13.12.1935
Efri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (3101)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jón Baldvinsson [óyfir.]:

Hv. 1. þm. Skagf. hefir séð ástæðu til að mæla með till. meiri hl. fjvn. og rift hæstv. fjmrh. um að fella niður prentun Alþt. Ég sé nú ekki annað vænna, af því ég veit, hvað mikill vinskapur er á milli hans og hv. þm. S.-Þ. um þessar mundir, svo það gengur ekki hnífurinn á milli, en að taka nú hv. þm. S.-Þ. og láta hann svara hv. 1. þm. Skagf. Það vill svo vel til, að þetta mál hefir fyrr verið nett í þinginu, og ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp dálítinn kafla úr ræðu hv. þm. S.-Þ. frá þinginu 1921, þegar þetta var til umr. Vona ég, að hv. þm. sannfærist við það, því ræðan er mjög snjöll og í henni felast flest rökin, sem flutt eru fram gegn niðurfellingu umræðupartsins. Ég heft drepið á sum þeirra áður, en ég játa, að hv. þm. S.-Þ. gerir það miklu betur, og af því ég veit, hvað hv. 1. þm. Skagf. gerir mikið með það, sem hann segir, er rétt að lofa honum að heyra það. Fyrst er hv. þm. S.-Þ. hér að hæla Sigurði Eggerz fyrir það, hvað hann tali vel. Þá segir hann frá því, að málið hafi þrisvar sinnum áður komið fram á þingi. Síðan segir hann svo:

„Má af meðferð málsins í öll þessi skipti nokkuð sjá, hvernig því er varið. Fyrst 1909 bar það fram leiðandi maður stærsta meiri hluta, sem verið hefir á þingi. Samt verður endirinn sá, að þessi maður verður að gefast upp við að koma málinu fram.“ Þetta fór svona í Sþ. nú, að þessir tveir leiðandi menn höfðu ekki nema 18 með sér í málinu en 28 á móti. Svo heldur hv. þm. S.-Þ. áfram:

„Samhliða því, að hann tekur við stjórn með mikinn meiri hl. að baki sér, verður hann þó í minni hl. í máli þessu og getur ekkert í því gert. Bendir þetta á það, að þegar flokksmenn þessa manns, sem sé Björns heitins Jónssonar, fóru að athuga málið, þá treystust þeir ekki til að fylgja honum í því“

Þá segir hv. þm., þegar hann er að tala um kostnaðinn:

„Þá var, eins og nú, gert ráð fyrir nokkrum þús. kr. í kostnað við fjölritun ræðanna, og hið sama mun hafa vakað fyrir flm. þá sem nú, hvað geymslu handritanna snertir.“

Nú hefir hæstv. fjmrh. borið fram till. um að fella niður prentunina, en það á að skrifa ræðurnar, og líklega þá að fjölrita þær. Um þetta segir hv. þm. S.-Þ. 1924: „Það minnir mig reyndar á gamla bók frá 12. öld, sem ég sá í Englandi fyrir nokkrum árum. Hún var járnbent og hlekkjuð föst í múr til varnar móti þjófum. Nú á 20. öldinni erum við á Íslandi að komast í nokkuð svipað ástand með því að gera þingtíðindin að sjaldséðu handriti.“

Enn heldur hv. þm. áfram:

„Ég tek undir það með hæstv. forsrh., enda er mér það persónulega kunnugt, að á mörgum sviðum landsins eru Alþt. lesin með mestu ánægju, og ég veit, að það yrði álitið hið mesta hermdarverk úti um land, ef frv. þetta yrði samþykkt. Hv. flm. (JM) gat þess, að blöðin flyttu nú bæði almennar þingfréttir og einstakar ræður þm. Ég er samdóma hæstv. forsrh., að eins og blöðin eru nú, þá taka þau aðallega svari sinna flokksmanna, enda væri fjarstæða að gera ráð fyrir því öðruvísi. Ég vil ennfremur leyfa mér að undirstrika það, sem hv. sami ræðum. (SE) tók fram um blöðin, því að illt er að treysta þeim einum í þessu efni. þegar af þeirri ástæðu, að ríkustu flokkarnir gæfu getið mest út og þannig haft bezta aðstöðuna til þess að ná til fólksins.“ - Stærsti flokkurinn núna styðst til dæmis við 10 blöð. Þá herðir hv. þm. á ræðunni og segir: Ég tel það hneyksli og ósamboðið þjóðinni, eftir að búið er að gefa út þingtíðindin síðan 1845, að leggja þau niður nú, enda þótt tímarnir séu erfiðir. Skil ég ekki, hvernig hv. flm. (JM) getur litið framan í samtíð sína og eftirtíð. Þegar hann hugsar um það, hvernig ástatt var fyrir íslenzku þjóðinni fyrir 1874, þegar hún var eins og hreppur í Danmörku, en tókst samt að gefa út þingtíðindin. Þá datt engum í hug að kæfa rödd þingsins eins og nú er gert. Og það er almennt álitið, að á tímabilinu frá 1874 til aldamóta hafi verið gætt mikillar varúðar um fjárhag landsins, en þó kom aldrei til mála að hætta prentun þingtíðindanna, ekki einu sinni milli 1880-1890, þegar landsmenn voru að deyja úr hungri og eymd og flúðu til Ameríku þúsundum saman. Það er fyrst eftir að þjóðin hefir fengið stjórnina inn í landið, og þegar fullveldið er fengið, að það fer að bóla á þessari kyrkingartilraun við Alþ.

Að endingu vil ég, alveg gremjulaust beina þeirri spurningu til hv. flm. (JM), hvort hann sjái ekki það sorglega í því, að hann, sem var stjórnarformaður, þegar landið varð fullvalda ríki, og mun telja sig eiga einhvern þátt í því, að landið varð sjálfstætt ríki á pappírnum, og hann, sem stjórnaði landinu fyrst á eftir, skuli vera flm. að frv., er gengur í þá átt að loka þinginu fyrir þjóðinni.“

Og enn segir hv. þm.: Ég fæ engan veginn sætt mig við, að nú sé gripið til þeirra örþrifaráða, sem áður þekktust ekki, þegar fátækt og hörmungar hrjáðu landið meira en nokkru sinni og það var þar að auki undir yfirráðum annars ríkis.“

Þá segir hv. þm. ennfremur:

„Það er engu líkara en að allar þessar till. séu bornar fram með það fyrir augum, að drepa vísvitandi hið frjálsa lýðræði í landinu, sem stjórnskipulag þess byggist á.“

Hv. þm. hefir enn í seinni ræðu sinni sagt um flokk þann, sem stóð að frv.: „Sá flokkur, sem skammast sín fyrir gerðir sínar á þingi, hann er hræddur við að láta prenta þingtíðindin og leggja gerðir sínar undir dóm þjóðarinnar. En hinir, sem halda því fram, að það eigi að prenta þingtíðindin, eru ekki hræddir, af því að þeir vita, að þeir hafa ekkert að fela. Þetta er mjög augljóst mál. Hverjir eru það, sem leggja á flótta, þegar á hólminn er komið? Það eru bleyðurnar, ragmennin og hinir sakfelldu, sem vita á sig skömmina. Hverjir eru það, sem fela sig og fara huldu höfði, er lögregluþjónar nálgast? Það er þjófarnir, því það er hér eins og endranær, að sök bitur sekan.“

Margt af þessu, sem ég hefi lesið upp, eru sterk rök, og má segja, að þetta sé laglega orðuð ræða, og með því sérkennilega orðalagi, sem einkennir þennan hv. þm. En öll ræðan hnígur að því að kveða niður þá till., sem hann og hv. 1. þm. Skagf. bera nú fram í þinginu.