26.11.1935
Neðri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2103 í B-deild Alþingistíðinda. (3041)

83. mál, bráðabirgðaverðtollur

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Það er eftirtektarvert, að hv. frsm. leggur nú mesta áherzlu á það, að í frv. sé heimild til þess að afnema þennan toll. Það er satt, þessi heimild er í frv., og hún gerir það að vísu aðgengilegra. En ég þekki nú til þess, að staðið hefir í l. heimild fyrir þetta ráðuneyti um niðurfellingu á tollum af vörum til iðnaðar, og ég hefi ekki orðið var við annað en að þeir iðnrekendur, sem áttu hag sinn undir þessari heimild, hafi þótzt þurfa að sækja nokkuð langa þingmannaleið til þess að fá lækkaðan eða afnuminn toll, sem gefur ríkinu tekjur í aðra hönd. Ég legg því ekki nema hæfilega mikið upp úr þessari heimild. Ég býst við, að óánægjan mætti vera orðin nokkuð mikil og verðið æðimikið yfir hóf áður en það teldist sannað fyrir ráðh., að honum bæri að taka í taumana. Þessi klásúla á frv. er því eins og fallegt erindi, sem hv. aðstandendur frv., eru að raula fyrir munni sér, meðan þeir eru að reyna að koma á þessari lífsbjörg fyrir iðnaðinn, sem hv. þm. Hafnf. er að lýsa. Hv. þm. Hafnf. þótti það einkennilegt, að ég teldi ekki ástæðu til með sérstökum verðtolli að hlaða undir innlenda iðnaðinn í byrjun og útiloka erlenda samkeppni. Það getur vel verið, að honum lítist þetta svo. Ég ætla því að færa rök fyrir minni skoðun. Ég fullyrði, að í mörgum tilfellum hefir sá iðnaður, sem settur hefir verið á stofn nú í seinni tíð, ekki getað staðizt samjöfnuð við erlendan fyrsta flokks iðnað, af því bæði hefir vantað kunnáttu og nothæf efni. Meðan svo er ástatt, iðnaðurinn jafnungur og óreyndur og hann er, getur verið mjög athugavert að hlaupa í það að hlaða um hann verndartollamúr, áður en séð er, hvort sá vísir, sem þarna er að myndast, hefir nokkur heilbrigð vaxtarskilyrði eða ekki. Nú skal ég að vísu játa, að í ýmsum tilfellum hefir okkar iðnaður farið myndarlega af stað, án þess að landsmönnum hafi áður verið íþyngt með gjöldum hans vegna, en í byrjun verður ekki séð um hverja grein fyrir sig, hversu hún muni reynast. Hitt er fyrir sig, þegar einhver iðngrein hefir þróazt um nokkurt skeið, hefir sent, að hún getur fullnægt þörfum landsmanna og að hún stenzt samjöfnuð við erlenda iðnframleiðslu, ef eitthvað sérstaklega voveiflegt steðjar að slíkri iðngrein, þá getur verið ástæða til að hlaupa undir bagga. En ef hv. þm. vildi í rólegheitum athuga öll þau mörgu iðnfyrirtæki, sem hér hafa verið sett á stofn í skjóli kreppunnar og innflutningstakmarkana, þá hygg ég, að hann muni sjá, að ekki er rétt með skatti að skylda landsmenn til þess að skipta við sum þessi fyrirtæki. Ég vil ekki viðurkenna, að ég hafi sent mig fjandsamlegan iðnaðinum með framkomu minni í þessu máli, en það, sem okkur skilur, er þetta, að hann vill knýja iðnaðinn áfram, eins og Daninn segir, með Vold og Magt, en ég vil sjá það áður en farið er að styrkja hann með verndartollum, hvort hann á það skilið. Hv. 9. landsk. kom að því eins og ég, að innlendi iðnaðurinn væri nú ekki svo mjög á flæðiskeri staddur, þegar litið er á það, hvernig honum er hyglað með innflutningshöftum og gjaldeyrishömlum. Það vita allir, hvað höftin gera iðnaðinum mikið gagn. Hinsvegar þótti mér hv. 9. landsk. gera ráð fyrir því, að innflutnings- og gjaldeyrisnefnd beitti sínu valdi um of iðnaðinum í hag. Ég verð að ætlast til þess, að n. gæti þar alls hófs og líti til beggja handa, eins og mér er tjáð að n. hafi gert með því að leyfa innflutning á fiskilínum, svo hægt er að kaupa þær jöfnum höndum við hinar innlendu. Ég vil vona, að n. líti þannig óvilhallt á málið, en beiti sér ekki eingöngu fyrir hagsmunum innlenda iðnaðarins, en þrátt fyrir það stendur það óhaggað, að iðnaðurinn stendur betur að vígi vegna starfs n. en annars hefði verið ef n. hefði engin verið til. - Hv. þm. Hafnf. sagði, að þetta frv. fæli ekki í sér neina tekjuöflun fyrir ríkissjóð, heldur væri það nokkurskonar hlífðarskjól fyrir þann vísi, sem væri að spretta. Já, ég hefi líka skilið bað svo, en ég hefi sagt, að þeir menn væru blindu haldnir, og tek það ekki aftur, sem ætla sér að grundvalla okkar iðnað, studdan af óvenjulegum innflutningstakmörkunum, með því að hlaða um hann órjúfandi verndartollamúr. Hann talaði um, að þetta væri gert til þess að gera iðnaðinum fært að lifa. Hann talaði ennfremur um mitt þrönga sjónarmið, en ég get nú sagt það, að hans sjónarmið er ekki vítt, það nær ekki út yfir hag notendanna. Honum sest alveg yfir þá hlið, þó hann hafi útsýn yfir hag iðnrekendanna. Það er réttast að tala varlega í þessu máli. Mér finnst það engin þröngsýni, þó maður vilji sporna gegn meiri sköttum á sjávarútveginum, sem þegar er að sligast undan sköttum og skyldum. Fyrir þá, sem standa þannig að vígi, er bezt að tala ekki allt of mikið um það, hvað þröngt sjónarmið aðrir hafi. Ég vil ekki viðurkenna, að það sé þröngt sjónarmið frá nokkurri hlið skoðað, þó að menn vilji á svona tímum sporna við óréttmætum álögum og gjöldum á sjávarútveginn, því hann er í þann veg að verða drepinn með sköttum og álögum. Það getur vel verið, að hv. formaður iðnn. líti á þetta sem þröngt sjónarmið frá sínu iðnaðarmannssjónarmiði, en það er það ekki frá almenningssjónarmiði séð, því það er sjávarútvegurinn, sem gerir það yfirleitt mögulegt, að nokkur iðnaður getur þrifizt í landinu. Iðnaðurinn er eins kominn upp á sjávarútveginn eins og við sjávarútvegsmenn sjálfir. Þetta vil ég biðja hv. formann iðnn. að athuga, þegar hann leggur niður fyrir sér, hvernig megi koma fótum undir ýms iðnaðarfyrirtæki, sem hér starfa. - Hv. þm. sagði í samb. við það að tolla blakkir og sigurnagla, að hann hefði talað við járniðnaðarmenn, sem sagt hefðu, að engin ástæða væri til að flytja þennan varning inn frá útlöndum. En hvar er lagerinn, má ég spyrja? Ég ætla, að það sé nægur tími til þess að leggja verðtoll á þessa nauðsynlegu hluti, þegar sent er fram á, að hér væru þeir framleiddir svo nokkru næmi og að ekki fengist markaður fyrir þá. En því er ekki til að heilsa. Þetta er gott dæmi af þeim hugsunargangi, sem ríkir í þeim herbúðum, sem þessi hv. þm. gengur um í. Verndartollur og innflutningshindranir eru alltaf efst í huga margra þeirra, sem eru að hugsa um að framleiða eitthvað til að selja í landinu. Það var þetta, sem ég leyfði mér áðan að kalla óheilbrigðan hugsunarhátt. - Hv. þm. sagði, að það ætti að vera stefna okkar Íslendinga að búa sem mest til sjálfir af þeim vörum, sem við ekki getum án verið. Þetta má rétt vera, en þó því aðeins, að við höfum ekki annað þarfara við tímann að gera. Annars er það þessi innilokunarstefna, sem er að koma okkur Íslendingum á kaldan klaka. Þessi stefna er því miður okkur svo óhagstæð vegna þess, að við erum allra manna mest upp á það komnir, að geta komið okkar framleiðsluvörum út á erlendum markaði. Hversu hagkvæmara væri það t. d. ekki fyrir okkur Íslendinga, ef Spánverjar væru ekki með þá flugu í höfðinu að veiða fisk hér uppi við Ísland. Hitt er annað mál, að það getur í mörgum tilfellum verið nauðsynlegt, að það séu búnar til í landinu ýmsar þær vörur, sem við þurfum að brúka, en að það sé gert á sem flestum sviðum, getur verið spursmál.

Að lokum vil ég mótmæla enn á ný þeirri dæmafáu villu hjá hv. frsm., að það mundi hafa hækkandi áhrif á verðlagið á útlendum veiðarfærum, ef íslenzk veiðarfæri væru ekki búin til hér. Þetta er hinn mesti misskilningur. Ég hefi 25 ára reynslu í kaupum á veiðarfærum, og á því tímabili hefir ekki verið um það að ræða að kaupa íslenzk veiðarfæri, nema 2 síðustu árin. Og ég hefi alltaf orðið þess var, að einmitt í þessari verzlunargrein er svo harðvítug samkeppni milli norsku verzlunarhúsanna innbyrðis, að ég ekki tali um við útlönd, að það mundi engin áhrif hafa, þó hægt væri að kaupa eitthvað í landinu sjálfu. Einmitt á þessu sviði hefir samkeppnin verið með harðasta móti, og veiðarfærin hafa, eins og gefur að skilja, verið á undanförnum árum allt að því helmingi ódýrari en þau eru nú. Ég er ekki með þessu að segja, að það sé veiðarfæragerðinni að kenna, að veiðarfærin eru dýr, því ég veit, að það stjórnast af verðinu á útlendum hráefnum, og því verður ekki stjórnað héðan frá Íslandi, hvorki af iðnn. né Alþingi. Verðið kemur því til með að vera háð sveiflum, eins og það hefir verið hingað til, og hefði hv. frsm. getað sparað sér flutning þessa frv., ef hann hefir ætlað sér að koma í veg fyrir verðsveiflur á veiðarfærum, því það er ekki hægt. - Til þess að taka af allan misskilning, skal ég taka það fram, að ég sjálfur skipti við veiðarfæragerðina eins og ég get, og ég ann henni alls hins bezta. - Það sem ég mæli á móti í þessu frv. er fyrst og fremst sú stefna að styðja iðnfyrirtæki þegar í stað með háum tollmúrum, og svo í öðru lagi það, að íþyngja á þessum tímum þeim atvinnuvegi, sem á að bera alla aðra atvinnuvegi landsins á sínum herðum.