17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2258 í B-deild Alþingistíðinda. (3238)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Ræða mín í kvöld hefir komið illilega við kaun þessa hv. nm. úr skipulagsn., sem hér talaði síðast, og ég verð að biðja hann afsökunar á því, þó að ég komist ekki upp í þriðja veldi reiðinnar, þegar ég svara honum, eins og hann virtist jafnvel vera kominn fast að að sleppa sér í, af ósköpum yfir ræðu minni. — Ég ætla þá að byrja á að svara því, sem hv. þm. sagði núna síðast í sambandi við það, hvaða áhugi væri fyrir þessu máli hjá þjóðinni. Hann sagðist vita af einni stétt manna, sem hefti sérstakan áhuga fyrir því, að ferðaskrifstofa kæmi hér ekki bílstjórar, sem stýrt hafa bílunum, sem útlendir ferðamenn hafa verið fluttir í um landið? Þegar þess vegna hv. þm. talar um, að bílstjórar hafi áhuga fyrir því, að þetta mál komist í gegn á þinginu, þá lætur hann undan falla að bæta við, að þetta séu einhverjir sérstakir bílstjórar. það getur verið veigamikil ástæða fyrir því, að áliti hv. þm. Hafnf., að setja þessa löggjöf, að einhverjir sérstakir bílstjórar vilji fá þessari breyt. komið á, og þeir vilji fá að aka þessum bílum, sem flytja á ferðamennina í. En ég fullyrti, að engin ástæða er fyrir þessu frá almennu sjónarmiði. Vitaskuld hefir fjöldi bílstjóra haft atvinnu af því undanfarin ár að flytja útlenda ferðamenn um landið. En þó að einhver sérstakur hópur bílstjóra krefjist þess, að hv. þm. Hafnf. komi á fót skrifstofu þeirra vegna, þá er slíkt ekki alþjóðarnauðsyn, heldur er það óframbærilegt. En ef svo hefði staðið á, að átt hefði að taka til þess að flytja útlenda ferðamenn aðra menn en venjulega bílstjóra, að öðrum kosti, ef þessari skrifstofu ekki væri komið upp, þá hefti verið eðlilegt, að bílstjórar hefðu risið upp og heimtað breytingu þar á. En nú er engu slíku til að dreifa.

Það kemur ekki spor við mig, þó hv. þm. Hafnf. sendi mér svívirðingar persónulega. Það snertir mig ekkert fremur nú en fyrr. Og þrátt fyrir þessa framkomu hans, mun ég alveg eins hér eftir sem hingað til segja honum álit mitt um mál nokkurn veginn umbúðalaust.

Nú játaði þessi hv. þm., að hann væri höfundur að þessu frv. Ég vissi það ekki vel áður. En hafi hv. þm. Hafnf. ætlað að slá sig til riddara með einhverju móti, þá hefti hann ekki átt að velja til þess þetta mál.

Mér dettur ekki í hug að rengja, að hv. þm. hafi lesið rétt upp úr bæklingnum frá ferðaskrifstofu Cook's, sem hann var með. En þetta var frá 1931. Og í öðru lagi er þess að gæta, að það er alls ekki taxti bílstjóra í Rvík, sem hv. þm. vitnaði í, heldur var hann að tala um heildarupphæðir, sem fertaskrifstofa Cook's í London setur upp fyrir mismunandi ferðir til Íslands meðenskum skipum, þar sem enginn Íslendingur á hlut að máli, nema að vinna fyrir þessa menn, þegar þeir koma hingað. Ég hygg því, að þessar tölur, sem hv. þm. les hér upp, séu ekki sérlega vel til þess fallnar að undirhyggja það, sem haldið er fram í grg. frv., að Íslendingar reki eitthvert sérstakt okur í sambandi við fyrirgreiðslu þessara ferðamanna. En hv. þm. Hafnf. kemst ekki fram hjá því, að þessu frv. er raunverulega stefnt gegn þeim mönnum, sem atvinnu hafa haft af því að taka á móti útlendum ferðamönnum og leiðbeina þeim um landið. Ég býst ekki við, að þessi hv. þm. hugsi sér að stefna þessu frv. gegn ferðaskrifstofu Cook's. Heldur ekki er því stefnt að Sameinaða gufuskipafél. (EmJ: Þetta var Eimskipafélagstaxti). Það mun vera svipaður taxti hjá þessum félögum. — Lestur þessa hv. þm. sannar ekki, að hér á landi sé tekinn óhæfilega hár taxti við flutninga með bílum. Ég hefi að vísu engan bækling til að lesa upp úr. En ég hefi séð í skipi, sem gengið hefir á milli Hamborgar og Íslands til þess að flytja ferðamenn, skýrslu um fargjöld, sem lá þar frammi, og gefin var út í Englandi. Þá taxta, sem þar voru gefnir upp, kannaðist ég við úr skýrslu Björns Ólafssonar, og þessi skýrsla sannar, að Björn Ólafsson fer með rétt mál. Þessir taxtar voru gefnir upp í Englandi með þessum áðurnefndu skýrslum, eftir upplýsingum frá mönnum eða skrifsfofum hér í Rvík, skrifstofum, sem þessi hv. þm. vill leggja að velli með þessu frv. og þeirra starfsemi.

Þá sagði hv. þm. í sambandi við valútuna, að þessi nýstofnað kontór í Landsbankanum hefði fengið aðeins 8 þús. kr., fyrir 6—8 ferðir skemmtiskipa hingað til lands, af erlendum gjaldeyri. Í þessu sambandi taldi svo hv. þm., á útlendir ferðamenn hafi þurft að borga 100 kr. fyrir ferð í bíl austur á Þingvöll. Nú vil ég spyrja hv. þm., hvort hann hafi nokkurn reikning í höndum frá mönnum, sem borgað hafa 100 kr. fyrir bíl austur á Þingvöll. Hv. þm. hefir svona sína eigin trú um þetta atriði. Þessi taxti ferðaskrifstofu Cook's sannar alls ekki, að Íslendingar hafi fengið ofborgað það, sem þeir hafa gert fyrir útlenda ferðamenn. Í þeim töxtum, sem ferðamannaskrifstofur gefa svona upp, er tiltekið, fyrir hvað þær selja t. d. 12—14 daga ferðalög eða hvað marga daga svo sem þau taka. Og þetta gjald er greitt í einu lagi fyrir ferðina, þar sem allt er innifalið í. Þessi tölulestur hv. þm. er því ákaflega veik sönnun fyrir því okri, sem hann heldur fram í grg., að hér hafi verið haft í frammi.

Viðvíkjandi einokuninni í sambandi við frv. var hv. þm. að vitna í eitthvað, sem ætti sér stag í Þýzkalandi og hann kallabi monopolvirksomhed. Hann vildi láta þetta vera sönnun þess, að svipað eða sama fyrirkomulag ætti sér stað þar eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég hefi haldið því fram, á það sé rangt, að sama fyrirkomulag og gert er ráð fyrir í þessu frv., sé á þessum hlutum í nokkru öðru landi. Ég skora á hv. þm. Hafnf. að sanna, að þá sé beitt einokun við túrista í nokkru þessara landa, sem hann hefir verið að ræða um eða í nokkru landi yfirleitt. Ef einokun er á þessu í Þýzkalandi, hvernig stendur þá á því, að fjöldi ferðamannaskrifstofa starfar þar í hverri einustu borg, norskar, sænskar, amerískar og rússneskar og frá fleiri löndum? Ef einokun væri á þessum hlutum í Þýzkalandi, þá væru þessar ferðaskrifstofur þar ekki allar opnar. Í engu þessara landa, sem nefnd hafa verið í sambandi við þetta mál nú við þessa umr., hefir ríkið sett á stofn ferðaskrifstofu nema í Rússlandi, með því þó að útiloka ekki aðrar ferðaskrifstofur. En hér vill hv. þm. Hafnf. setja á stofn algerða einokunarstarfsemi á þessu sviði, sem algerlega á að útiloka aðrar ferðaskrifstofur. Ég get náttúrlega ekki sannað þetta um erlendar ferðaskrifstofur hér sem ég stend. Ég get ekki draslað Cook's eða Bennett's ferðaskrifstofum hingað inn, fram fyrir nefið á hv. þm. Hafnf. En það vita menn, að t. d. Unter den Linden í Berlín eru þessar ferðaskrifstofur og ýmsar fleiri.

Hv. þm. Hafnf. talaði um bureau í Þýzkalandi. Þessi bureau í Þýzkalandi selja farmiða í allar heimsins álfur. (EmJ: En innan Þýzkalands?). Sumar af þeim selja líka farmiða innan Þýzkalands. Hv. þm. þarf ekki að fara nema til Danmerkur til þess að geta fengið farmiða til þess að komast um allt Þýzkaland fyrir þá. Og þetta gildir ekki aðeins um Þýzkaland, heldur öll lönd, að utan þeirra er hægt að fá keypta farmiða, sem hægt er að ferðast fyrir um þau þver og endilöng, með því að rífa úr þeim smámiða smátt og smátt, eftir því, sem greiða þarf á hverjum stað. Cook's og Bennett's ferðaskrifstofur eru þær almennu ferðaskrifstofur, sem selja farmiða, sem hægt er að fara með svo að segja í hvert einasta land og nota þá þar. Enda veit maður, að ferðamenn, sem hingað hafa komið til landsins, hafa verið útbúnir með farmiða frá Cook's ferðaskrifstofu t. d. fyrir ferðirnar til landsins og frá. Þeir hafa haft þetta allt tilbúið fyrir sig fram og ekki þurft að kaupa þetta hér.

Þá var hv. þm. að tala um þetta mikla afturhald hjá Eimskipafélagi ísl. Já, það er náttúrlega mikið afturhald, að Eimskipafélagið segir eins og satt er, að það hafi ekki skip til að flytja mikinn túristastraum. En er hv. þm. svo mikið barn að halda, að Ferðaskrifstofa ríkisins — þessi fyrirhugaða — bæti nokkuð skipakost Eimskipafélags Íslands? — Hv. þm. talaði um það sorglega fyrirbrigði, að þegar amerískir „túristar“ hefðu fengið löngun til þess að koma til Íslands, eftir að þeir voru komnir til Skotlands, þá hefði Eimskipafélag Íslands ekki vilja skaffa skip handa þeim. Það er spursmál, hvort það borgar sig að leigja heilt skip fyrir „túrista“-hóp, sem kemur til landsins einu sinni á ári. En hitt er annað mál, að það væri æskilegt, að skip Eimskipafélagsins hefðu meira farþegarúm, en þá yrðu þau líka að vera stærri eða að hafa minna lestarpláss. Það kostar allt peninga, og eins kostar það fé að halda skipunum í gangi, til þess að flytja ferðamenn, sem hingað koma, og þó að það sé mjög gagnlegt og arðberandi að auka heimsóknir erlendra skemmtiferðamanna hingað, þá er ekki sama, hverju til þess er kostað. Það, sem hv. þm. tók fram, að forstjóri Eimskipafélagsins hafi sagt, að það hefði enga þýðingu að vera að senda okkur fleiri erlenda ferðamenn en gert hefir verið, það getur forstjórinn jafnt hafa sagt í gamni sem alvöru, enda þótt hv. þm. tæki þetta í alvöru. En þessi orð forstjórans sanna það sem ég hefi áður sagt og allir vita, að á sumrin er svo mikið um ferðalög til útlanda af hálfu íslendinga, að þau farþegaskip, sem hér um ræðir, ekki einungis þau innlendu, heldur jafnvel einnig þau erlendu, fullnægja oft varla íslenzkum ferðamannastraum, hvað þá heldur erlendum.

Hv. þm. talaði af mjög miklum fjálgleik um þær tekjur, sem Norðmenn hefðu af ferðamannastraumnum, og taldi hann, að þessar tekjur gætu skipt millj. króna. Einnig minntist hann á Danmörku og fleiri nálæg lönd, sem gerðu ýmsar opinberar ráðstafanir og veittu opinbert fé til þess að auka ferðamannastrauminn til þessara landa. Ég vil minna hv. þm. á það, að ég hefi aldrei verið mótfallinn slíkum ráðstöfunum hér hjá okkur í sjálfu sér. Ég tók það þvert á móti fram í minni fyrri ræðu, að þau ákvæði þessa frv., sem hér liggur fyrir, er miða að því að hæna hingað erlenda ferðamenn með upplýsingastarfsemi, væru mjög gagnleg. En það þarf bara ekki að vera ríkiseinokun á þessari starfsemi. Það er einmitt höfuðgallinn á þessu frv., að það gerir ráð fyrir slíkri ríkiseinokun, sem víð sjálfstæðismenn erum algerlega mótfallnir. Þessu höfuðatriði gleymir hv. þm., þegar hann er að gera samanburð á okkur og Norðmönnum í þessu efni, því að þeir gera það, sem rétt er og skynsamlegt í þessu efni, en láta hitt aftur á móti ógert, sem er aðalatriðið hjá hv. þm. Hafnf., sem sé ríkiseinokunina á þessari starfsemi. Ég fyrir mitt leyti skyldi vera því mjög fylgjandi, að varið væri opinberu fé og miklum kröftum til þess að auglýsa landið út á við og auka ferðamannastrauminn til landsins, en ég sé ekki, að við höfum ráð á því að skylda Eimskipafélag Íslands til þess að leigja farþegaskip í þessu skyni, því að þessi ferðamannastraumur nær aðeins yfir kringum tveggja mánaða skeið, eins og kunnugt er; hinn tíma ársins leggst ferðamannastraumurinn hingað niður. Það má vera, að sú „centralorganisation“, sem hv. þm. var að tala um, gæti komið að gagni, og hún getur það sennilega bezt með því að styðja að þeirri starfsemi, sem smátt og smátt hefir þróazt hér á landi, með því að styðja að þeim litla vísi, sem hér er fyrir í þessu efni og taka sem bezt á móti og leiðbeina erlendum ferðamönnum, en ekki með því að fæla ferðamannastrauminn frá landinu, en það er vitanlega það, sem hv. þm. Hafnf. berst fyrir með oddi og egg að koma á kné, eins og yfirleitt öllum öðrum fyrirtækjum, sem komið hefir verið á fót af framtaki einstaklingsins í þessu landi, því að áhugamál hans og skoðanabræðra hans er, eins og öllum er kunnugt, að kippa fótunum undan slíkum fyrirtækjum og koma þeim undir ríkið.

Dæmi hv. þm. um illa meðferð á erlendum ferðamönnum, sem hingað koma, áttu víst að vera til þess að sýna fram á, hversu lítilfjörlegir menn hafi verið valdir sem leiðsögumenn fyrir erlenda ferðamenn. En þessi dæmi hv. þm. benda alls ekki til þess, að ferðamenn, sem hingað koma, sæti vitund verri viðtökum eða meðferð en tíðkast hefir í erlendum ferðamannalöndum. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi orðið þess var, þegar hann hefir dvalið erlendis, að sú tegund ferðafólks, sem er þannig hugsandi, að það vill sjá þetta og hitt, vill geta sagt, að það hafi t. d. séð pýramídana í Egyptalandi, Niagarafossinn og Geysi o. s. frv., sætir alveg samskonar meðferð hér eins og annars stabar. Ég fyrir mitt leyti hefi oft verið sjónarvottur að því, að leiðsögumaður ferðamanna erlendis hefir haldið stuttan fyrirlestur fyrir heilan hóp ferðamanna, ekki í 10 mínútur, heldur 2—3 mínútur um hitt eða þetta minnismerki, og svo rökið með allan hópinn í burtu að þessu loknu. Mér hefir dottið í hug, þegar ég hefi séð þetta, að menn væru litlu bættari eftir slíka fyrirlestra, og þar sem sú tegund, sem hér um ræðir, leggur mesta áherzlu á að hafa séð nafntogaða merkisstaði, eins og t. d. Þingvelli, Geysi og Gullfoss, þá get ég ekki skilið, að það sé neitt afskaplegt, þótt haldnar séu stuttar ræður á Þingvöllum fyrir ferðafólk. En svo er auðvitað til önnur tegund af þessum ferðamönnum, sem láta sér ekki slíka leiðsögu lynda, en ferðast á allt annan hátt og hafa sérstaka leiðsögumenn, sem eru verulega valdir menn, er geta gefið ýtarlegar og nákvæmar upplýsingar um ýmsa merkilega sögustaði og minnismerki. Þessi tegund ferðamanna er aðallega listamenn og menntamenn, sem heimsækja landið í allt öðrum tilgangi heldur en hin tegundin.

Þá held ég, að ég hafi svarað flestu af því, sem hv. þm. Hafnf. minntist sérstaklega á í sinni ræðu. Mér fannst ræða hans vera greinileg staðfesting á gagnrýni þeirri, sem fram kemur í grg. frv. á starfsemi þeirra manna, sem nú standa fyrir móttöku ferðamanna hér á landi, og á þessi gagnrýni að vera grundvöllur fyrir því að kasta þessum mönnum frá atvinnu sinni og láta ríkið taka við starfsemi þeirra. — Hv. þm. tók eitt dæmi í sambandi við Hafnarfjörð. Sagði hann, að þegar erlendur ferðamannahópur kæmi þangað, þá væri þessu fólki sýndir fiskreitirnir, bryggjurnar, fiskhúsin og annað þess háttar. Ég verð að segja, að það sé ekki illa til fallið að sýna erlendum ferðamönnum bryggjurnar í Hafnarfirði, þar sem þær eru vel gerðar og Hafnarfjörður er gamall fiskibær. Svo ber að gæta þess, að tíminn er allt of takmarkaður, sem menn hafa til þess að sýna þessum ferðamönnum hitt og annað, og það getur vitanlega verið mikið álitamál, hvað helzt beri að sýna þessum erlendu gestum okkar. — Hv. þm. bar mér það á brýn, að ég þættist allt vita í þessu efni og flestum öðrum betur. Ég veit ekki, hvað gefur hv. þm. ástæðu til þess að vera með slíka sleggjudóma annað en þessi meðfædda óvild, sem hann hér í minn garð og brýzt fram í næstum hverri einustu ræðu hv. þm., ef nokkurt tækifæri er til þess að minnast á mig þar. Ég hefi ekki sagt neitt annað í þessu sambandi en það, sem ég veit, að er satt og rétt, og sem ég get fullkomlega staðið við. Ég kæri mig að vísu ekki um að endurtaka það, en samt sem áður vil ég taka það fram, að eftir athugun á grg. frv. og sérstaklega eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Hafnf., þá sé ég, að ég veit fullt eins mikið um þetta efni eins og hv. þm. eða sá, sem hefir samið þessa grg., því að ég hygg, að það þurfi ekki neinn úrvalsmann til þess að hafa þekkingu í þessu efni á borð við þann, sem hefir samið grg. frv. Ef hv. þm. Hafnf. hefir samið þessa grg., þá getur það hafa sært hégómagirnd hans, að ég skuli hafa orðið til þess að benda á, að þetta, sem á að vera rök hjá hv. þm., er í rauninni alls ekki rök. Það kann að hafa verið það, sem olli þessum geðofsa í hv. þm., þegar hann var að tala. Það sem hv. þm. getur ekki hrakið, þrátt fyrir allt sitt hjal um það, hvað gert sé í Noregi, Danmörku og Þýzkalandi í þessu efni, er það, að hv. þm. vill koma hér einokunarskipulagi á móttöku og meðferð á erlendum ferðamönnum, sem hingað koma. Hann vill láta loka öllum þeim skrifstofum, sem hafa haft móttöku erlendra ferðamanna með höndum; hann vill láta banna öllum þeim, sem hafa verið túlkar eða á annan hátt leiðbeinendur ferðamanna að hafa það starf á hendi; samkvæmt skoðun hv. þm. má enginn fást við þessa starfsemi nema starfsmenn þessarar tilvonandi Ferðamannaskrifstofu ríkisins. Slík einokunaraferð er þvílík fásinna, að hv. þm. má ekki vænta þess, að ekkert sé að þessu frv. fundið og enginn bendi á, hvílíkur kjánaskapur er hér á ferðinni, því að það má hv. þm. vita, að jafnskjótt og það kemst inn í meðvitund þeirra útlendu ferðamanna, sem hingað koma, að þeir séu eins og ófrjálsir menn undireins og þeir hafa stigið á land og séu hafðir undir umsjón ríkisvaldsins, þá mun áhuginn fyrir því að sjá landið áreiðanlega ekki vaxa a. m. k.