07.03.1935
Neðri deild: 22. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (3568)

45. mál, barnavernd

Flm. (Sigurður Einarsson):

Eins og segir í grg. frv., þá miðar það að því að kveða nánar á um ýmislegt í starfi barnaverndarnefnda en gert er í núgildandi l. um þessi efni. Þegar l. voru sett, voru þau nýsmíði. Það hafði ekki verið til nein skipun á framkvæmd barnaverndarmála, að öðru leyti en því, sem sveitarstjórnir og fátækrastjórnir hafa með þau mál fjallað, þegar nauðsyn hefir krafizt. Af því starfi, sem unnið hefir verið á þessu sviði síðan, er það augljóst, að þetta er mjög merkilegt mál og að hér er mikið verkefni að vinna. Að vísu er það misjafnt eftir því, hvar er á landinu, og er starfið vitanlega mest hér í Reykjavík, þar sem mannfjöldinn er mestur saman kominn, og hér verða þau tilfelli flest, sem til kasta barnaverndarnefndanna koma.

Í hinum upprunalegu l. var ekki tryggilega gengið frá því, að nefndirnar hefðu góða aðstöðu til starfa. Þar sem mikið reynir á þær t. d., var ekki tiltekið um það, hvort starfið skyldi launað, en sumstaðar er þetta svo mikið starf, að ekki verður komizt hjá því að ákveða einhverja þóknun, enda mun sú hafa orðið raunin á hér í Reykjavík. Sömuleiðis var ekki heldur upprunalega áskilið neitt um það, að bæjarfélögum og sveitarfélögum skyldi skylt að sjá nefndunum fyrir einhverju starfsfé. En það er fengin reynsla fyrir því, að ekki er hægt að vinna þetta verk öðruvísi, og hefir því verið að því horfið að ætla barnaverndarnefndunum eitthvað úr að spila, til þess að þeim sé unnt að inna skyldustörf sín sómasamlega af hendi.

Frv. gerir ekki ráð fyrir neinum breyt. á því, hvernig sjálfar nefndirnar séu skipaðar, og ekki heldur kjörtímabili þeirra. Það er í 5. gr. frv., sem ræðir um 6. gr. l., sem aðalbreytingarnar eru. Þar er hlutverk barnaverndarnefnda flokkað og skilgreint ýtarlegar heldur en í hinum gildandi l., og er það gert með tilliti til þess, að hér hefir barnaverndarnefnd orðið að láta mikið til sín taka, en hinsvegar staðið illa að vígi, af því að ógreinilega hefir verið kveðið á um starfssvið hennar, en hér í frv. er því skipt niður í fjóra flokka: Fræðslustarf, eftirlitsstarf, íhlutun um uppeldisáhrif og úrskurðarvald um afbrotamál barna. - Í gildandi l. er svo ákveðið, að barnaverndarnefndir geti, hvenær sem þær vilja, tekið að sér að rannsaka mál barna og kveðið upp um það rökstuddan úrskurð. En þeim er ekki gert þetta að skyldu og geta því skotið því fram af sér. Í þessu frv. er aftur á móti gert ráð fyrir því, að afbrotamál barna og þau eru því miður ekki svo fá - skuli undantekningarlaust leggja fyrir barnaverndarnefnd, og getur hún, ef meiri hl. n. óskar, rannsakað málið og kveðið upp um það rökstuddan úrskurð. Það er því eftir sem áður nefndunum í sjálfsvald sett, hvort þær taka að sér þessi mál eða ekki, en ég tel, að betur fari á því, að um þessi mál sé ekki úrskurðað, nema því aðeins, að barnaverndarnefnd hafi gefizt kostur á að kynna sér þau, og ef meiri hl. óskar, þá geti hún kveðið upp rökstuddan úrskurð um málin. En til þess að tryggja það betur en gert er í gildandi l., að sá úrskurður sé réttmætur, þá hefir mér þótt sjálfsagt að binda gildi úrskurðarins við það, að uppeldisfræðingur eða sálsýkisfræðingur væri með í ráðum. Þó mönnum kunni kannske að koma það undarlega fyrir sjónir, þá er það síður en svo út í loftið. Það er ekkert tíðara en að afbrotamaður sé rannsakaður af slíkum sérfræðingi til þess að dómendur og aðrir hafi vitnisburð hans og álit við að styðjast. Og þegar á að kveða upp úrskurð í afbrotamáli barns, eru sömu ástæður fyrir hendi. Það er oft ekki á færi nokkurs annars en sérfræðings að segja til um það, af hvaða rótum afbrot barns er runnið, en þá ráðstöfun, sem gerð er með barnið, þann dvalarstað, sem því er ætlaður, og það fólk, sem á að vera með því, verður að velja með tilliti til hins mjög mikilvæga dóms sérfræðingsins. Þar, sem barnaverndarnefndir hafa fullkomið dómsvald í afbrotamálum barna, eins og t. d. sumstaðar í Bandaríkjunum, eru uppeldis- og sálsýkisfræðingar alltaf til kvaddir til þess að vera með í ráðum og kveða upp slíka úrskurði. Þó er hér gerð sú takmörkun, að sé sakborningur ekki fullra 8 ára, þá sé barnaverndarnefndum ekki þörf á að hafa slíkan mann með í ráðum. Það liggur í því, að um afbrotamál barns innan þess aldurs er oft um gáleysisverk að ræða eða verk, sem barnið hefir verið teymt til að gera af eldri félögum, án þess að um nokkra spillta hvöt eða „abnormt“ hugarfar sé að ræða. Einnig er sú takmörkun hér á, að barnið sé ekki fullra 12 ára. Það var ekkert um það í eldri l., hvað skuli gera að þessu loknu, er barnaverndarnefnd hefir kveðið upp úrskurð í máli barns. Ég hefi talið sjálfsagt, og munu margir mér sammála um það, að senda beri viðkomandi lögregluyfirvöldum afrit af þeim úrskurði, og sé hann þess eðlis, að lögreglustjóri geti ekki við unað, þá megi áfrýja honum til dómsmrh., en þó því aðeins, að hana sé ekki meðundirritaður af sérfræðingi.

Þá vildi ég aðeins minnast á 7. gr. frv. Barnaverndarnefndir bæði hér og annarsstaðar hafa stundum talið nauðsyn á að ráðstafa börnum burt af heimilunum, þegar þær hafa talið heimilisbrag og fjárhag foreldranna þannig, að ekki sé forsvaranlegt, að börnin séu hjá þeim, og stundum hefir það einnig verið gert eftir óskum foreldranna, sem ekki hafa talið sig geta haft barn eða börn undir höndum. Þá hefir börnunum verið komið á góð heimili, þar sem þeim líður vel og tekið hefir verið ástfóstri við þau. En svo koma foreldrarnir kannske litlu seinna og þykjast hafa jafnað allar snurður og vilja hafa sín börn. Þannig komast börnin á hrakninga, sem oft vilja ekki fara aftur til foreldranna og þeir ekki missa, sem tekið hafa. Í þessari gr. er því gert ráð fyrir, að undir vissum kringumstæðum verði kröfur foreldranna ekki teknar til greina. Og er það fyrst í því tilfelli, að barni hafi verið ráðstafað út af afbrotamáli, þannig að foreldraheimili þyki ekki góður dvalarstaður fyrir það framvegis, og ennfremur ef misfellur eru á heimilisbrag, þó barnið sé ekki sakborningur. Ég hygg, að þessu sé bezt farið þannig, en vitanlega verður í slíkum tilfellum að gæta allrar lipurðar og gætni.

Þá vildi ég ennfremur minnast á 8. gr. frv., sem fjallar um það, hvenær barnaverndarnefndir skuli skerast í mál barna og ástæður þeirra, og hvaða aðilar geta krafizt þess, að hún láti slík mál til sín taka. Ég hefi talið rétt, að það sé ekki bundið við meiri hl. n., heldur aðeins ef nefndarhluti, sem til þess er skipaður að hafa eftirlit með slíku, einstakur nm. eða ráðinn sérfræðilegur eftirlitsmaður n. álíta, að rétt sé að ráðstafa barni burt af heimilinu, og meiri hl. n. fellst ekki á það, þá sé slíkum aðila, sem ráðstöfunar æskir, heimilt að kveðja bæjar- eða héraðslækni til frekari athugunar á málinu, því oft munu slíkar ráðstafanir byggjast á heilsufarslegum ástæðum.

Öllum ráðstöfunum og úrskurðum barnaverndarnefndar er gert ráð fyrir, að skjóta megi til barnaverndarráðs, og er það í samræmi við eldri lög.

Í 10. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að barnaverndarnefnd geti krafizt aðstoðar lögregluvalds til þess að úrskurða mann af heimili. En mér hefir þótt rétt, að þegar hér sé um móður eða fyrirvinnu heimilis að ræða, þá skuli barninu ráðstafað burt, en ekki hlutaðeigandi mönnum, enda mun sú hafa verið venjan, þótt svona sé til tekið í lögunum.

Í 15. gr. frv. er atriði, sem mörgum kann að koma kynlega fyrir sjónir. En það er byggt á reynslu, og til þess getur komið, að nauðsynlegt sé að hafa slíkt ákvæði. Fyrri hluti gr. er 16. gr. l., en síðari málsgr. hljóðar svo: „Skylt er húsráðendum slíkra heimila eða hæla að leyfa barnaverndarnefnd eða umboðsmanni hennar að hlynna að barninu á hvern þann hátt, er nefndin telur sér fært og óskar, heimilinu að kostnaðarlausu.“ - Mér er um það kunnugt, að heimili, sem hafa börn í dvöl, hafa mælzt undan því, að barnaverndarnefnd hefði af þeim frekari afskipti og ekki talið sér kærkomið, þótt að þeim hafi verið hlynnt og skoðað það sem móðgun við heimilið. En það nær vitanlega ekki nokkurri átt, að barnaverndarnefnd sé ekki heimilt að gera það fyrir börnin, sem heimilunum er að kostnaðarlausu.

Á skipun barnaverndarráðs er gert ráð fyrir nokkurri breyt., og er það ef til vill sú breyt., sem mest kann að verða deiluefni. Um leið og verksvið barnaverndarnefnda og barnaverndarráðs er aukið, þá hafa menn litið svo til, að óhjákvæmilegt væri, að einn maður í barnaverndarráði hefði læknismenntun, því mörg þau mál, sem koma til kasta barnaverndarnefnda og barnaverndarráðs, eru þess eðlis, að það þarf lækni til að segja um þau álit sitt. Nú er sú skipun á, að kirkjan tilnefnir einn mann í barnaverndarráð. Ekki er það minn vilji að rýra hlut kirkjunnar, en ég held, að það sé á öðrum sviðum fremur en þessu, þar sem hennar vel metna og góða starf gæti komið að notum. Við þurfum lækni í barnaverndarráð, og ég hefi talið bezt, að hann væri tilnefndur eftir tillögum landlæknis. Presturinn í ráðinu gengur úr, en læknirinn kemur í staðinn; að öðru leyti er ráðið eins skipað, ef þetta yrði að lögum.

Í 22. gr. er gert ráð fyrir því, að umboð núv. barnaverndarráðs falli niður um leið og l. öðlast gildi, og skal það þá skipað samkv. l. þessum.

Með þessu frv. er leitazt við að gera þetta starf allt faglegra heldur en það hefir áður verið, með því að leita skuli faglegrar aðstoðar, þegar nauðsyn krefur.

Ég hefi ekki haft mikinn tíma til að undirbúa þetta mál og geri því ráð fyrir, að á þessu frv. séu ýmsir gallar, sem standa til bóta í þessari hv. d. og þeirri n., sem um það mun fjalla. Það er síður en svo, að ég taki því illa, þó menn gerist til að gagnrýna einstök atriði eða koma með bendingar, sem kynnu að vera til bóta.

Ég vildi mega vænta, að d. taki þessu merkilega máli vel og að n., sem ég hefi í hyggju að fela það til frekari rannsóknar, vildi gefa því greiða og góða meðferð, og er það allshn., sem ég vildi leyfa mér að vísa því til. Það mætti að vísu eins fara til menntmn., en ég held, að á hinu fari engu verr. (Forseti: Það á nú eiginlega heima í menntmn.).