19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (3400)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Frsm. minni hl. (Pétur Halldórsson) [óyfirl.]:

Eins og hæstv-. atvmrh. tók fram, hafa orðið heldur en ekki breyt. á þessu frv. frá því er það var lagt fyrir hæstv. Alþ., svo miklar breyt., að það má vera hverjum manni ljóst, að eins og það var lagt fyrir upphaflega var það alveg óviðunandi. Ég hélt því líka fram hér í hv. d. við umr. um þetta mál í fyrravetur, að svo væri. Og ég gaf glöggar upplýsingar um það, að þeir útreikningar, sem þá var komið með hér sem óyggjandi grundvöll undir nýrri lagasetningu um þetta mál, fengju ekki staðizt. Ekki veit ég, hvort þetta hefir orðið tilefni þess, að nú er málið flutt á allt öðrum grundvelli og á þann hátt fyrst og fremst, að nú er ekki lengur ætlazt til þess, að það fyrirtæki, sem hér á að setja á stofn, standi undir sér að öllu leyti sjálft, heldur eru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að afla því tekna á annan hátt. Þær ráðstafanir eru í því fólgnar að leggja alveg nýja tegund af skatti á landsfólkið, til þess að framkvæma það, sem frv. þetta ræðir um. Höfuðaðferðin til þess að afla fjár til þessarar námsbókaútgáfu á að vera sú, að leggja nefskatt á heimilin í landinu. Og það verður fyrst fyrir, þegar þetta mál er athugað og skoðað, að hér er farið inn á nýjan grundvöll í skattamálum, sem hingað til hefir yfirleitt þótt ófær, að ætla öllum að gjalda jafnt í ríkissjóð fyrir þessi fríðindi, sem þarna eiga að koma í staðinn.

Fyrsta spurningin þessu viðvíkjandi verður þessi: Hvers vegna er það nú tilgangurinn í þessu eina efni að láta ekki almennar tekjur ríkissjóðs verða til þess að koma á móti þeim gjöldum, sem þarna á að stofna til? Hvers vegna á ekki að taka þennan kostnað af almennum tekjum ríkissjóðs? Hér er talað um, að ekki sé um nema 40 þús. króna fjárupphæð að ræða á ári. Og því eðlilegri verður spurningin, sem fjárhæðin er minni. Og ef tekjur ríkissjóðs hafa verið 15-16 millj. kr. á ári, sýnist ósköp lítill hluti af því tekinn til þessara þarfa, þó að til þessa séu ætlaðar 40 þús. kr. á ári. Þess vegna virðist það vera ákaflega undarlegt að leggja sérstakt gjald á landsmenn vegna þessara hluta.

Það kom fram undir umr. um þetta mál á síðasta þingi, að fræðsluskyldan væri orðin svo erfið kvöð í landsfólkinu, að það þyrfti að létta undir með þeim, sem börn eiga í skólaskyldualdri. Nú er skólaskyldan af mörgum talin óbærileg kvöð. Það má þá vissulega segja, að skoðanirnar hafa gerbreytzt frá því, er var áður fyrr, í minni margra núlifandi manna, þegar fræðslan var álitin fyrir þá, er hennar gætu notið, eftirsóknarvert hlunnindi, forréttindi, sem allir óskuðu sér að njóta. Það var tilefnið til þess, að ríkið tók að sér að sjá um fræðslu barna, að kostnaðarlausu fyrir almenning að öðru leyti en því, að kostnaður við hana var tekinn af almennum tekjum ríkissjóðs. Nú er því haldið fram, að þessi réttindi séu orðin svo alvarleg kvöð í landsfólkinu, að undir henni verði ekki risið lengur. Og fyrsta sporið til þess að létta af þessari kvöð skulum við segja að sé þetta frv., sem hér er komið fram.

Við getum hugsað okkur, að svo komi einhverntíma síðar fram till. um, að ríkisvaldið sjái skólabörnum fyrir fatnaði, svo sem skófatnaði. Hverju má ekki búast við? Hér er nú byrjað á þessari braut, að leggja nefskatt í landsfólkið til þess að standast kostnað af útgáfu skólabóka. Hvað verður lengi haldið áfram á þeirri braut, og hvert leiðir hún? Eftir eðli þessa máls getur það ekki á nokkurn hitt talizt réttlætanlegra að leggja sérstakan nefskatt í almenning vegna ríkisútgáfu námsbóka heldur en til þess t. d. að afla tekna til þess að gjalda embættismönnum laun þeirra yfirleitt, - ekki réttlætanlegra heldur en að leggja annan nefskatt á landsfólkið til þess að framkvæma vegagerðir og þriðja nefskattinn t. d. til þess að láta koma upp í kostnað við allar opinberar byggingar í landinu. Þannig má náttúrlega leysa upp í smáskattstofna flestallar eða allar tekjur ríkissjóðs, þar sem hver gjaldþegn væri látinn greiða sinn nefskatt til sameiginlegra þarfa ríkisins. Ef því ekki er farið lengra á þessari braut en hér er ráðgert, þá er beiting þessarar tekjuöflunarleitar í þessu vissa augnamiði hreint ekkert annað en hrekkur.

Eitt atriði í þessu efni, sem sérstök ástæða er til að benda á, er, að það er alveg ótvírætt reynslan alstaðar og alltaf, að ef menn borga einhver fríðindi, sem þá ekki eru alveg takmörkuð af eðlilegum ástæðum, þá er það segin saga, að margir menn nota sér þann rétt, sem þeir hafa til þeirra fríðinda, alveg til hins ýtrasta. Hér í þessu efni mundi því verða sú útkoman, ef afhenda ætti hverjum námsbækur eftir vild, sem í annað borð hefði eitthvert tilkall til þeirra, - við skulum segja, að bækurnar væru afhentar eftir mótmælum fræðslumálastjóra -, þá er augljóst, að slíkt mundi valda óskaplegri eyðslu í þessu sviði. Það mun koma fljótt í daginn, að eyðsla í þessu sviði fyrir þennan nefskatt verður svo ótrúleg, að það kemur ekki til mála, að þessi skattur, sem hér er lagt til, að lagður verð á landsfólkið sem nefskattur. hrökkvi fyrir kostnaðinum við útgáfu námsbókanna, þegar menn þykjast mega veita sér hve mikið af þessu sem þeir vilja. Bein afleiðing af þessu fyrirkomulagi verður margföld eyðsla í við það, sem nauðsynlegt er.

Sumir munu nú e. t. v. segja: Þegar að því kemur, að þetta gjald hrekkur ekki fyrir kostnaði við þessa ríkisútgáfu, má hækka þetta gjald svo mikið sem þarf, til þess að hægt sé að fullnægja eftirspurninni. Og ég býst við, að hæstv. Alþ. verði óspart í að hækka þennan skatt. Það er nú þegar gert ráð fyrir, að hann verði hærri en upphaflega var áætlað í frv. Það er fyrirsjáanlegt, að þessi nefskattur verður að hækka ár frá ári, sem þeim heimilum er ætlað að greiða, sem hafa börn á skólaskyldualdri. Og að því mun reka á endanum, að skattur þessi verður svo óvinsæll, að það verður leitað einhverra rita til þess að þurfa ekki að halda áfram að hækka skattinn. Og þau ráð verða þá næst hendi að láta ríkissjóð borga mismuninn. Þegar að því kemur, að menn verða óánægðir með það, hve dýrt er að eiga viðskipti við þessa stofnun, þá verða nógu margir menn á þingi svo fúsir til þess að reyna að afla sér fylgis með því að beita sér fyrir lækkun í þessum ósanngjarna nefskatti í kostnað ríkissjóðs, að að því mun koma, að þessi nefskattur verður felldur niður, af því að landsmenn munu telja hann ósanngjarnan.

Mér er sem ég sjái framan í þá hv. þm., sem vilja verja það að leggja í þennan nefskatt, þegar þeir fara að reyna að sannfæra kjósendur sína um ágæti hans, og þegar þeir fara að reyna að sanna, að skattur þessi sé annað en nefskattur. Það er að vísu sagt í frv., að ef einhver getur ekki borgað þetta gjald, þá skuli viðkomandi sveitar- eða bæjarsjóður borga það fyrir hann. En mér þykir nú líklegast, að þegar það fer að verða erfitt fyrir sveitar- og bæjarfélög að borga fyrir þá, sem ekki geta borgað þetta gjald sjálfir (og vitanlega reyna allir þeir að verjast því að borga þennan skatt, sem telja einhverjar líkur til þess að þeim takist að komast hjá að greiða hann), þá verði óánægjan svo mikil hjá sveitar- og bæjarfélögum út af þessum skatti, þegar fer að þrengja að þeim hans vegna, ásamt fleiru, að þau fari að krefjast þess, að skatti þessum verði létt af í því formi, sem í frv. er gert ráð fyrir. Ég undrast, ef þeir, sem að þessu máli standa, sjá ekki, að svo mun það fara að lokum, ef þetta fyrirkomulag kemst á, sem frv. gerir ráð fyrir, að kostnaðinum við það verður velt algerlega yfir á ríkissjóð. Hitt þykir mér sennilegra, að þeir hinir sömu menn geri ráð fyrir, að svo fari, en þetta fyrirkomulag sé haft á málinu í byrjun, til þess að koma því af stað, því að alltaf verða einhverjar leiðir til þess að koma þessum kostnaði beint á ríkissjóðinn. Mín spá er sú, að ekki muni þess langt að bíða, að þetta þyki alveg óhjákvæmilegt.

Hæstv. atvmrh. bar fyrir sig álit nokkurra manna, sem hann nefndi, um það, að óhætt væri að treysta því, að hér væri um að ræða mál, sem byggt væri á svo öruggum grundvelli, að ekki þyrfti að búast við, að gjöld til þessara þarfa færu fram úr þeirri áætlun, sem hér er gerð. Ég verð nú bara að segja það, að þessir aðilar, sem hæstv. ráðh. nefndi, hafa líklega ekki tekið þetta með í reikninginn, sem er vissulega aðalatriðið í þessu máli, að kröfurnar til þessarar ríkisstofnunar verða alveg takmarkalausar af þeirra hálfu, sem fríðinda eiga að njóta af henni. Og þeim kröfum verður samkv. l. að fullnægja. Hjá því verður ekki komizt. Og eins og ég hefi tekið fram, mun allur kostnaður vegna þessarar stofnunar fara fram úr þeirri áætlun, sem hér er gerð.

En þetta mál er náttúrlega eitt af stefnumálum þeirra manna, sem vilja það yfirleitt, að ríkið sjái öllum fyrir öllu.

Þau fyrirtæki, sem það opinbera stendur að og ekki þurfa að óttast samkeppni frá öðrum, eru undanþegin allri gagnrýni. Þar af leiðir eðlilega, eða a. m. k. er mjög mikil hætta á því að af því leiði, að framleiðsla slíkra fyrirtækja verði lakari og jafnvel einnig dýrari og óhentugri en gera mætti með fullri sanngirni kröfu um. En furðu margir eru þeir menn, sem ekki sjá þetta, eða a. m. k. vilja ekki viðurkenna, að þeir sjái þetta. Hér er m. ö. o. stofnað til ríkisstofnunar, þvert ofan í alla reynslu, sem alveg ótvírætt leiðir til óhæfilegrar eyðslu og óþæginda fyrir þá, sem viðskipti eiga að hafa við fyrirtækið, og fjárhagslegs tjóns fyrir ríkissjóð.

Nú þykir ýmsum ýmislegt annað koma á móti því hærra verði á námsbókum, sem fram mun koma við þessar ráðstafanir, og því fjárhagslega tjóni, sem af þessu fyrirkomulagi mun leiða. Og það, sem á móti þessu kemur, er margvíslegt, t. d. það, að hér má setja nokkra gæðinga stjórnarflokkanna yfir þessa ríkisstofnun. Það kemur einnig á móti, að hér má skapa bitlinga við allskonar vinnu fyrir þetta fyrirtæki. Og þar sem framtakið hefir verið lítið af hálfu hinna lærðu manna um að semja nýjar og betri námsbækur en hinar eldri, þá hefir ríkisvaldið með þessu fengið tækifæri til að kalla nú saman hóp af kennurum til þess að semja nýjar námsbækur, þarfar og óþarfar, og getur ráðið menn til þeirra starfa, án tillits til færni þeirra í starfinu, sem það er veitt. Yfirleitt er þarna um að ræða gott tækifæri til bitlingaveitinga til góðra flokksmanna. Stjórnarflokkunum þykir þetta kannske stærsta atriði í hverju máli, að þeir geti komið sínum mönnum í þær stöður, þar sem þeir geta veitt þeim, ýmist verðuglega eða óverðuglega, fé frá landsfólkinu.

Vel má einnig hugsa sér, að úthlutun þessara námsbóka, sem ríkið gefur út, þegar þar að kemur, verið einkar þægilegt vopn í stjórnmálabaráttunni í landinu. Það þarf ekki annað en að halda meira í við þá, sem eru annarar stjórnmálaskoðunar heldur en þeir, sem fara með þetta fyrir ríkisvaldið. Það má sem sagt nota þetta í framkvæmdinni á öllum stigum þannig í stjórnmálabaráttunni í landinu, að til stórkostlegrar afturfarar horfi um viðgang málsins sjálfs.

Ég hygg, að hvað sem öðru líður, þá hafi þessi möguleiki til að nota þessa ríkisstofnun sem vopn í stjórnmálabaráttunni í landinu verið hafður til hliðsjónar, þegar máli þessu var hrint af stað. En ennþá virðist það ekki vera viðurkennt, að réttmætt sé að beita slíku vopni í landsmálabaráttunni, og þess vegna er þetta ekki viðurkennt upphátt af þeim, sem að þessu máli standa.

Ég þykist nú vita, að það hafi svo sem enga þýðingu að kvarta um gallana á fyrirkomulagi því, sem frv. þetta stefnir að, þannig að þeir, sem að því standa, fari að hugsa sig um aftur, hvort rétt sé að knýja málið fram. En mér þykir rétt, að þessar aths. komi fram, sem ég nú hefi gert við frv.

Það er eitt atriði í þessu máli, að með l. er tekin atvinna af þeim mönnum, sem með þessi mál hafa farið, og þetta lagt undir ríkisprentsmiðjuna, bókband ásamt annari vinnu við útgáfu þessara bóka. Þeir eru margir, sem nú eru útgefendur og seljendur námsbóka. Það er því augljóst mál, að á þennan hátt má gera ríkisprentsmiðjuna hér í Reykjavík einvalda um alla prentun og bókband í landinu, því að með því að taka eina bókagerð í einu og leggja hana undir ríkisprentsmiðjuna, þá leiðir það af sjálfu sér, að ekkert slíkt fyrirtæki getur þrifizt í samkeppni við hana. Ég býst nú ekki við, að þetta heyrist vel í þessari hv. deild, þar sem hvert það fyrirtæki, sem keppir við fyrirtæki ríkisins, þykir ekki eiga rétt á sér í augum hv. meiri hl. Þetta mun nú eflaust þykja smátt atriði, en mér virðist þó á það lítandi, þar sem með þessu er tekin vinna frá þeim, sem áður hafa unnið í þessari iðngrein.

Ég mun tala fátt eitt um þá, sem sölu bókanna hafa á hendi. Þess hefir verið getið áður, að sala bóka úti á landi byggist mest á sölu skólabókanna. Það er helzt eitthvað upp úr sölu þeirra að hafa. Með því að kippa sölu þeirra út úr, verður bóksala úti á landi a. m. k. lítið arðsöm. Það mun nú vera svo yfirleitt, að þeir, sem bóksölu hafa með höndum utan Reykjavíkur, gera það meira að gamni sínu en vegna arðsins af henni, því að hann er lítill. Verði því horfið að því ráð að kippa kennslubókunum út úr, má búast við því, að erfitt verði að fá menn úti á landi til að hafa bóksölu á hendi. Þetta á vitanlega síður við hér í Reykjavík en yfirleitt annarsstaðar á landinu. Mér virðist því, að þeir hv. þm., sem hér eru utan af landsbyggðinni, ættu að taka og gætu tekið tillit til þessa.

Hvað frv. snertir í heild, þá verð ég að halda fast við þá skoðun, sem kemur fram í nál. minni hl., að ekki sé séð fyrir endann á því, hvern kostnað geti leitt af þessu fyrirkomulagi fyrir sveitar- og bæjarfélög í landinu, enda þótt þessu sé öllu mjög glæsilega lýst í grg. frv. Tekjur þær, sem frv. gerir ráð fyrir, munu hvergi nærri hrökkva til þess að ná tilgangi frv., og er því vafasamt, að af því leiði mikinn styrk fyrir aðstandendur skólabarna. Ennfremur má búast við því, að skattur sá, sem á að leggja á heimilin, muni þegar fram líða stundir þykja ranglátur og menn því breiðast undan honum.

Í nál hv. meiri hl. menntmn. stendur, að einn nm. hafi verið fjarverandi þegar málið var afgr. frá n., og mun það hafa verið 11. landsk. Aftur er gefið í skyn, að ég, sem talinn er vera á móti frv., hafi verið á fundi. En þetta er rangt, ég var þar alls ekki. Heldur var það svo, að form. n. kallaði mig í síma kl. 11 um kvöldið og spurði, hvort ég gæti ekki komið þá á fund, en ég tók því þunglega og fór hvergi. Út af þessu vil ég spyrjast fyrir um það, hvort eins hafi verið ástatt með hina nm. Hvort form. hafi kallað þá í síma svona undir lágnættið, og sagt svo, að við hefðum allir verið á fundi. Þetta vildi ég fá skýrt fram.