13.12.1935
Efri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2122 í B-deild Alþingistíðinda. (3096)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég skal fyrst minnast á brtt. á þskj. 779, sem ég hefi leyft mér að bera fram við brtt. frá hv. þm. S.-Þ. á þskj. 755. Hún er um það, að í stað þess, að í brtt. hv. þm. er það lagt til að fella niður ritun umr. á Alþ. 1936 og prentun umræðupartsins, verði felld niður prentun umræðupartsins árið 1935 og 1936.

Eins og hv. þm. rekur minni til, var felld í sameinuðu þingi við 2. umr. fjárl. till. um að fella niður ritun umr. og prentun umræðupartsins. Komu þar fram ýmis rök, sem mér virtust einkum hníga að því að sýna fram á, að ekki væri rétt að fella niður ritunina. Ég geri mér þess vegna von um, að ýmsir af þeim, sem voru á móti því að fella ritun og prentun niður, geti fallizt á þessa millileið, sem sé að fella aðeins niður prentunina, en ritunin fari fram. Þá liggja þingræður fyrir ritaðar, svo að það verður þá síðar hægt, ef Alþingi sýnist, að halda áfram að prenta þingtíðindin, og prenta þá einnig umræðupartinn fyrir árið 1935 og 1936, svo að þótt till. mín verði samþ., þá eru eftir sem áður möguleikar til að fá öll þingtíðindin prentuð, svo að ekkert ár vanti þar í.

Ég skal taka það fram, að ef ekki verður fallizt á þessa till., þá mun ríkissjóður hljóta allþungar búsifjar fyrir prentun þingtíðindanna á árinu 1936, og það liggur í því, að á því ári verður að prenta umræðupartinn fyrir þann hluta þessa þings, sem nú stendur yfir, og fari svo, að þinginu 1936 verði lokið á venjulegum tíma og á venjulegan hátt, þá kemur líka á það ár að prenta þingtíðindin fyrir 1936. Mér sýnist því, að allar líkur bendi á það, að ef þingið vill ekki fallast á þessa till., þá verði jafnvel að hækka áætlunina um alþingiskostnað á árinu 1936 frá því, sem nú er, því að mér skilst, að þá muni koma á það ár tvöfaldur prentunarkostnaður, og nú, þegar við erum að færa niður á fjárl. ýmsa liði, sem mönnum er meira og minna sárt um, þá get ég ekki skilið, að hv. þm. vilji ekki fallast á þessa millileið, sem ég sting upp á, heldur en að færa niður framlög til verklegra framkvæmda og ýmissa atvinnuvega.

Ég skal taka það fram, að skrifstofustjóri Alþingis hefir áætlað, að miðað við þá áætlun, sem er um þingkostnað á árinu 1936, þá muni sparnaður af þessari till. nema sem næst 40000 kr., eða um 2/3 hlutum af því, sem áætlað var, að hefði sparazt, ef ritunin hefði einnig verið látin niður falla. Tel ég, að þetta sé allveruleg upphæð eins og nú standa sakir í þessum málum.

Ég þykist vita, að það muni koma fram sem rök í þessu máli, að þetta muni hafa atvinnuskerðingu í för með sér fyrir einhverja menn og að hjá ríkisprentsmiðjunni hljóti að verða minni rekstrarafgangur. En þar til vil ég svara því, að áætlunin um hagnað af ríkisprentsmiðjunni er svo varleg, að hún mundi standast, þó að þessi till. yrði samþ. En hvað snertir atvinnuna í þessu sambandi, þá þarf ekki að færa það fram sem rök sérstaklega í þessu máli, því að þau rök má alveg eins færa fram á móti flestum þeim till. við fjárl., sem hafa sparnað í för með sér. Flestar sparnaðartill. við fjárl. snerta að meira og minna leyti atvinnu manna, ýmist þannig, að menn fá minni atvinnu en áður, eða að það kemur fram í minnkandi tekjum til ýmissa manna, svo að frá þessu sjónarmiði finnst mér ekki hægt að ráðast á þessa till. sérstaklega.

Þá er önnur till. á þessu þskj., þar sem í stað þess, að hv. þm. S.-Þ. ætlar til búfjárræktar 30000 á árinu 1936, þá verði henni ætluð 42000 kr. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið frá þeim manni í Búnaðarfélaginu, sem er þessu kunnugastur, þá mun láta nærri, að öllu óbreyttu, að þessi liður yrði 57000 kr. á árinu 1936. Ef þessi till. er samþ. þá sparast á þessum lið 15000 kr. En ástæðan til þessarar brtt. minnar er sú, að ekki var hægt að færa þennan lið svona mikið niður nema með því að skerða um af framlög til ýmissa nauðsynlegra mála í landbúnaðinum, t. d. framlög til fóðurtrygginga og ýmissa félaga, sem upp hafa verið sett til þess að bæta bústofn bænda, og er till. miðuð við það, að ekki komi til verulegrar skerðingar á þessum liðum. Í hinu sýndist okkur minni hætta vera fólgin, þó að sýningar féllu niður og sparnaður fengist með því. En til þess að skerða í engu þá niðurstöðu, sem fjvn. hefir verið að stefna að með till., þá legg ég til, að þær 12000 kr., sem þarna væri eytt, þá kæmi um leið jafnmikil lækkun á styrknum til áburðarkaupa. Má segja, að þessi styrkur sé einnig nauðsynlegur, en ég tel þó lakara að skerða starfsemi þessara félaga, sem ég gat um, en þó að færður verði niður styrkurinn til áburðarkaupa, því að, þessi 12000 kr. styrkur gerir ekki nema örlítinn mun á áburðarverðinu.

Svo fjölyrði ég ekki meira um þessar till., en ég vil vona, að d. fallist á þær og samþ. þær allar þrjár.