30.11.1935
Neðri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (3511)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja umr., en síðasti ræðumaður, hv. þm. Ísaf., drap á það, að tekjurnar yrðu ekki neinar, eða mjög litlar, fyrri hluta árs. Ég skal játa, að þær eru minni fyrri hluta árs og þar af leiðandi líka minni ástæða fyrir hv. þm. að greiða atkv. móti þessari till., ef þeir sjá, að ekki fáist neitt í bæjarsjóð, þó að hún verði samþ. Það getur ekki farið saman að vera á móti samþykkt till. af því að þetta sé allt of mikil álagning á utansveitarmenn, en segja í hinu orðinu, að bæjarsjóð muni ekkert um þetta. Þetta er mótsögn, sem hv. þm. e. t. v. áttar sig á, þegar honum er bent á það. En sannleikurinn er sá, að það er rétt, að það verður tiltölulega minni upphæð, sem kemur í bæjarsjóð fyrri hluta árs, og það er það, sem réttlætir að leyfa þessu að ganga fram sem bráðabirgðaákvæði. Það er hinsvegar annað, sem hv. þm. veit jafnlítið um og ég, hvort ný væntanleg l. um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga verði gengin í gildi í júlímánuði næsta ár. Í öðru lagi er það rangt, sem hv. þm. sagði, að hver bátur með meðalafla borgi 1000 kr. í hafnarsjóð og síðan 1000 kr. í bæjarsjóð eftir þessu frv. Þetta eru tölur, sem hv. þm. finnur hér upp við umr. til þess að reyna að afla sínum málstað fylgis. Og hv. þm. veit, að þessar tölur eru a. m. k. algerð áætlunarupphæð hjá honum, og er það auðséð vegna þess, að bæjarstj. er heimilt að undanskilja ákveðnar vörur. Hvernig getur þá þessi hv. þm. vitað, af hvaða vörum þetta gjald verður tekið, þegar heimild er til að fella það niður af svo og svo mörgum tegundum? Það er ekki hægt að segja, hve miklu þetta nemur, fyrr en vitað er, á hvaða vörur verður lagt. Hv. þm. hefði getað sparað sér að halda þessa ræðu, því að hún var jafnvitlaus frá upphafi til enda.