19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (3122)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á þeirri tilhögun, að hægt er að bera upp einstaka liði í brtt. hæstv. forseta, og þá geta þeir þdm. greitt þeim atkv., sem það vilja, og hinir vitanlega á móti.

Eins og hv. þdm. munn hafa tekið eftir, þá á ég tvær brtt. við frv. eins og það nú er á þskj. 862. Þessar brtt. mínar eru á þskj. 896 og eru um það að fella tvo liði úr frv., 4. og 16. tölul. 4. liður fjallar um það, að framlag úr ríkissjóði til greiðslu á embættiskostnaði presta verði lækkað um 30 þús. kr. Það var rætt nokkuð um þetta atriði í sambandi við 2. umr. fjárl. (Forseti: Það er æskilegt, að menn séu ekki með smáfundahöld í þd.). Var þá gerð fullkomin grein fyrir því, hversvegna það er ekki rétt að samþ. þessa till. En hún kom þá ekki til atkv., - fjvn. tók hana aftur til 3. umr. Og nú er hér aftur komin fram heimildartill. um að fella þessa greiðslu niður. Það var þó undirstrikað í umr. um fjárl. að þessi embættismannastétt -prestarnir - ætti tvímælalaust við verst kjör að búa allra opinberra stétta, og minni laun. Og hinsvegar liggur í raun og veru fyrir fullkomin viðurkenning á því, að launakjör þeirra eru óviðunandi. Kemur það greinilega fram í frv. um launalög, sem liggur fyrir þessu þingi, þar sem lagt er til, að prestum verði fækkað, aðallega í þeim tilgangi, að hægt sé að launa þá betur en nú er gert. Virðist allhæpið, samtímis því að þetta er þannig opinberlega viðurkennt, að skera niður þau litlu laun, sem þeir nú hafa, með því að lækka svo mjög heimildina til greiðslu embættiskostnaðar, sem hér er farið fram á. Hinsvegar eru þessar 30 þús., sem spara á með þessu móti, ekki sú upphæð, sem hægt er að segja, að ríkissjóð varði nokkru verulegu. Hagur ríkisins hlýtur að teljast jafn eftir sem áður, þó það sleppi við að greiða þessar 30 þús. Þess vegna virðist mér það gersamlega óviðurkvæmilegt að grípa til þessa ráðs og ráðast þannig á garðinn þar sem hann er lægstur.

Hin till. mín er um að fella niður 16. eða síðasta lið frv., sem er um það, að frá 1. júlí 1936 skuli gilda um kvennaskólann í Rvík almenn ákvæði l. um gagnfræðaskóla, nr. 48 19. nóv. 1930. Þarna er í rauninni um einkastofnun að ræða, sem gersamlega óviðeigandi er, að löggjafarvaldið fari að setja slík ákvæði um, án þess einn sinni að leitað sé samþykkis umráðamanna hennar. Nú hafa Alþingi borizt skrifleg mótmæli frá umráðamönnum þessarar stofnunar gegn þessari lagasetningu, og er þess vegna vita, að þó hún yrði samþ., yrði það tvímælalaust ógild ráðstöfun. Það er því alveg tilgangslaust að vera að svo stöddu að skipa fyrir um að haga þessari stofnun á þann hátt, sem til er tekið í frv. Nú, ég sé, að hæstv. forseti hefir tekið þetta til greina í sinni brtt. við frv., þar sem hann einmitt fellir þennan lið burt, og er ég honum þakklátur fyrir það og mun styðja að því, að hans till. nái fram að ganga að því leyti.

Hinsvegar vil ég taka það fram, að þegar ég samdi mínar brtt., voru fram komnar brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. á þskj. 886, um að fella niður 3., 11. og 14. lið frv. - 3. liðurinn er, eins og menn vita, um að fella niður prentun umræðuparts Alþt., og ég er að sjálfsögðu till. hv. 2. þm. Reykv. um að fella þann lið niður fyllilega samþykkur. Um þetta voru raunar greidd atkv. við 2. umr. fjárl. í Sþ. Þá var að vísu um það að ræða að fella niður bæði skriftir og prentun umr., svo það er í sjálfu sér ekkert við því að segja, þó nú komi till. fram þannig breytt, að aðeins falli niður prentunin. En ég vil vekja athygli hv. dm. á því, að svo fráleitt sem það var að fella niður skriftirnar, og þá náttúrlega um leið prentunina, þá virðist mér hitt þó ennþá fráleitara, að halda áfram að láta skrifa umr. í því skyni að láta þó ekki prenta þær. Nú gerir hæstv. forseti það að till. sinni, að þetta skuli ekki orða þannig, að niður skuli falla prentun umræðuparts með öllu, heldur skuli henni frestað á árinu 1936. Og í rauninni virðist mér sú till. ennþá fráleitust, því hún gerir beinlínis ráð fyrir, að sá kostnaður, sem hér er um að ræða, verði ekki felldur niður, heldur sé þessum útgjöldum aðeins frestað í bili. Ég man ekki, hvað kostnaðurinn við prentun umræðupartsins nemur mikilli upphæð, en ég sé ekki, að það geti varða ríkissjóð neinu, hvort hann greiðir hana árinu fyrr eða seinna. (Fjmrh.: Þetta munar 40 þús. kr. - ÓTh: Sem koma fram í verri afkomu ríkisprentsmiðjunnar). Mér virðist ekki taka því að veita ríkissjóði þennan greiðslufrest, sérstaklega þegar athugað er, að sú vinna, sem hér er um að ræða, eykur tekjur ríkisprentsmiðjunnar. Má jafnvel gera ráð fyrir að ef þessi prentun væri tekin af heimi, minnkaði ágóði hennar ekki aðeins sem því svaraði, heldur meira, vegna þess að af því kynni að leiða, að prentsmiðjan hefði ekki nægilegt verkefni fyrir þá, sein við hana starfa, svo þeir ynnu þannig lakar fyrir sínu kaupi heldur en ella. Sparnaðurinn yrði því að mestu aðeins tilfærsla milli vasa fyrir ríkissjóðinn, þ. e. a. s., sparnaður ríkissjóðs kæmi fram í minni tekjuafgangi ríkisprentsmiðjunnar. Eftir því sem ég þekki til um prentkostnað, þá er bein útborgun prentsmiðjunnar í vinnulaun ekki svo mikill hluti af rekstrarkostnaðinum; þar kemur ýmislegt fleira til greina, svo sem húsaleiga, fyrning áhalda o. fl., sem greiða þarf jafnt hvort sem meira eða minna er prentað. Þó prentunin minnki, sparast því lítið á rekstri prentsmiðjunnar, svo ágóðinn verður þeim mun minni. Ég álít því, að það sé til ákaflega lítilla hagsbóta fyrir ríkissjóð að fella niður þessa prentun, og því síður að fresta henni um stundarsakir, ef hvort sem er á að greiða þennan kostnað fyrr eða síðar. Hitt, að fella með öllu niður að skrifa umr., verð ég að játa, að mætti telja til sparnaðarráðstafana, þó vitanlega sé sama um það að segja að því er snertir rekstur ríkisprentsmiðjunnar. En um það er að öðru leyti það að segja, að ég álít, og hefi alltaf litið svo á, að það væri gersamlega ósæmilegt, að þingið lokaði sig á þann hátt inni fyrir allri þjóðinni svo að segja, sem gert væri með því að hætta að prenta ræður þm. Því þó sagt sé, að fáir menn í landinu lesi þingtíðindin, þá á allur landslýður kost á að lesa þau og kynna sér þannig, hvað hver einstakur þm. leggur til málanna. Jafnframt eiga menn með lestri þingtíðindanna kost á að kynna sér rökin með og móti hverju máli og fá þannig betri skilning á starfi þingsins yfirleitt heldur en ella. Þó allur fjöldinn noti ekki þetta nema að litlu leyti, þá er það engin afsökun fyrir þeirri óhæfu, sem það væri, ef Alþingi meinaði mönnum með sérstakri ráðstöfun aðgang að þessum gögnum.

Ég er sömuleiðis samþykkur till. hv. 2. þm. Reykv. um að fella niður 11. lið frv., og hæstv. forseti mun einnig hafa tekið þá till. til greina í sinni brtt. Ég held, að það sé mjög hæpin sparnaðarráðstöfun að fara að sameina skólahéruð. Í mörgum tilfellum mundi verða að greiða kennurunum kaup eftir sem áður, svo sparnaðurinn yrði þar af leiðandi mjög vafasamur. Ætti þetta hinsvegar að vera til frambúðar, væri í því fólgin röskun, sem varla er ástæða til að gera ráðstafanir til að koma fram.

Aðrar till. hv. 2. þm. Reykv. sé ég ekki ástæðu til að gera að umræðuefni. viðvíkjandi því, að undanskilja Þór söluheimildinni, er það að segja, að í rauninni teldi ég réttara að selja Þór heldur en Óðin, því Óðinn er vafalaust að öllu leyti vandaðra og merkilegra skip og hæfara til þeirrar starfsemi, sem þessi skip eru aðallega ætluð til. Hinsvegar er talið, að Þór hafi alveg sérstakt hlutverk, sem sé gæzlu við Vestmannaeyjar á vertíðinni, og að vafasamt sé, hvort hægt sé að fá annað hentugra skip til þess starfs. Þess vegna mundi ég helzt hallast að því að selja hvorugt skipið, Þór eða Óðin. Ég geri ráð fyrir, að lítið verð væri hægt að fá fyrir þau, og hvað sem sagt er um það nú í svipinn, að landhelgisgæzlan verði eins vel rækt met vopnuðum vélbátum, þá getur hver og einn sagt sér það sjálfur, að slíkt er ekki annað en firra, að landhelgin geti orðið betur varin met lélegum skipum heldur en fullkomnum skipum. Hitt er annað mál, hvort ríkið hefir eins og nú standa sakir efni á að starfrækja öll þessi skip til landhelgisgæzlu. Virðist að þá lægi nær að leggja þessum skipum upp og starfrækja þau eigi um tíma, heldur en að rjúka í að selja þau fyrir lítið verð og leggja féð í lélegri skip, sem vitanlega yrði fljótt að endurnýja og mundu með tíð og tíma verða eins dýr eða jafnvel dýrari í rekstri við þessar þarfir ríkisins. - Ég skal svo ekki tefja tímann með lengri umr. um þetta mál.