19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2175 í B-deild Alþingistíðinda. (3130)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jörundur Brynjólfsson [óyfirl.]:

Ég hafði ekki hugsað mér að tala um þessa brtt., sem ég flyt hér; hún er svo smávægileg. En ég hafði ekki búizt við því, að svo yrði litið á, að mér væri tæpast heimilt að gera brtt. Hv. þm. Borgf. taldi, að það kenndi nokkuð mikils yfirlætis hjá mér, að ég skyldi leyfa mér að bera fram þessa brtt. Ég veit ekki, hvert sakarefni kann að vera í þessu fólgið, en mér virtist, sem hv. þm. teldi, þar sem hæstv. ráðh. hefði lýst sig samþykkan brtt. minni og mundi hafa um hana vitað, að þá hefði verið óviðfelldið, að ég hefði flutt hana. Það má vera, að hv. þm. hafi þá talið „yfirlætið“ í því fólgið, að ég gerðist flm.till., sem núv. hæstv-. ríkisstj. stóð að. Ég kemst þá ekki undan slíku ámæli, ef þannig er ástatt, og verð að láta mér það lynda. En það vill svo til, án þess að það skipti máli, að ég átti tal við hæstv. ríkisstj. um þessa brtt., áður en ég bar hana fram, en ég ætla ekki að fara út í það, af hvaða ástæðum það var. Ég taldi mér það frjálst og áleit, að það kæmi eiginlega ekki öðrum við. Mér finnst það ekkert óskiljanlegt, þó ég ætti tal við hæstv. ríkisstj. um flutning slíkrar till., þar sem hún hefir verið allmikið við þetta mál riðin. Ef hv. þm. Borgf. hefði verið í stj., þá hefði ég hagað mér eins gagnvart honum, ef ég hefði verið stuðningsmaður hans, en ég skal náttúrlega ekki segja, að ég hefði gert það, ef ég hefði verið andstæðingur hans. En þessi afstaða mín til málsins er að dómi hv. þm. Borgf. ekki nóg. Mér láðist sem sé að fara til hans líka og segja honum, að nú ætlaði ég að leyfa mér að bera fram brtt. við þetta frv., sem hann stendur að með mestu prýði. Þessa vangá verð ég að játa. En ég get samt ekki farið að biðja hv. þm. afsökunar á neinu; bæði er skaplyndi mínu þannig farið, að ég tel mig jafnréttháan og hann, og svo veit ég ekki heldur, hvort það væri í þökk minna kjósenda, að ég færi að biðja hann leyfis til að bera fram mál á Alþ. Svona lít ég sem sagt á málið, og þó hv. þm. Borgf. þyki sér misboðið með því, hvernig ég hefi hagað mér í þessu efni, þá verður hann að hafa það.

Nú vill svo til, að aðrir hv. þm. hafa flutt brtt., sem fella niður þá 3 liði, sem ég hefi gert till. um að fella niður. Það er þá einn liður, sem sé 12 liðurinn í þessu frv., sem ég geri till. um, að niður sé felldur umfram það, sem aðrir þm. hafa gert till. um. Ég lýsti því yfir strax af forseta stóli, að ég mundi bera upp mína brtt. fyrst, en svo aðrar brtt. hv. þm. við mína brtt., sem upphaflega væru eðlilega stílaðar við frv., svo atkv. gætu farið fram um það. Mín yfirlýsing var því fullkomlega þingleg og sjálfsögð eftir þingsköpum. Ef þannig kann að vera ástatt í d., að meiri hl. sé ósamþykkur því, að fyrst og fremst þessir 3 liðir verði felldir niður og svo einnig þessi eini liður, sem ég legg til að verði felldur niður, þá er það náttúrlega eðlileg afleiðing, að mín brtt. verði felld, og nær það þá ekki lengra. Hv. dm. hafa gert sig ánægða með það, hvernig ég ætla að haga atkvgr. Ég hefi meira að segja heitið því - sem þó ekki er alveg sjálfsagt -, að ef hv. þm. óskar eftir atkvgr. um sérstaka liði í minni brtt., þá mundi ég verða við þeim tilmælum. Og er þá sakarefnið ekki orðið mjög mikið. Ég misskil heldur ekkert tilgang þessa máls, sem er sparnaðurinn, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, og þá kem ég að hinum einstöku liðum, sem ég legg til, að niður verði felldir.

Hvað viðvíkur 11. liðnum, þá er ekki gott að segja, hvort nokkur sparnaður leiði af honum. Slíkt fer eftir því, hvernig þeim málum er háttað, og er mjög líklegt, að enginn sparnaður leiði af þessum lið.

Um 12. liðinn er það að segja, að það á að fela annari stofnun starf heldur en l. mæla fyrir. Starfið á því að rækja og það verður að greiða fyrir það, þó það falli undir landssímann. Sparnaðurinn verður því enginn á þessum lið.

Um 14. liðinn get ég skírskotað til þess, sem hæstv. fjmrh. sagði, og þarf ég því ekki að fjölyrða um hann frekar. - Og um 16. liðinn get ég líka látið mér nægja það, sem hæstv. fjmrh. sagði.

Mér komu satt að segja orð hv. þm. Borgf. ákaflega einkennilega fyrir. Ég veit ekki, hvort honum sýndist prentsvertan eitthvað öðruvísi á þessari till. minni heldur en öðru prentuðu máli. Ef svo er, að hún hér með sér eitthvert sérstakt yfirlæti, þá tel ég mig ekki eiga sök á því; ég hefi þar hvorki ráðið lit né letri. En ég hefi verið að rýna í þessa till. mína til þess að sjá, hvort hún væri nokkuð öðruvísi heldur en aðrar till., en ég hefi ekki getað séð, að hún væri það, nema hvað efnið áhrærir og mitt nafn, og ég gat ómögulega farið að breyta því. Ég get sem sagt ekki séð neitt við mína brtt., sem er öðruvísi heldur en það, sem tíðkast hjá öðrum hv. þm. og hv. þm. Borgf., sem nú sjálfur flytur till. og telur sig hafa heimild til þess, og mér dettur ekki í hug að segja, að það sé af yfirlæti gert hjá honum. Ég veit, að það er af umhyggju fyrir landhelgisgæzlunni, og þó að það sé allt annað en sparnaður, sem af till. leiðir, þá dettur mér ekki í hug að áfella harm fyrir það, að bera slíka till. fram. Ég viðurkenni þýðingu málsins, og þó að hv. þm. hafi ekki átt tal við mig um það, að hann ætlaði að bera fram brtt. við frv., þá tel ég honum það ekki til yfirlætis. En ég kann ekki við þó, að meðan við erum jafnréttháir um afstöðu til afgreiðslu mála, að ég megi ekki bera fram mál. Og mér er sem sagt óskiljanlegt, hvað hv. þm. hefir átt við með því að tala um yfirlæti hjá mér í þessu sambandi. Ég vona, að hv. þm. útskýri þetta eitthvað, og sé það eitthvað sérstakt, sem hann sér með sínum andans augum, þá væri æskilegt, að menn gætu öðlazt þessa gáfu hans, en það væri þá betra, að sá ókostur fylgdi ekki með, sem fylgir hans sálarsjón, að menn sæju ofsjónir eða sæju það, sem ekki er.

Hvað viðvíkur till. hv. þm. Borgf., þá veit ég, að hann á ekki sök á því, að það mætti misskilja hana. Hæstv. fjmrh. minntist á það, að hann vonaði, að hv. þm. ætti ekki við það, að 4 bátar væru samtímis auk Ægis á hverjum stað. Ég hefi nú ekki skilið þetta þannig. En ef ætti að skilja till. eftir orðanna hljóðan, þá ættu jafnvel 4 bátar að vera á hverjum stað og Ægir. Ég segi nú Ægir í eintölu af því, að ég hefi skilið, að það væri átt við varðskipið. En ef ætti að skilja þetta eftir orðanna hljóðan, þá ætti Ægir að vera með á hverjum stað. Þetta er að sínu leyti eins og guð er bæði einn og þríeinn og alstaðar nálægur. Þetta er náttúrlega sagt til gamans. En ég vildi aðeins benda hv. þm. á það, að það getur farið þannig, jafnvel hjá þeim, sem ekki kennir hins minnsta yfirlætis, að það má misskilja till. þeirra. Tilgang hv. þm. misskil ég vitanlega ekki, en það er sem sé greinarmerki, sem vantar, og það er auðvelt að sjá, við hvað er átt.

Ég skal taka það fram, að mér þykir þetta leiðinlegt, sem fram hefir farið milli okkar hv. þm. Borgf., því okkur hefir ekkert farið í milli þannig lagað, að ég eigi í neinum útistöðum vil hann. Mér þykir leiðinlegt, þegar þm. þykir eitthvað miður við mig. Og ég vona, að þó hv. þm. Borgf. hafi eitthvað mislíkað flutningur þessarar brtt. minnar, að hann fyrirgefi mér og að við verðum jafngóðir vinir eftir sem áður, þegar afgr. þessa máls er lokið, og helzt fyrr.

Ég vil svo að lokum bæta því við til réttlætingar á því, að ég ber fram till. um það, að þar sem stendur í 3. lið frv., að fella skuli niður prentun umræðuparts alþt., skuli standa, að fresta skuli prentuninni. Það er búið að reyna það áður, hvort meiri hl. sé fyrir því á þingi að fella alveg niður umræðupart þingtíðindanna, og slík till. var felld. Ég hefi því talið hyggilegt, að orðalagið væri vafalaust, og breytt því þannig, að hér væri aðeins um frestun að ræða. Ég veit, að þó prentun sé nú felld niður, þá er hægt með lagasetningu, þar sem handritin eru til, að ákveða, að þau skuli prentuð, en það er bezt, úr því meiri hl. er fyrir því, að prentun þingtíðindanna skuli haldið áfram, að þetta sé ekkert vafamál.