26.11.1935
Neðri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2106 í B-deild Alþingistíðinda. (3042)

83. mál, bráðabirgðaverðtollur

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Þegar gerð var síðasta breyt. á bráðabirgðaverðtollslögunum, þá mun það hafa orðið fyrir óaðgætni, að lagður var tollur á vagnhjól, kerrur og heyvagna. Á vagnhjólum er verðtollur 15 kr. á parið og á heyvögnum, sem eru mjög hagkvæm verkfæri, þar sem hægt er að koma þeim við, er verðtollurinn svo hár, að ekki er viðlit að kaupa þá. Það má náttúrlega segja, að vagnhjól og kerrur sé hægt að búa til í landinu sjálfu, og hefir það verið gert nokkuð, en hingað til hefir ekki verið hægt að fullnægja eftirspurninni, og enn þá hefir hinum íslenzka iðnaði ekki tekizt að framleiða þessar vörur, svo að sambærilegar séu við hinar beztu útlendu vörur á þessu sviði. Ég hefi persónulega reynslu fyrir þessu og veit, að svo er um marga aðra. Og af þeim ástæðum virðist mér meiningarlaust, að minnsta kosti fyrst um sinn, að íþyngja landbúnaðinum með því að leggja slíkan toll á þessar vörur, enda mun það, eins og ég sagði áðan hafa orðið fyrir mistök, að hann var á lagður. Ég vil þess vegna vænta þess, að þetta verði leiðrétt, og leyfi mér að koma fram með skrifl. brtt., sem fer í þá átt, að upp í G-lið 1. gr., þar sem eru verðtollsfrjálsar vörur, verði tekin: vagnhjól, kerrur og heyvagnar.