19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (3419)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Thor Thors:

Mál þetta hefir verið til umr. á undanförnum þingum og er eitt af þeim málum, sem einna mest hefir verið deilt um, og eru líkur til, að svo verði einnig nú, enda ekki undarlegt, þar sem um jafnmikið stefnumál er að ræða sem hér, þar sem taka á upp nýja ríkiseinokun, og það á því sviði, sem almenningi er sérstaklega viðkvæmt. Um það hefir jafnan mikið verið deilt, þegar um það hefir verið rætt, að hneigja inn á ríkisrekstrarbrautina atvinnu- og verzlunarmál yfirleitt; það hlýtur því að verða ennþá meira deilumál þegar leggja á menntamál þjóðarinnar á vald ríkisstj. á hverjum tíma, eins og gert er ráð fyrir í frv., því að vitanlega er engum manni annað meira áhyggju- og hugðarefni en á hvern hátt fræðsla barna hans fer fram, því að það „ungur nemur, gamall temur“, og jafnframt hitt, hverjum áhrifum barnssálirnar verða fyrir, þegar þær eru að mótast. Öll mistök í þeim efnum geta haft þungar og örlagaríkar afleiðingar. Það er því vegna þessara hluta, að fræðslumálin eru og verða jafnan ein þýðingarmestu mál þjóðfélagsins. Velferð og heill þjóðarinnar er og undir engu meir komin en því, hvernig tekst um menntun hinnar uppvaxandi kynslóðar, því að það er hún, sem á að erfa landið. Það er því og verður að vera eitt af höfuðviðfangsefnum okkar að hafa sérstakar gætur á uppeldis- og fræðslumálunum.

Nú er það svo, að hér á að taka upp nýja stefnu í þessum málum. Hingað til hefir það verið frjálst, hvaða námsbækur væru kenndar í skólum landsins, og það verður ekki annað sagt en að þetta frjálsræði í menntun þjóðarinnar hafi miklu til leiðar komið, því að nú mun það vera fátt, sem Íslendingar geta stært sig eins af og það, hve vel þjóðin er menntuð, og það mun ekkert skrum, þó að sagt sé, að hin bóklega menntun hennar sé sízt lakari en hjá þeim þjóðum heimsins, sem eru bezt menntaðar. Úr því nú að sú stefna, sem ríkt hefir um menntun þjóðarinnar, hefir fengið jafnmiklu áorkað sem raun ber vitni um, þá er undarlegt að fara að breyta um stefnu í þessum málum og fara inn á nýja braut, sem verður að teljast mjög varhugaverð. Mér virtist t. d. alveg ljóst, að ríkisvaldið getur misbeitt því valdi, sem það á að fá í hendur með frv. þessu, og mér er alls ekki grunlaust um, að það geri það.

Það hefir hleypt miklum hita í þetta mál, að sú hugsun virtist liggja bak við hjá stjórnarliðinu, að geta ráðið meiru en hingað til yfir þeim frjókornum, sem sáð er í hugi barnanna. Samkv. 2. gr. frv. á ríkið t. d. að gefa út allar námsbækur, sem nauðsynlegar eru til barnafræðslunnar, og samkv. 3. gr. á sérstök ritstjórn að hafa á hendi útgáfu þessara námsbóka. Ritstjórn þessa skipa þrír menn, sem skipaðir eru til 4 ára í senn. Einn skal skipaður af ráðh., annar tilnefndur af stjórn Sambands íslenzkra barnakennara, og hinn þriðji skal tilnefndur af félagi kennara við héraðsskólana, þar með talinn Eiðaskóli, og gagnfræðaskólana. Til þess nú að gera sér ljóst, hvernig þetta ákvæði kann að verka, skulum við hugsa okkur, að núv. atvmrh. skipi t. d. næsta ár í þessa ritstjórn form. meiri hl. menntmn., og að félag kennara við héraðsskólana velji þm. S.-Þ. fyrir sitt leyti í ritstjórnina, og að Samband íslenzkra barnakennara tilnefni svo einhvern þeirra líka sem þriðja mann. Ég vil nú spyrja: Halda menn, að bókaútgáfa undir stjórn slíkra manna geti orðið heppileg eða til þess að auka og auðvelda barnafræðsluna í landinu? Ég held ekki. Þvert á móti gæti ég alveg eins búizt við því, svo fremi sem þessir eða þvílíkir menn ættu að sjá um útgáfu kennslubóka fyrir ungmennafræðsluna í landinu, að mikill hluti þjóðarinnar leitaði fræðslu fyrir börn sín fyrir utan ríkisskólana, svo jafnvel á því sviði yrði þjóðin klofin. Annars hélt ég þó, að þegar væri orðið nóg af flokkadrætti og sundrung í þjóðfélaginu, og ekki væri gerandi leikur að því að auka við það, sem þegar er orðið í því efni.

Að binda efnisval og útgáfu skólabókanna svo mjög við ríkisvaldið sem gert er í frv. þessu, mun sízt verða til þess að gera bókakostinn betri en hann er nú. Það er ekki aðeins það, að ríkið eigi að sjá um útgáfu skólabókanna, heldur á að binda þetta svo vendilega við ríkið, að ríkisprentsmiðjan ein á að sjá um prentun bókanna, og jafnvel band þeirra og útsendingu. Hér er því berlega dæmi þess, að sósíalistar láta sér ekki nægja að seilast inn á atvinnurekstur hinna stærri atvinnurekenda, heldur mega bókbindararnir ekki einu sinni vera í friði með sín lágu laun og sinn mjög svo erfiða atvinnurekstur. Ég vil því nota tækifærið til þess að spyrja hv. 2. þm. Reykv., hvort hann telji atvinnurekstur bókbindaranna svo arðvænlegan, að eftir miklu sé að slægjast fyrir ríkið að seilast eftir honum. En mér þykir í þessu koma fram slíkur yfirgangur og ásælni, að það má ekki ómótmælt vera. Það er ekki svo að skilja, að ríkið ætli að gefa þessar bækur, heldur á, samkv. ákvæði 7. gr. frv., að leggja 5-8 kr. gjald á hvert heimili, sem hefir barn á skólaskyldualdri. Þó það sé vitanlega allmikið gjald, þá er mjög sennilegt, að það hrökkvi ekki fyrir útgáfukostnaði bókanna. Við því er ekkert að segja. Ríkið getur gefið námsbækurnar eins og kennsluna, sem það veitir ókeypis. En ég vil ekki, að þær bækur, sem ríkisvaldið gefur, eigi að læða inn í huga barnanna skoðunum ríkisstj. og fylginauta hennar.

Ég hefi nú allmikið talað um, hversu varhugavert það er að leyfa slíka einokun á þeirri menntun, sem börnum er veitt á fyrstu námsárum þeirra, meðan þau eru viðkvæmust. En þetta frv. beinist ekki eingöngu að þeim. Það er líka gert ráð fyrir því 1 12. gr., að ríkið gefi út fleiri eða færri námsbækur og skólanauðsynjar fyrir nemendur annara almennra skóla en barnaskóla. Og þá ætlar ríkisstj. ekki að láta sér nægja að vera einráð um það, hvað börnunum er kennt á fyrstu námsárum þeirra, heldur á að fylgja því eftir, að þetta fyrirkomulag tryggi það, að engar „villukenningar“ komist að hugum unglinganna. Þess vegna tekur hún héraðsskólana, gagnfræðaskólana og sennilega menntaskólana líka undir einokunina.

Þetta eru hin almennu ákvæði frv. En auk þeirra er fjöldi af minniháttar atriðum, sem ég hirði ekki að tína til, af því að hv. 3. þm. Reykv. hefir tekið þau til rækilegrar meðferðar og bent á, hversu gallag frv. er að orðfæri og niðurröðun efnis, auk efnisins sjálfs. Þess vegna virðist það mjög einkennilegt, þegar jafnrökstudd og ákveðin gagnrýni kemur fram gegn frv., að þá skuli þeir steinþegja, sem eiga að verja það.

Andstaða mín gegn þessu frv. byggist á því, að ég óttast stórlega, að ríkisrekstur á útgáfu skólabóka leiði til þess, að hlutdrægni ráði mestu um það, hvaða skoðunum verður haldið fram í kennslubókunum og skólunum. Og sá ótti minn er alls ekki ástætulaus. því að þær bækur, sem styrktar hafa verið af ríkinu og kenndar við ríkisskólana, eru sumar mjög hlutdrægar. Eru það einkum tvær bækur, sem sérstaklega hafa skarað fram úr um slíka hlutdrægni. Önnur þeirra er kennslubók í Íslandssögu eftir mann einn norðan úr Þingeyjarsýslu, sem ég hirti ekki að nafngreina, en það hefir töluvert verið deilt á þá bók. (Fjmrh.: Hefir hv. þm. bókina?). Það hefir verið minnzt á hana í þingtíðindunum, og þau hafa hingað til þótt góð bók, enda þótt hæstv. ráðh. sem nú rak höfuðið hér inn í þd., vildi reka þingskrifarana út úr þinginu, Sú ræða í þingtíðindunum, þar sem minnzt er á bók þessa, er yfirlesin, enda hefi ég líka lesið bókina og veit, að þar er rétt til hennar vitnað. Þessi bók á að vera Íslandssaga, og þó er hún skrifuð eins og blaðagrein í Tímanum. Framsfl. er þar hossað von úr viti og framsóknarmönnum er lýst eins og frelsurum, ekki einasta Íslendinga, heldur alls mannkynsins. En aðrir stjórnmálaflokkar eru rægðir, jafnvel sá flokkur, sem nú er í innilegustu faðmlögum við Framsfl, nfl. svokallaður Alþfl. Ég skal annars ekki lesa mikið upp úr bókinni í þessari ræðu minni, en það virðist svo sem framsóknarmenn hafi ekkert af henni lært. (Forseti: Ég vil benda hv. þm. á, að þetta er 2. umr., og að þá á að ræða einstakar greinar frv.). Ég hefi líka haldið mig við einstakar gr. frv., en það er stærsta greinin í frv., sem felur það í sér, að kennslubækur skuli vera hlutdrægar. Ég ætla ekki að lesa tilvitnanir úr bókinni að svo stöddu. (Fjmrh.: Það getur nú samt tafið tímann). Ef hæstv. ráðh. óskar þess, þá get ég orðið við því. - Önnur bókin, sem ég nefndi, er eftir annan Þingeying og fjallar um þjóðfélagsfræði. Þar er stjórnmálaflokkunum lýst með svipuðu móti og gert er í hinni bókinni. (HV: Stendur það í Alþt.?). Af því að hv. 2. þm. Reykv. greip fram í fyrir mér, þá vil ég lesa fyrir hann, hvað sagt er um sósíalista í þessari bók, með leyfi hæstv. forseta: Jafnaðarmenn telja allt þjóðskipulag vorra tíma gallað og máttvana til almenningsheilla, og þeir, sem lengst ganga, telja grundvöll þess, eignarrétt einstaklingsins, óhæfilegan“. Og ennfremur segir hann: „Margt hefir þessum mönnum tekizt að ráða til bóta í einstökum atriðum. En reynslan sýnir, að lítið hefir unnizt á í heild, og að kenningin sé hugsjón, sem torvelt muni að framkvæma.“ Ég tala nú ekki um ósköpin, þegar höf. minnist á Sjálfstfl, þá umhverfist hann gersamlega og ritar á þann hátt, sem aðeins getur fyrirgefizt pólitískum málafylgjumönnum.

Það er annars leitt til þess að vita, hvað mikið kapp er á það lagt að flaustra þessu frv. gegnum þingið nú í þinglokin. Ég man nú, þegar ég fer að hugsa um það, að þetta frv. kom fram á fyrri hluta þingsins, sennilega í marzmánuði, og það er þó ekki komið lengra áleiðis en þetta nú í desemberlok. Það er vissulega ekki okkur stjórnarandstæðingum að kenna. Við tökum því ekki á móti aðfinnslum út af því, hvað málið hefir dregizt í þinginu. Það er stjórnarflokkunum að kenna, sem ráða þinginu, hversu seint hefir gengið um afgreiðslu mála. Við höfum bæði fullan rétt og skyldu til þess að ræða um málin svo mikið sem við óskum, þó að komið sé að þinglokum. Og okkur ber hreint og beint skylda til að vara við þeirri rauðu hættu, sem felst í bak við þetta frv. Og það skal verða betur flett ofan af henni en gert hefir verið, ef einhverjir af þeim rauðu draugum, sem standa á bak við frv., þora að koma hreinlega fram í dagsljósið og sýna sig.