20.12.1935
Sameinað þing: 33. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

1. mál, fjárlög 1936

Frsm. minni hl. samvn. samgmn. (Jón Auðunn Jónsson):

Ég á hér brtt. á þskj. 890. Fyrsta brtt. er um dálitla hækkun til flóabátaferða frá því, sem gert er ráð fyrir í till. samgmn. Það þarf ekki langa ræðu um þetta efni. Ég fer hér fram á 3 þús. kr. styrk til þess að kaupa bát á Djúpið, og hefi ég á þskj. 859 fært nokkur rök fyrir því, að þetta er ákaflega sanngjörn krafa frá Norður-Ísfirðingum, og útdráttur úr ýmsum skýrslum, sem eru á þskj. 859, gæti sannfært alla um sanngirni þessarar kröfu og hvað henni er mjög í hóf stillt, ekki sízt þegar litið er á það, að ekki er hægt að nota nein samgöngutæki í þessari sýslu nema þau, sem á sjó eru.

Eftir skýrslum vegamálastjóra hefir á árunum frá 1876 til 1933 verið varið alls til samgöngumála á landinu 171/2 millj. kr. Þar er lægst Norður-Ísafjarðarsýsla, með tæpar 26 þús. kr., sem mestmegnis hefir verið varið til brúargerða. En þetta er eðlilegt vegna þess, að þarna verða ekki þau not af vegagerð eins og í öðrum héruðum.

En þá er á hitt að líta, að nauðsynlegt er að styrkja samgöngur á sjó í þessu héraði. Ég hefi gert samanburð á þessu framlagi til N.-Ísafjarðarsýslu og framlögum til annara sýslna, og það sýnir, að Ísafjarðarsýsla er með lægri sýslunum í því efni af þeim, sem annars hafa nokkrar samgöngur á sjó. Eins og allir vita, hefir N.-Ísafjarðarsýsla engin not af strandferðaskipunum.

Það er eina sýslufélagið, sem ekki hefir not af strandferðunum. en til þeirra er varið margfalt meira fé. en til allra bátaferða. Útkoman verður því sú, að N.-Ísafjarðarsýsla hefir einnig á þessu sviði fengið miklu lægri styrk og miklu minni hjálp frá ríkissjóði heldur en nokkur önnur sambærileg sýsla. Hinsvegar hefir þetta sýslufélag og Ísafjarðarkaupstaður verið þriðja hæsta sýslufélagið með framlag til ríkissjóðs. Þegar þetta er athugað og þörfin fyrir bættar samgöngur í þessari sýslu, virðist það undravert, að hún skuli ekki hafa fengið neinn styrk og enga hjálp til þess að kaupa betri farkost um Ísafjarðadjúp.

Þá hefi ég leyft mér að koma með lið, sem felldur var við 2. umr., um styrk til tveggja sjúkra- og styrktarsjóða, 150 kr. til hvors. Hefi ég fært þetta niður um helming. Styrkurinn til sjúkrasjóðsins í Reykjarfjarðarhreppi er að nokkru leyti miðaður við það, að vera læknisvitjunarstyrkur, því að það er ákaflega lítið. sem þetta hreppsfélag fær til læknisvitjana. Eftir að breytt var um læknisbústað í Ögurhéraði, þá hefir orðið miklu erfiðari sókn til læknis, en styrkurinn, sem hefir verið veittur, hefir ýmist farið til þess að kosta fátæka menn á spítala eða að borga læknisvitjun fyrir þá, og þar með þann kostnað, sem læknisvitjunin hafði í för með sér. Ég vil því vænta þess, þar sem þessir styrkir eru nú færðir svo langt niður, niður fyrir alla sambærilega styrki í fjárl., að þeir geti orðið samþ.

Hv. frsm. sagði, að allir styrkir yrðu felldir niður, þegar búið væri að samþ. alþýðutryggingafrv. En það er enginn sanngirni, að það sé gert, því að það er engin skylda að stofna sjúkrasamlög í sveitum, og það verður ekki gert meðan erfitt er í ári og gjaldendur hafa litla getu til þess að inna af hendi aukagreiðslur, jafnvel þó það eigi að tryggja sjálfa þá fyrir skakkaföllum af sjúkdómum. Það mun því verða svo fyrstu árin, að sjúkrasamlög verða ekki stofnuð í sveitum landsins. nema þá mjög óvíða.

Þá hefi ég leyft mér að taka upp einn till. um viðbótarstyrk til ekkju Jóns læknis Þorvaldssonar. Landlæknir hefir gefið meðmæli með þessari umsókn. Jón læknir Þorvaldsson var læknir í einhverju erfiðasta og tekjurýrasta læknishéraði landsins, nefnilega Hesteyrarhéraði, um 32 ára skeið. Það er óhætt að segja, að héraðsbúar muna ekki annan eins gæðamann og Jón heitinn Þorvaldsson, sem alltaf var boðinn og búinn að hjálpa utan sinna læknisstarfa, en var þó með afbrigðum skyldurækinn læknir. Samkv. lögum á ekkjan að hafa 550 kr. eftirlaun. en ég hefi lagt til, að hún fengi 340 króna viðbót, svo það gæti orðið alls um 900 kr., sem hún fengi. En ég hefi veitt því nánari eftirtekt nú, að hún þarf að fá 348 kr. til þess að ná 900 kr. Það er óhætt að fullyrða það, að öðrum læknisekkjum með sömu ástæður hefir verið veitt þessi upphæð, og meira til. Þannig munu vera til læknisekkjur, sem fá um og yfir 1000 kr. á ári, og það ekkjur eftir lækna, sem hafa setið miklu skemur í embætti og þar að auki verið í betri héruðum, að því er snertir tekjur og alla erfiðleika, því að þetta hérað er eitt af þeim erfiðustu á landinu, jafnframt því, að það er hið tekjurýrasta.

Þá hefi ég á þskj. 912 leyft mér að bera fram till. um, að eitthvað verði ætlað til utanferða héraðalækna. Læknafélagið mæltist til þess, að ég flytti þessa till. af því að ég flutti till. um það við 2. umr. Ég sagði, að það mundi ekki blása byrlega, því að till. um 2 þús. kr. styrkinn hefði verið felld. En eftir þeirra ósk ber ég fram till. um aðeins 1200 kr. Þeir telja það ótækt, að þetta falli niður með öllu, jafnvel að 3 þús. kr. væri það minnsta handa tveimur læknum á ári. Nú er það sjáanlegt, að þessi liður verður að færast niður eins og aðrir, ef á að lækka útgjöldin, og það er líka gert með þeirri till., sem hér liggur fyrir. En hinsvegar er það nauðsyn, að læknar fari utan til þess að kynna sér nýjar lækningaaðferðir, og þá ekki sízt þeir læknar, sem eru úti á landi og síður hafa tækifæri til þess að fylgjast með nýjungum, sem alltaf eru að ske á sviði læknavísindanna. þetta er því einskonar hjálp til hinna sjúku, því að í mörgum tilfellum geta læknarnir hjálpað og dregið úr kostnaði sjúklinga með því að veita þeim hjálp heima í héraði. Hefðu þeir ekki fylgzt með á sviði sjúkdómsins, sem um er að ræða í hverju tilfelli, hefði getað farið svo, að þeir treystu sér ekki til þess að ráða bót á meini sjúklingins, og yrði þar af leiðandi meiri kostnaður við að leita læknishjálpar en annars hefði orðið. Ég er sannfærður um, að í flestum tilfellum geti þetta orðið til miklu meiri hagsbóta fyrir sjúklingana, að læknarnir fari utan, heldur en sem nemur því fé, er til þess fer úr ríkissjóði að styrkja þessa lækna.