19.12.1935
Sameinað þing: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

1. mál, fjárlög 1936

Magnús Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég var að hugsa um við 2. umr. að segja dálítið frá því, hvernig samvinnan hefði verið milli stj. flokkanna og okkar sjálfstæðismanna í n., en hvarf þá frá því, af því að mér þótti rétt að segja ekki þá sögu fyrr en lokið væri 2. umr., því að það er gömul regla að lofa ekki dag fyrr en að kvöldi, og þótti mér rétt að fara eins að um þetta. — Ég skal þó fyrst segja það, að samvinnan í n. hefir verið beinlínis allt önnur en í fyrra. Ef ég á í einu orði að segja, hvernig stjórnarstuðningsmenn hafa verið í samvinnu við okkur andstæðinga sína, þá verð ég að segja það, að samvinnan hefir verið góð, a. m. k. þangað til við 3. umr., og það var ekki hægt að finna annað lengi vel en að þeir vildu sýna fulla sanngirni. Ég varð ekki var við annað en að það væri vilji stuðningsmanna stj. að færa niður útgjöldin til mikilla muna. Formaður n. hélt margar hjartnæmar ræður við þá menn, sem komu til viðtals við n., og skýrði fyrir þeim, hvernig hag landsins væri komið, og að við mættum búast við, að dregið yrði til mikilla muna úr öllum gjöldum. Því mættu þeir ekki gera of miklar kröfur til hins opinbera á þessum tímum, og við yrðum að sætta okkur við svo og svo lítil framlög til ýmsra fyrirtækja og að allir yrðu að taka þátt í að spara o. s. frv. Þessa ræðu helt hann svo oft og við svo marga, að ég kann hana að mestu leyti utan að, og ég verð að sega það, að við vorum honum samdóma um þetta og þótti mjög skipta um síðan í fyrra, tókum þessu fagnandi og unnum svo í n. með beztu samvinnu að niðurfærslu ýmissa gjalda, og komumst svo langt fyrir 2. umr., að við lækkuðum gjaldahliðina um nær 1 millj. kr. Með þessari samvinnu var auðvitað reynt að skera niður hingað og þangað, það sem margir og stundum allir nm. hefðu óskað, að ekki þyrfti að skera niður. En af því að svo leit út sem þetta væri sameiginlegur vilji stj. stuðningsmanna og andstæðinga hennar, og færa útgjöldin í fjárl. niður, þá var fúslega unnið að þessum niðurfærslum í n. En svo þegar kemur fram undir það, að n. ætlar að fara að skila áliti sínu til 2. umr., þá springur stóra bomban hjá stj.liðinu og fæðist eitt mikið nýtt skattafrv., og það virtist vera samkomulag hjá því um, að fram skyldi ganga ný löggjöf, sem yki gjöldin gífurlega mikið. Við minnihl.menn urðum ákaflega hissa á þessu og töldum að þetta færi beint í bága við þá stefnu, sem fjvn. hingað til hafði fylgt. Og ég er líka sannfærður um, að ýmsir af stuðningsmönnum stj. hafa gengið að þessum samningum mjög ófúsir. Ég hefi fengið að vita það síðan, að þessir samningar stöðu lengi yfir og að það hafi verið mjög erfitt að ná um þá samkomulagi, og ég hygg, að á tímabili hafi litið út fyrir, að líf stj. væri undir þessum samningi komið. Það hefir því e. t. v. ekki verið neitt undarlegt, þótt stuðningsmenn stj. yrðu að lokum að samþ. þessa samninga. Ég skal alls ekki vera grimmorður út af því í rauninni, af því að svo stendur á, að erfitt er að ganga til kosninga um þetta leyti árs og e. t. v. varhugavert fyrir einstakan flokk, en út í það mál skal ég ekki fara lengra. Það er komið fram að 3. umr. fjárl., þegar stj.flokkarnir báðir skipta gersamlega um stefnu í fjármálum. Til þess tíma leit út fyrir, að þeir vildu spara og færa niður gjöldin. en eftir að samningar tókust, hefir allt annað orðið uppi á teningnum. Um undirbúning undir þessa umr. málsins vil ég segja það, að hann hefir verið ólíkt öðruvísi en undirbúningurinn undir 2. umr., enda sýna þær brtt., sem hér eru fram komnar, mikla breyt. í þessu efni, því að nú eru komnar fram svo að segja eingöngu hækkunartill., en við 2. umr. var fjöldinn allur af lækkunartill. Þá var það líka svo, að í n. voru þá af stj.meirihl. eiginlega lagðar fyrir fullbúnar till. frá stj.flokkunum, sem ég geng út frá, að þeir hafi verið búnir að samþ. á sínum fundum. Þar af leiðir, að þær till., sem hér liggja fyrir, eru ekki nærri því allar fram bornar með samþykki okkar minnihl.manna. við höfum verið samþykkir mörgum þeirra, og sumum þeirra höfum við beinlínis komið inn með samþykki meiri hl. Ég geri ekki ráð fyrir, að ég fari að telja hér upp allar þessar till., sem við hefðum ekki viljað vera með, að bornar væru fram, því að það yrði nokkuð langt mál. Það gerir heldur ekkert til, því að það kemur fram við atkvgr., hvernig við litum á hinar einstöku till. Þó má vera, að ég síðar nefni einstakar af þessum till.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er nú þannig, eftir því sem frá því er gengið samkv. till. n., að gjöldin munu verða sem næst 151/2 millj. kr. Til samanburðar má geta þess, að í fjárl. í fyrra voru þau áætluð 141/2 millj. kr. Ef farið verður eftir till. n. —, og ég hygg nokkurn veginn óhætt að gera ráð fyrir því, að ekki verði mjög mikið frá þeim vikið, ef dæma má ettir atkvgr. í fyrra —, þá verða fjárl. fyrir 1936 h. u. b. einni millj. og 200 þús. kr. hærri en fjárl. fyrir yfirstandandi ár. Og þegar maður tekur tillit til þess, að fjárl. fyrir 1935 eru hærri en nokkur önnur fjárl. áður, þá sér maður, að hækkunin er orðin gífurleg, enda er það ekki nema eðlilegt eftir afstöðu stj. og hennar fylgismanna, að fjárl. hækki, þegar því er yfir lýst, að eftir því sem harðni í ári og ástandið versni, þá beri að hækka gjöld ríkissjóðs. Það er þá ekki nema eðlilegur hlutur, að eftir því sem fleiri og fleiri gjaldendur ríkissjóðs heltast úr lestinni, þá verði að leggja meira og meira á þá, sem eftir eru. Og hvernig þetta endar, það hygg ég, að geti ekki orkað tvímælis. Það getur ekki endað nema með hruni, ef ekki batnar stórkostlega árferðið, og ef ekki opnast aftur markaðir, sem nú eru smátt og smátt að lokast og sumstaðar jafnvel alveg lokaðir. En það lítur út fyrir, að stj.flokkarnir ætli að bíða og fljóta sofandi að feigðarósi, þangað til skeður eitthvert kraftaverk, sem bjargar okkur. Ég hefi aldrei heyrt þá kenningu fyrr, að það vari ráð fyrir mann eða menn, sem komnir væru í kröggur, að eyða sem allra mestu. En það virðist vera kenning hæstv. stj. Ég hefi alltaf heyrt, að þegar í harðbakka slær, verði að draga saman og láta ýms nytjamál bíða. Ég skal benda á, að það er hægt að setja sig á hausinn með því að frumkvæma þeim nauðsynjaverk, ef maður hefir ekki ráð á að vinna þau á þeim tíma, sem maður gerir það. Þær brtt., sem gerðar hafa verið við fjárl. í þetta skipti, eru fleiri en nokkru sinni, sem ég man eftir síðan ég kom á þing. Af hálfu fjvn. hafa verið bornar fram við báðar umr. h. u. b. 300 brtt., og sumar hafa velt við heilum köflum í frv. Þetta kemur ekki vel heim við það, að fjmrh. var í fyrra hvað eftir annað að reyna að telja mönnum trú um það, að ástæðan til þess, hve há fjárl. væru þá, væri sú, að það væri í fyrsta skipti áætluð í fjárl. gjöldin eins og þau myndu verða í raun og veru. Ég man nú eftir einum 8 eða 10 fjármálaráðherrum hér á þingi, og þeir hafa alltaf sagt, að þeir vildu óska og stefndu að því að áætla fjárl. eins og þau myndu verða, en jafnan hefir það mistekizt. Þetta sama sagði svo hæstv. núv. fjmrh. í fyrra, en nú hefir komið á daginn, að áætlun hans fyrir 1935 hefir alls ekki staðizt. Mikið af þeirri lækkun, sem fjvn. varð að gera á gjaldliðum fjárlfrv. varð að fara til þess að hækka þá liði, sem fjmrh. hafði áætlað of lágt. Það er því langt frá því, að hæstv. ráðh. hafi tekizt nokkuð betur að áætla gjöldin heldur en öðrum fjármálaráðherrum. Ég segi þetta honum ekki til lasts út af fyrir sig, en það, sem ég lasta, eru hans stóru orð í fyrra um, að nú væru gjöldin í fyrsta skipti áætluð eins og þau myndu verða. (Fjmrh.: Það sagði ég bara aldrei). Ég veit ekki, hvort það kemur fram í þingtíðindunum, en ég hlustaði á ráðh. segja þetta, svo að hann þarf ekki að segja mér neitt um það, hvort hann sagði það eða sagði það ekki.

Ég skal þá víkja nokkuð að þeim brtt., sem hér liggja fyrir á þskj. 881. Það eru ýmist hækkunar- eða lækkunartill., bæði samkv. nýjum væntanlegum l. og eins brtt. frá ráðh. Ég skal geta þess, að fjvn. byrjaði á því að áætla tekjurnar meiri, af þeim ástæðum, að því er ég frekast veit, að ýmsar undirnefndir, sem höfðu með þetta að gera, höfðu komizt að samkomulagi við fjmrh. Hæstv. fjmrh. hafði, eins og ég lái honum ekki, mikla tilhneigingu til að lækka tekjuáætlunina sem mest, og eftir honum var látið í því efni, að ég held í öllum atriðum, nema e. t. v. einn. Honum þótti þá ekki varlegt að áætla áfengistekjurnar eins hátt og þær myndu verða 1935. Þetta lét n. eftir honum, og þess vegna voru þessar tekjur áætlaðar 200 þús. kr. hægri heldur en þær munu verða á yfirstandandi ári. Nú hefir hæstv. ráðh. aftur komið með till. um, og vitaskuld fengið samþykki n., að hækka þennan lið um 200 þús. kr., en þetta er nú ekki gert til þess að fara eftir því, sem var 1935, heldur af því, að fjmrh. hefir lýst því yfir, að hann ætli að hækka verð á áfengi, Svo að ég verð að telja, að þessi liður sé samt mjög varlega áætlaður, ef ganga má út frá því, að svipað verði drukkið í landinu eins og verið hefir á þessu ári. Það er ekki lengra síðan en í dag, að ég talaði við forstjóra áfengisverzlunarinnar, og sagði hann mér þá, að ennþá hefði ekkert dregið úr áfengissölunni, svo hann sæi. Hvort úr henni dregur, þegar hækkunin kemur, um það skal ég engu spá. En það, sem var dálítil deila um milli mín og hæstv. fjmrh., var það, hversu hátt skyldi áætla voru og verðtollinn. Hæstv. fjmrh. hélt því fram mjög ákveðið, að hann ætlaði að draga mikið úr innflutningnum 1936. Hann hélt því líka fram í fyrra, að hann ætlaði að draga afarmikið úr innflutningi 1935, en sumum hefir fundizt, að ekki hafi orðið eins mikið úr því á borði og í orði, og er ég einn þeirra. Ég hygg, að innflutningur 1935 verði h. u. b. jafnmikill og t. d. 1932, og var þó sá maður, sem þá var fjmrh., ekki neitt að stæra sig af því, hvað hann væri ákaflega slyngur í að beita innflutningshöftunum. En hluturinn var sá, að það fer nokkuð eftir árferði, hvernig fer með innflutninginn, þrátt fyrir allan áhuga um innflutningsbann og þess háttar. Þó má enginn skilja orð mín svo, að ég sé á móti takmörkun á innflutningi. Ég hefi fyrir langa löngu látið þá skoðun í ljós, strax 1920, að það gæti ekki gengið nema eitt og eitt ár í senn að flytja miklu meira inn en út. Ég tek þetta fram til þess að sýna það, að eins og það hefir brugðizt, sem hæstv. fjmrh. sagði í fyrra, eins getur það brugðizt, sem hann segir nú. En hitt skal ég játa, að mér finnst hæstv. fjmrh. vera með mjög miklar bollaleggingar um ákveðin innflutningshöft. Hvað úr þessu verður, skal ég ekki dæma um. Það gekk einu sinni svo langt hjá n., að hann vildi fá okkur til þess að færa niður kaffi- og sykurtollinn og kvaðst ætla að minnka innflutning á þessum vörutegundum um 25%. Hann hefir þó ekki haldið þessu fram síðan, hvort sem það er af því, að hann hefir skipt um skoðun í þessu efni, eða af því, að hann hafi ekki talið heppilegt að segja svona lagað opinberlega. Það er eitt, sem hefir vakið athygli mína í þessu efni, og það er, að ráðh. hefir ekki farið fram á, að lækkað verði útflutningsgjaldið úr 700 þús. kr., sem það er nú. Þetta sýnist mér benda til þess, að hæstv. fjmrh. virðist við ekki eiga mjög örðugt með að selja okkar vörur á erlendum markaði, því að stæði það t. d. fyrir dyrum, að við gætum mjög lítið selt til Spánar og Ítalíu, þá hlyti ráðh. að hafa farið fram á að fá þessa upphæð lækkaða. Það gleður mig mjög, að hæstv. ráðh. sér sér fært að áætla þessa upphæð þannig, því að það getur mér bendingu um, að ekki muni líta eins illa út með útflutning, sérstaklega á fiski, eins og ýmsir hafa álitið nú um tíma. Það er að sönnu rétt, að þessi upphæð — 700 þús. kr. — er talsvert minni heldur en útflutningsgjaldið var, bæði á árinu 1933 og 1934, en mjög mikill munur er þó ekki á því. Það munar h. u. b. 100 þús. kr. á árinu 1934. Hvernig þetta verður 1935, veit ég ekki, en ég geri ráð fyrir, að 1935 geti þessi líður varla urðið 800 þús. kr. svo að mér sýnist á þessu, að hæstv. ráðh. gangi út frá, að það komi a. m. k. ekki nein áberandi óhöpp fyrir útflutninginn 1936, og gleður það mig mjög.

Ég skal láta mér nægja að nefna lækkunina á tóbakstollinum. Mér er ekki ljóst, á hverju sú mikla niðurfærsla er byggð. Ég hefi fyrir satt. að hæstv. ráðh. ætla bráðlega að láta hækka verðið á tóbakinu og ætti það þá innan skamms að geta komið upp í væntanleg innflutningshöft á tóbakinu, innflutningshöft sem ég trúi raunar ekki á, þó að ég viðurkenni, að þetta er vara, sem hægt er draga úr að allmiklu leyti, eða ætti a. m. k. að vera hægt.

En að því er snertir áætlanirnar gjaldamegin, þá tel ég að þeir liðir séu sæmilega áætlaðir, en þó er ég viss um, að þar koma fyrir liðir, sem eru of lágt áætlaðir. Hinsvegar eru þarna sumir liðir of hátt áætlaðir, t. d. útgjöldin samkv. þessari nýju tryggingalöggjöf. Ég er sannfærður um, að þetta er aIlt of hátt áætlað í brtt. fjvn., því að þessi löggjöf getur ekki lagzt á árið 1936 með öllum þunga sínum. Í fyrsta lagi öðlast hún ekki gildi fyrr en 1. apríl, eftir að liðinn er fjórði hluti ársins, og í öðru lagi verður ekki lokið öllum undirbúningi fyrr en komið er fram á mitt árið.

Einn liður er enn, sem ég vildi nefna: berklavarnakostnaðurinn. Hann er hér færður upp um 5 þús. kr., að ég ætla, frá því, sem var í frv. stj. En í aths. við tryggingafrv. stendur, að þegar þau l. séu komin til framkvæmdar, muni mjög draga úr berklavarnakostnaði. Nú er það rétt, að berklavarnakostnaður hefir stundum orðið meiri en 850 þús. kr. En samkv. upplýsingum. sem fram hafa komið, lítur út fyrir að 1934 og 1935 hafi tekizt að draga úr þessum kostnaði, og ættu þá 850 þús. kr. að nægja til að greiða þennan kostnað eftir sömu reglum og gilt hafa. Það eru þær reglur, sem n. miðar við, því að þessi áætlun var gerð áður en vitað var, að þessi nýja löggjöf um sjúkravarnir ætti að ganga fram. Ég held því, að þó að þetta frv. yrði samþ. með nokkrum tekjuhalla, þá ætti ekki á sínum tíma að þurfa að verða halli á landsreikningunum, ef ekki koma fyrir óvænt óhöpp í utanríkisverzlun okkar. En ef það verður. Þá er líka óvíst um fleiri liði. Því hefi ég látið í ljós ánægju mína yfir því, að hæstv. ráðh. hefir talið nægja að áætla útflutningsgjaldið 700 þús. kr.

Ég undirstrika það. sem hv. frsm. I. kafla fjárlfrv. sagði, að um vitabyggingar gengur n. út frá, að farið verði eftir l., sem um þær gilda. Tel ég svo ekki þörf á að fara frekar út í það mál.

Ég skal svo minnast á nokkrar af brtt. þeim, sem fyrir liggja á þskj. 831 og meiri hl. n. kom með tilbúnar og lagði fyrir n. sem ákvörðun meiri hl.

Fyrst nefni ég brtt. við 11. gr., liðinn um skrifstofukostnað sýslumanna og bæjarfógeta. Þar er farið fram á 10 þús. kr. aukningu á þessum lið, og skiptist sú aukning milli bæjarfógeta. Ég er ekki viss um, að þessi till. sé sanngjörn. Ég get ímyndað mér, að til séu sýslumenn, sem engu síður þurfa þessarar uppbótar við, en eins og till. er orðuð, nær hún eingöngu til bæjarfógeta.

Þá er till. um ferjuna á Hvítá hjá Auðsholti. Hún hefir verið tekin aftur af n., af því að hún fékk upplýsingar um, að þetta væri lögferja, en 1. samkv. eiga sýslurnar sjálfar að halda uppi slíkum ferjum. Annars var þarna um litla upphæð að ræða, aðeins 100 kr.

Þá er till. um fjárframlag til strandferða, sem er lækkað um 70 þús. kr. Ég vil minna á. að við, sem vorum í minni hl. fjvn. í fyrra, sömu menn og nú eru í minni hl. n., komum fram með 100 þús. kr. lækkun á þessum lið. Við komumst þá ekki upp fyrir moðreyk, og þótti þessi till. okkar ganga glæpi næst. Nú er liðið tæpt ár, og nú er meiri hl. n. kominn á okkar skoðun og flytur nú alveg samskonar till. og þá, sem þeir kölluðu fjandskap við Austfirði, þegar við fluttum hana.

Sama er að segja um aðra till., sem við komum með í fyrra um að byrja á byggingu gagnfræðaskóla í Reykjavík. Nú voru allir í n. sammála um, að þetta væri rétt. Ég geri mér því von um, að ef það ætti fyrir okkur að liggja, þessum sömu mönnum, að vera í fjvn. 4–5 ár, þá fengjum við meiri hl. yfir til okkar að því er snertir aliur till. okkar frá í fyrra.

Þá nefni ég till. um hafnargerð á Ísafirði. Er lagt til að hækka tillagið úr 8 þús. upp í 20 þús. kr. Við sjálfstæðismenn vorum á móti þessu, því að við teljum, að þarna sé ekki gætt samræmis við aðrar hafnir. Margar af þessum höfnum eiga ógreitt tillag hjá ríkissjóði, svo að miklu nemur. Ef Ísafjörður á að fá vexti greidda, þá er það ranglæti gagnvart ýmsum öðrum höfnum, sem sjálfar eru látnar bera vextina.

Viðvíkjandi till. um Vestmannaeyjahöfn er það að segja, að ég tel tvísýnt, að þessi hækkun, sem farið er fram á í till., komi að gagni. Tel ég rétt að athuga, hvort ekki sé rétt að hækka framlagið enn meira, svo að full not geti orðið að. Annars vil ég taka það fram, að minni hl. hefir óbundnar hendur um þessa till.

Þá er brtt. um stofnkostnað héraðsskóla. Ég ætla ekki að gera það að neinu kappsmáli, að hún yrði felld, en vil þó taka það fram, að ekki má láta viðgangast, að alþýðuskólarnir byggi án þess að samþykki ríkisstj. komi til, og heimti síðan helming framlagsins endurgreiddan.

Ég hjó eftir því hjá hv. frsm. síðasta kafla fjárlfrv., að liðurinn viðvíkjandi Ísafjarðar kaupstað væri rangt orðaður, ætti að vera ábyrgð á allt að 35 þús. kr. láni til greiðslu á lausaskuldum bæjarsjóðs, en ekki skuldum vegna hafnargerðar, eins og í brtt. á þskj. 881 stendur. Mér finnst nú meira en lítið undarlegt, ef fara á að ábyrgjast lausaskuldir einstaka kaupstaðar, á meðan verið er að undirbúa frv. um skuldaskil bæjar- og sveitarfélaga. Mér þykir það óskiljanlegt, ef þetta getur verið meiningin. Það er þá bara gert til þess að taka einn kaupstað út úr, til að láta löggjöfina ekki ná til þessa kaupstaðar. Ég leyfi mér að óska, að hv. frsm. þessa kafla fjárlfrv. geri grein fyrir þessu atriði.

Þá skal ég nefna till. um ábyrgð fyrir tunnuverksmiðjur á Akureyri og Siglufirði. Ég tel ábyrgðina handa Akureyri ekki hættulega. En skilríki fyrir hinni ábyrgðinni hefi ég ekki séð. Það er annað að hafa á bak við sig félag einstakra manna eða heilt bæjarfélag, eins og Akureyri. Mér er ókunnugt um, hve stöðugt þetta félag á Siglufirði er.

Þá er g-liður þessarar till., um endurgreiðslu á tolli af vínanda og menguðum vínanda til sútunar á skinnum og að undanþiggja þann vínanda álagningu. Ég hefi ekki fengið upplýsingar um það, hve miklu sú upphæð nemur, sem þarna er um að ræða, en annars mun ég láta þessa till. afskiptalausa. Kannske hv. frsm. þessa kafla geti getið nánari upplýsingar og sannfært mig um, að þessi till. sé hættulaus.

Ég kem þá að brtt. okkar minnihlutamanna, þ. e. sjálfstæðismannanna í n. Þær eru aðeins þrjár, á þskj. 884. Um þessar till. er það að segja, að ef þær verða samþ., þá lækka þær útgjaldahlið fjárl. um 65 þús. kr. Fyrsta brtt. er um að færa atvinnubótafeð úr 500 þús. kr. niður í 300 þús. Ég efast reyndar um, að við hefðum flutt þessa till., ef það hefði ekki orðið uppi á teningnum að hækka stórlega benzínskattinn og verja honum til verklegra framkvæmda. Benzínskatturinn er áætlaður 250 þús. kr., en hann nemur að líkindum 300 þús. kr., þegar til kemur. Þetta fé fer svo að segja allt til vinnu innanlands. Nú stendur þar að auki yfir vinna við mesta mannvirki landins, Sogsvirkjunina. 1935 var unnið minna að þessu mannvirki en ráð hafði verið fyrir gert, vegna verkfallsins í fyrra, og verður því settur fullur kraftur á þá vinnu árið 1936, meiri en upphaflega var búizt við. Þar fá vinnu á þriðja hundrað manns. vonandi mestan hluta ársins. Við teljum því unnt að færa niður þennan lið, sérstaklega með tilliti til þess, að búið er að leggja á benzínskattinn, sem varið verður til innlendrar vinnu. — Gert er ráð fyrir því í till. okkar, að bæjar- og sveitarstjórnir verji 1/4 af atvinnubótafé, sem þær hafa til umráða, til kaupa á innlendum matarafurðum, til greiðslu upp í verkalaun við atvinnubótavinnuna. Það en hætt við því, að okkur gangi erfiðlega að losna við hina innlendu framleiðslu á erlendum markaði, og gæti þá þetta fyrirkomulag aukið markaðinn að nokkru. Þetta er ekki annað en gagnkvæm hjálp milli þeirra, sem vinnu þiggja og vinnu borga.

Þá er önnur till. okkar, að veita 15 þús. kr. upp í bátatjón á Ólafsfirði, sem varð síðastl. sumar. Erindi um þetta lá fyrir Alþingi, og gat meiri hl. n. ekki sinnt þeirri beiðni, sem okkur minni hluta mönnum þótti hafa við svo mikil rök að styðjast, að ekki væri hægt að ganga fram hjá henni. Ekki aðeins út af því, að menn hafa verið styrktir vegna svipaðs tjóns, sem varð af ofviðri á Norðurlandi í fyrra. Raunar er ekki við því að búast, að ríkið geti alltaf hlaupið undir bagga með styrki, ef tjón verður af ofviðri. En þarna stendur alveg sérstaklega á. Þeir menn, sem áttu báta þá, er eyðilögðust, höfðu ekki getað vátryggt þá, af því að ríkið breytti löggjöfinni um vátryggingu báta, og þegar þeir fengu heimsenda óstaðfesta reglugerð um bátavátryggingar, voru bátarnir þegar eyðilagðir. Má því segja, að löggjafarvaldið hafi óbeinlínis orsakað tjón þessara manna. Það má gera ráð fyrir því, að komið hefði verið í veg fyrir skaðann, ef þeir hefðu í tæka tíð fengið reglugerð, sem þá hefði verið búin að fá náð fyrir augum stjórnarvaldanna. Því er ósanngjarnt, ef ríkið neitar nú að taka lítinn þátt í þessum mikla skaða, sem verður einmitt meðan vertíðin er að byrja. Það, sem hér er farið fram á, er ekki nema lítill hluti af þeim skaða, sem varð. Ég mundi ekki hafa orðið með að flytja þessa till. sem þm., ef ekki hefði staðið svo á, að það eru aðgerðir löggjafarvaldsins, sem valda því, að krafan um þessar bætur kemur fram.

Þá kem ég að 3. lið till. á þskj. 884, en hann gengur út á það, að bæta upp verð á kjöti af framleiðslu ársins 1933 með 120 þús. kr. Þessi till. á sér einkennilega sögu. Hún var sem sé samþ. í fjvn. með 6:2 atkv., en einn nm. áskildi sér rétt til að athuga, hvað hann ætti að gera, og þess vegna var till. samþ. með 6:2 atkv., en um þetta var ekkert bókað, og stóð þannig á því, að hv. 9. landsk. var skrifari n. og honum var ekki betur en svo við till., að hann neitaði að bóka hana. Okkur var nokkurnveginn sama um það og álitum, að það hefði ekki neina sérstaka þýðingu, hvort till. væri bókuð eða ekki, en svo næstu daga fóru stuðningsmenn stj. að falla frá einn og einn á dag, og var ég ekki í vafa um, að þeir voru knúðir til þess af jafnaðarmönnum. Við, sem vorum í minni hl., sáum enga ástæðu til þess að vera tindilfættir vegna afstöðu jafnaðarmanna. Við töldum, að till. ætti fyllsta rétt á sér og okkur datt ekki í hug annað en að flytja hana hér. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að framleiðsla bænda borgar sig alls ekki og að þeir fá ekki það verð fyrir kjötið, sem framleiðsla þess kostar. Það er því auðsætt, að framleiðslan hlýtur að dragast saman og að síðustu að hætta. Að þessu athuguðu, og ekki síður því, að á þessu þingi hafa verið samþ. stórkostleg útgjöld, sem eiga að koma til góða öðrum stéttum þjóðfélagsins, sem ég efast um, að séu verr settar en bændur með sína framleiðslu, og sýnist það þá ekki nema einföld jafnaðarmennska — og ættu þess vegna jafnaðarmenn ekki að vera á móti því — að láta svolítið í pokahornið til annars aðiljans, þegar hinsvegar er tekinn svo að segja fullur poki.

Ég ætlast til, að þessari upphæð, sem farið er fram á í brtt., verði skipt þannig, að henni verði jafnan niður á kjötframleiðslu handa á árinu 1935, því það er sýnt, að jafnvel þótt sæmilega takist til um sölu á kjöti, þá verður það ekki selt með svo góðu verði, að framleiðslan borgi sig.

Þá er eftir aðeins ein brtt., sem ekki er frá minni hl. fjvn., heldur aðeins frá mér og öðrum hv. þm. til. Hún er viðvíkjandi hafnargerð á Sauðárkróki og er fyrirferðarlítil, aðeins það að bæta aftan við till.: „ef unnt er“. Það var síðast sett í till., að lánið skyldi tekið innanlands, en við viljum setja þar til viðbótar, ef unnt er. Er það til þess, að ef ómögulegt reynist að fá lán til hafnargerðarinnnr innanlands, þá sé ekki loku fyrir það skotið, að það megi taka erlent lán. ég óska eftir því, að lánið fáist innanlands, og vil vinna að því að fá innanlandslán, en eftir því sem útlitið er nú, er vafasamt, að það takist. Nú þykir mér fráleitt, að þetta nauðsynjamál dragist um ófyrirsjáanlegan tíma vegna þess að ekki væri hægt að fá 270 þús. kr. að láni innanlands og þess vegna vil ég fá þessa heimild inn, svo að ekki sé loku fyrir það skotið, að taka með lánið erlendis, eða part af því. Ég geri ráð fyrir, að öllum hv. þm. sé það kunnugt frá umr. fyrr um þetta mál, að það er almennt áhugamál og fer ekki eftir pólitískum flokkum. heldur er jafnmikið áhugamál allra flokka. Þess vegna vænti ég þess. að hv. þm. amist ekki við þessari brtt., hún er ekki annað en heimild fyrir hæstv. ríkisstj., en ég lofa því að gera allt, sem í mínu valdi stendur, til þess að lánið fáist innanlands, og það munu fleiri gera. Þetta er því aðeins til að greiða fyrir framkvæmd málsins, ef algerlega reynist óframkvæmanlegt að fá lánið innanlands.

Líka vil ég segja að ég hefi ákveðna von um, að hægt verði að semja við verkfræðingafirma, sem byggir höfnina, þannig að það leggi fram fé gegn ákveðinni tryggingu og til ákveðins tíma, og, ég verð að segja það, að þegar svo er ástatt eins og nú er hjá okkur, að tilfinnanleg vöntun er á erlendum gjaldeyri, þá sé það heppilegt að geta dreift greiðslunni á mörg ár, og er þá heppilegra að fá erlent lán, sem borga má á mörgum árum, heldur en að taka lánið innanlands og þurfa svo strax að yfirfæra það í erlenda mynt til þess að greiða allt efni, sem til hafnargerðarinnar þarf.

Ég vona því, að hv. þm. og hæstv. ríkisstj. verði ekki á móti þessari till.; ég vona, að hv. þm. sjái, að það getur orðið unnið fyrir gýg að veita heimild viðvíkjandi Sauðárkrókshöfn, ef þessu er ekki bætt við.

Ég er hv. þm. þakklátur fyrir þær undirtektir, sem þetta mál hefir fengið hjá þeim, og vona, að þeir geri afskipti sín af málinu ekki endaslepp með því að fella þessu till., því meiningin með henni er aðeins sú, að möguleiki sé til að taka erlent lán, ef ómögulegt reynist að fá lánið innanlands.