reka slík fyrirtæki, gera það. Að maður nú ekki tali um alla skólana og möguleikana, sem Reykvíkingar hafa fram yfir aðra í landinu til að afla sér menntunar með minni tilkostnaði og á hentugri hátt. Það er þessa vegna, að við höfum tekið þetta ákvæði um 10% frádráttinn inn í frv. Það er vegna fríðindanna, sem Reykjavík nýtur á kostnað alls landsins. Ef menn líta á skýrsluna aftan við frv. um það, hvernig þetta skiptist milli þessara liða, sem á að byggja á útreikning um Reykjavík og nokkra kaupstaði annarstaðar og sveitarfélög hinsvegar, þá sést greinilega munurinn, sem sést af skýrslum um þetta frá 1933, þar sem sýnt er fram á, hvað miklar skattskyldar tekjur eru víðsvegar á landinu. Í Reykjavík eru skattskyldar tekjur á árinu samtals 24,8 millj. kr. eða 785 kr. á hvern íbúa. Í kaupstöðum og kauptúnum eru skattskyldar tekjur 8,2 millj. samtals eða 293 kr. á hvern íbúa. Í öllum hreppum landsins eru skattskyldar tekjur samtals 4,8 millj. eða aðeins 90 kr. á hvern íbúa. Í Rvík eru skuldlausar, eignir 60,6 millj. kr. eða 1915 kr. á hvern íbúa. kaupstöðum og kauptúnum eru þær 25,6 millj. eða ca. 910 kr. á hvern íbúa. Í hreppunum eru eignirnar 31 millj. kr. eða 580 kr. á hvern íbúa. Sama eða svipað er um fasteignamatið að segja. Það er í Rvík 78,7 millj. í kaupstöðum og kauptúnum 53,2 millj. og í hreppunum 57,5 millj. kr. Af þessu sést, að beztu möguleikana hefir Rvík til að bera hlutfallslega hærra gjald heldur en önnur sveitarfélög. Það kann að vera, að þessi 10% séu of lág eða of há. Það má deila um það, en það er sjálfsagt, þegar reglan er sett, að taka tillit til þessara alveg sérstöku ástæðna. Hinsvegar vil ég segja það, að ég geri ekki svo ýkja mikinn mun á kauptúni, sem hefir 5 eða 600 íbúa, og litlum kaupstað í þessu efni. Þeir hafa hlutfallslega aðstöðu til sinnar framfærslu. - Af framangreindum ástæðum verð ég að vera á móti þessari brtt. hv. þm. V.-Húnv. 1. brtt. gæti ég vel verið með, því að hún verður raunverulega fremur að skoðast sem leiðrétting, en sem gerbreyting í þessu atriði. Hann var hér um daginn að færa hér fram ýmsa reikninga viðvíkjandi sínu máli og vildi halda því fram, að ekkert væri á skýrslu þeirri að byggja, sem fylgir frv., að því, er snertir till., sem n. gerði. Það er alveg rétt, að sú skýrsla getur ekki verið fullkomin, því að þá var ekki hægt að reikna, hverju framfærslugjöldin hafa numið á hverjum stað. En það er það, sem frv. gerir ráð fyrir, að héðan í frá verði greitt. Aftur á móti hefir verið reiknuð út skipting fátækraframfærisins árið 1933, að svo miklu leyti, sem hægt er, eftir þessari höfuðreglu. En ég vil benda á, að þetta getur í einstökum tilfellum munað stórkostlega miklu. Sem dæmi þess má nefna, að eftir skýrslu n. er Hafnarfjarðarkaupstað ætluð 8200 kr. endurgreiðsla, en eftir því, hvernig fátækraframfærið er reiknað, þá á hann að fá 24 þús. kr. En aftur á móti er Keflavíkurhreppi ætluð 6029 kr. endurgreiðsla, en eftir útreikningi í fátækraframfærslu fær hann ekki nema 1574 kr. Þessi hreppur hefir haft miklu minni fátækraframfærslu en hann hefir talið fram, og þessvegna fær hann meira eftir till. n. Svona er og um fjölda hreppa, og er þetta af því, að það verður aldrei hægt að hafa eftirlit með því, að þessar skýrslur séu réttar. Þetta atriði fæst aldrei rétt fyrr en breytingin er komin í gegn og búið að starfa undir henni í heilt ár. Þá fyrst fáum við þetta rétt, og getum leiðrétt þessa grein. Ég get ekki verið með þessari brtt. nú, því að ég vil ekki breyta gr. fyrr en sýnt er svart á hvítu fyrir Alþingi hvernig þetta reynist. Þetta getur ekki munað Rvík neinu, því að enn vantar svo mikið til þess, að hún nái meðalframfærslukostnaði, og ekki er hægt að gera ráð fyrir því, að fátækraframfærið versni svo næstu tvo árin. Okkur þótti réttara að létta undir með hinum sveitarfélögunum, en íþyngja ekki Rvík. En Rvík má bæta við sig 20 þús. kr. enn þá til þess að ná meðaltali hreppanna. Á hinn bóginn geta hreppsfélög eins og t. d. Sauðárkrókur og önnur slík fengið uppbót, ef dregin eru 10% frá þeirra kostnaði. Þess vegna má því láta regluna standa. Er Rvík ekki næstu tvö árin íþyngt að neinu leyti, en þeim hreppsfélögum, sem illa eru stödd, er gert léttara fyrir. Það, sem vinnst með því að fella þetta burtu, er sparnaður fyrir ríkissjóð. Ég vil nú vænta þess, að hv. þdm. verði við áskorunum um að samþ. þetta frv. eins og það er og fá reynslu mestu tveggja ára. Eftir þessi tvö ár gæti legið fyrir skýrsla um það, hvernig framfærslan skiptist í raun og veru í sveitarfélögin, og þá má tala um að breyta reglunni. - Viðvíkjandi brtt. hv. þm. við brtt. hæstv. fjmrh. vil ég taka fram, að ég er henni samþykkur. Fari svo, að féð reki sig upp undir - verði ekki nægilega mikið jöfnunarfé - þá verkar þessi brtt. hv. þm. þannig, að þau sveitarfélög fá fyrst ekkert, sem minnst eru fyrir neðan meðallag, þ. e. a. s. þau eru færð upp á fótinn um 5-10%, eftir því, sem þörf krefur. Ef á annað borð á að samþ. brtt. hæstv. fjmrh., þá finnst mér sjálfsagt að láta þessa till. fylgja. - Ég skal svo ekki þreyta hv. þm. lengur með þessu tali. Ég geri ekki ráð fyrir að taka aftur til máls, enda hefi ég ekki mikið um aðrar brtt., sem fyrir liggja, að segja.