02.12.1935
Neðri deild: 88. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (3597)

148. mál, útflutningsgjald

Jónas Guðmundsson:

Hv. þm. Borgf. hefir nú haldið hér eina af þessum alkunnu ræðum sínum, til þess að reyna að verða til að bana þeim litla vísi til fiskmjölsiðnaðar, sem risið hefir upp í landinu. Ég hefði haft margt við þessa ræðu og aðrar, sem hér hafa verið haldnar, að athuga, en af því fáir eru í d. og þýðingarlítið að tala yfir auðum stólum, þá verð ég að láta mér nægja, þar sem ennþá eru þó skrifuð Alþingistíðindi, að færa fram nokkur mótmæli.

Ég gat um það um daginn, að 1932, áður en innlendu verksmiðjurnar fóru nokkuð að marki að keppa innbyrðis um hráefnið, þá hefði verðið verið mjög lágt. Sérstaklega var mikið verðfall 1931; Norðmenn treystu sér ekki að taka á móti vörunni, hún hrúgaðist upp í landinu, og tapið skall á umboðsmennina, sem margir urðu gjaldþrota. Það er því hægt að færa fullar sannanir fyrir því, og það mun vera eina atriðið í umsögn forseta Fiskifél., sem hv. þm. Borgf. ekki las hér upp, að innlendu verksmiðjurnar urðu til þess að hækka verðið á þessari vöru.

Ég hefi einnig bent á það áður, að þrátt fyrir þennan toll og hið háa verð, sem Norðmenn hafa boðið, að dómi hv. þm. Borgf., hafa íslenzku verksmiðjurnar fengið um eitt þús. tonnum meira af beinum í ár heldur en árið 1931, án þess þó kaup Norðmanna hafi minnkað. Þetta sýnir, að þrátt fyrir tollinn hefir hirðing beinanna mjög farið í vöxt, og eins hitt, að Íslendingar greiða orðið eins mikið fyrir þau, og umstaðar meira heldur en Norðmenn hafa boðið. Það liggur hér líka fyrir vottorð frá einum erlenda aðalkaupandanum hér í því skjali, sem stjórn félags íslenzkra fiskmjölsframleiðenda hefir sent sjútvn. Þar lýsir hann yfir, að hann hafi keypt bein í Keflavík, Gerðum og á Akranesi fyrir 105 kr. tonnið, sem er nákvæmlega sama verð og íslenzku verksmiðjurnar keyptu fyrir lægst; sumar keyptu hærra verði. Vafalaust hafa Norðmenn einnig í einstökum tilfellum keypt hærra verði, en á aðalmarkaðsstöðunum var verðið alveg hið sama hjá innlendum og erlendum kaupendum. Það sýnir sig því glöggt, að greiðsla tollsins lendir á útlendum kaupendum, en ekki innlendum seljendum vörunnar.

Ég sýndi einnig fram á það um daginn, að 1242 tonn eru flutt út af óunnum beinum, og við það tapar þjóðin um 113 þús. kr. erlendum gjaldeyri samanborið við að vinna þau í landinu. Þetta kemur líka út af því, að því minna hráefni sem íslenzku verksmiðjurnar fá, því minna geta þær greitt út fyrir hvert tonn. Það er þannig fyrsta skilyrðið til þess, að íslenzku verksmiðjurnar geti verið samkeppnisfærar við þær útlendu, að þær fái mikið hráefni, og að því miðar þessi vernd, að halda hráefninu að innlendu verksmiðjunum og auka um leið samkeppnina milli þeirra innbyrðis, því hver verksmiðja verður að keppa að því að fá sem mest hráefni til þess að fá sem beztan hag af starfsemi sinni. Þess vegna kemur þetta ekki niður á þeim, sem hráefnið hagnýta.

Hv. þm. Borgf. sagði í fyrri ræðu sinni, að það væri rangt að vernda atvinnurekstur, sem ætti ekki tilverurétt. Ég get verið honum sammála um það. En er það þá svo, að innlendi fiskmjölsiðnaðurinn eigi ekki rétt á sér? Það er viðurkennt í bréfinu frá forseta Fiskifél., að innl. verksmiðjurnar hafi orðið til þess að hækka verðið á fiskúrganginum, og ég efast ekki um, að hv. þm. Borgf. taki það sem góð og gild rök, eins og annað frá forseta Fiskifél. Ennfremur er sannanlegt, að íslenzku verksmiðjurnar hafa haldið þessu verði uppi, og síðan þær fóru að starfa hefir hagnýting þessa hráefnis farið hraðvaxandi frá því, sem áður var; má því svo að orði kveða, að þær hafi skapað þessa atvinnugrein, sem framleiðir milljónar verðmæti úr þeim hlutum, sem áður var fleygt. Þetta segir svo hv. þm. Borgf., að sé atvinnuvegur, sem engan tilverurétt eigi. Og þegar hann á að stríða við stórkostlegt verðfall á miðju starfstímabili og harðvítuga samkeppni við erlend fyrirtæki, þá vill hv. þm. Borgf. ganga í lið með þeim, sem vilja þennan íslenzka iðnað feigan. Ég óska hv. þm. Borgf. og öðrum, sem hans mál styðja, til hamingju með það, þegar innlendu verksmiðjurnar verða að hætta og útlendingar verða aftur einir um að bjóða í beinin. Það segir í bréfi forseta Fiskifél., að ef verksmiðjurnar hefðu veitt svo mikla atvinnu, að það hefði vegið á móti fórn útgerðarmanna, þá hefði beinatollurinn e. t. v. verið réttlætanlegur. Þetta las hv. þm. Borgf. En þeir gleyma því, bæði hann og forseti Fiskifél., sem telja má eitt aðalatriðið í þessu máli, en það er sú hlið, sem að gjaldeyrismálunum snýr. Þeir gleyma því, að ef þau 8200 tonn af fiskúrgangi, sem nú er talið, að falli til í landinu, væru seld til Noregs fyrir 135 kr. tonnið, næmi andvirðið 1107 þús. kr., en öll atvinnan við að flytja vöruna milli hafna hér og fiskmjölið til útlanda tapaðist. Væri hráefnið aftur á móti allt unnið í landinu, fengist úr því um 7000 tonn af fiskmjöli, sem gerði með 250 kr. verði á tonni, sem verður að telja meðalverð, 1750 þús. kr. Á þennan hátt fengist a. m. k. 643 þús. kr. meiri gjaldeyrir inn í landið heldur en ef allt hráefnið væri flutt út óunnið. En sú upphæð nægði t. d. til að greiða 2/3 af öllu því, sem greiða þarf til útlanda í vexti og afborganir af öllum ríkisskuldunum.

Það kemur fram í umr., að mönnum er ekki ljóst, hverjir borga þennan toll, sem í fyrra var hækkaður úr 10 kr. upp í 30 kr. Hv. þm. Borgf. svarar þessu fyrir sitt leyti þannig, að það geri eigendur hráefnisins, útgerðarmenn og sjómenn. Er þetta nú rétt hjá hv. þm.? Mjög víða á landinu kaupa verksmiðjurnar sjálfar eða einstakir menn hráefnið blautt. Þrátt fyrir verðhækkunina á erlenda markaðinum hefir verðið á hráefninu blautu ekki fallið. Sjómenn og útgerðarmenn hafa því hvergi, þar sem þeir selja hráefnið blautt, tapað einum einasta eyri. En þá eru hinir, sem þurrka hráefnið sjálfir, og svo þeir, sem kaupa hráefnið blautt til þess að þurrka það og selja það svo aftur þurrt. Eru það þeir, sem tapa á tollinum?

Hér á landi starfa a. m. k. 9 verksmiðjur, sem keppa um þetta hráefni, og að undanteknu því 160 kr. verði á tonn, sem hér hefir verið nefnt og er þá einhver sérstök undantekning, hefir hæsta verð á þessu hráefni verið í sumar 135 kr. á tonn. Mér er ekki kunnugt um, að verðið hafi nokkursstaðar orðið þar yfir, og er ég þó kunnugur þessu, þar sem ég er einn af þeim aðilum, sem um þessa vöru keppa, eins og hv. þm. Borgf. tók fram.

En eru það þá þeir, sem kaupa beinin blaut og þurrka þau, sem borga þennan toll?

Ef tollurinn væri enginn, þá nytu Norðmenn þess, að þeir eru lengra á veg komnir með sínar verksmiðjur, þeir borga lægri vinnulaun og minni álögur. Þar að auki eru okkar verksmiðjur nýjar, en norsku verksmiðjurnar eru orðnar gamlar og búnar að borga sig mikið niður og njóta því þeirra hlunninda í samkeppninni að starfa með miklu minna lánsfé heldur en þær íslenzku og þurfa því miklu minna að svara út af vöxtum og afborgunum. Íslenzku verksmiðjurnar bjóða svo það verð fyrir hráefnin, sem þær sjá sér fært, og erlendu kaupendurnir fara eftir því með tilboð sin, bjóða ef til vill 5-10 kr. hærra í tonnið, til þess að tryggja sér, að þeir fái vöruna. Sé tollurinn á hráefnunum, verða þeir líka að greiða þennan verðmun til eigendanna, en auk þess tollinn í ríkissjóð.

Það er þannig í öllum tilfellum hinn erlendi kaupandi, sem verður að greiða þennan toll. Það eru ekki sjómenn eða útgerðarmenn, sem njóta góðs af því, að þessi tollur sé felldur niður, það eru ekki heldur þeir, sem kaupa beinin blaut, þurrka þau og selja síðan verksmiðjunum. Þeir, sem njóta góðs af því, eru eingöngu hinir erlendu kaupendur, sem miða verð sitt við það, sem íslenzku verksmiðjurnar geta boðið. Það dettur engum í hug, að erlendir kaupendur fari að bjóða frá sér allt vit, þegar þeim er það fullkunnugt, hvað innlendu verksmiðjurnar geta boðið.

Og til hvers er svo þessi tollur settur? Hann er settur til þess að veita innlendu verksmiðjunum þá vernd og tryggingu, sem þurfa þykir til þess að vega á móti því, að Norðmenn eru búnir að fara lengur með þessi mál og lengra á veg komnir. Og þegar þetta hvorttveggja er athugað, að tollur þessi er settur til verndar innlendum atvinnurekstri og að hann kemur eingöngu niður á erlendum hagsmunum, þá þykir mér það hlutverk illt, sem hv. þm. Borgf. hefir valið sér, það hlutverk, að verja hagsmuni hinna útlendu keppinauta okkar. Ég hefði vel getað unnað honum annars betra.

Þá kom hann að verðfallinu á beinunum. Það er eins og enginn viti, að það hefir orðið gífurlegt verðfall á þeim. Í fyrra fengust 150 kr. fyrir tonnið, en nú er það í 105 kr. Þetta stafar af tollinum, segir hv. þm. Borgf. En það er alveg rangt. Það stafar af því verðfalli, sem orðið hefir á verksmiðjuafurðunum. Það vita allir, sem við útgerð hafa fengizt, að ríkisstj. var búin að selja til Þýzkalands fleiri þús. tonn af síldarmjöli fyrir 11 pund tonnið, en varð að færa verðið niður í 9 pund, þrátt fyrir það, þó búið væri að semja um verðið. Þetta stafar af því, að í Þýzkalandi er búið að setja einkarétt á innflutning, sölu og dreifingu vörunnar innan Þýzkalands, og sú stefna var ákveðin að færa alla sölu, bæði hjá Norðmönnum og Íslendingum, stórkostlega niður. Um það tvennt var að velja fyrir stj., að selja utan Þýzkalands eða lækka verðið, og hún tók þann kostinn að selja fyrir 9 pund. Ellefu pundin, sem um hafði verið samið, var ómögulegt að fá. Og verðfallið á fiskmjöli er miklu meira en á síldarmjöli. Í fyrra var bezta sala 330 ísl. krónur fyrir tonnið, en nú í ár aðeins 240 kr. tonnið við þær sölur, sem allajafna hafa farið fram. Lítið eitt hefir verið selt fyrir 250 kr. tonnið, og við beztu sölur fyrri hluta árs hefir verðið ef til vill komizt upp í 270 kr. á tonn. En fyrri hluta ársins var tiltölulega lítið selt, því þá gengu verksmiðjurnar út frá því, að verðið yrði líkt á þessu ári eins og það var í fyrra. En þetta verðfall stafar af þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru í Þýzkalandi og ég gat um áðan; og þetta verðfall er svo stórkostlegt, að það nemur 90 kr. á tonn. Af þessu verðfalli hefir helmingurinn komið niður á hráefnunum, en hinn helmingurinn hefir lent á verksmiðjunum sem tap hjá þeim, og þetta er ástæðan til þess, að þeir, sem selja beinin, fá minna fyrir þau nú en í fyrra.

Þessu getur hv. þm. Borgf. ekki móti mælt. Ég get ekki ímyndað mér, að hægt sé að finna rök, sem leggja megi fram móti þeim sönnunum, sem ég benti á, þar sem ég gat um síldarmjölssölu ríkisstj. til Þýzkalands. Það er svo augljóst af því dæmi, að það, sem veldur verðfallinu hér, er verðlagið, sem er á erlendum markaði, og ekkert annað.

Hv. þm. Borgf. sagði m. a., að ég, og við, sem að þessum verndartolli stæðum, vildum ofbjóða velsæmistilfinningu landsmanna. Þessu vil ég vísa til baka, með tilliti til þeirra raka, sem ég hefi fært fyrir því, að það væri rangt af ríkisvaldinu að hjálpa ekki þessari iðngrein.

Eitt af því, sem hv. þm. Borgf. sagði, sýndi mjög greinilega, hve ófróður hann er í þessum efnum. Hann sagði, að markaður fyrir fiskmjöl væri rúmur. (Ég skrifaði þetta niður eftir honum). Þetta er algerlega rangt. Það er langt frá því, að sá markaður sé rúmur. Hann er þvert á móti mjög þröngur og takmarkaður. Það er í raun og veru aðeins hægt að selja mjölið til Þýzkalands. Utan Þýzkalands þýðir ekki að ætla sér að fá hærra verð. Markaður í þeim löndum, sem sunnar eru í álfunni, má heita lokaður fyrir öðrum en Þjóðverjum. (Þeir kaupa vöruna að og flytja hana svo aftur út þangað). Til Sviss og Hollands eru stundum seld lítil „partí“, en verð er þar yfirleitt lægra en í Þýzkalandi. En íslenzkt fiskmjöl þykir betra heldur en norskt, og því meiri von um sölu á því.

Hv. þm. Borgf. endurtók það víst þrisvar eða fjórum sinnum, að ég væri forstjóri beinaverksmiðjunnar á Norðfirði, og vildi víst láta líta svo út, að ég hefði hér eiginhagsmuna að gæta. Hann sagði, að það hefði verið fyrir harðfylgi mitt, að þessi tollur var settur í fyrra. Það var fyrsta þingið, sem ég sat, og ef það á að hafa verið fyrir harðfylgi mitt, að þessi tollur komst á á því þingi, þá verð ég að taka mér það til tekna sem hrós fyrir það, hve duglegur ég sé að vinna málum mínum framgang. En ég get því miður ekki tekið þetta mér til tekna; ég á ekki lofið skilið. Tollurinn var lagður á í fyrra vegna þess, að þingmenn töldu, að vegna örðugra ástæðna verksmiðjanna væri sanngjarnt og rétt að veita þeim þennan stuðning.

Hvað hinu viðvíkur, að ég hafi eitthvað minni rétt til að halda fram þessari skoðun vegna þess, að ég veiti þessari verksmiðju forstöðu, þá vil ég benda á, að mér finnst hv. þm. Borgf. geta talað um hagsmunamál bændanna, þó hann sjálfur sé bóndi, og þá finnst mér ekkert óeðlilegra, þó að ég tali fyrir hagsmunum þeirrar iðngreinar, sem ég og mínir hafa lífsuppeldi við. (PO: Mátti ég ekki nefna þetta?). Jú, það er algerlega reiðilaust af mér, en ég er að benda á ósamræmið, sem felst í þessari framkomu hv. þm. Ef hann vill, að ég láti þessi mál afskiptalaus, þá væri samræmi í því, að hann léti mál bændastéttarinnar afskiptalaus. (PO: Ég held, að þið gerið mikið út um mál bændanna).

Þá er eftir að víkja að þessu dæmalausa verði á beinunum, sem keypt voru á Akranesi fyrir 160 kr. tonnið. (PO: Fyrir 130 krónur). Að viðhættum tolli 160 kr. Nú er það upplýst, að verð á fiskmjöli í Þýzkalandi er 240 ísl. kr. tonnið. þangað komið. Ef nú á að kaupa beinin hér fyrir 130 kr. og bæta þar við tolli, 30 kr., og svo flutningsgjaldi til Noregs, 20 kr., þá eru komnar 180 kr. Þar við bætist svo flutningsgjald til Þýzkalands og afvigt og rýrnun 10%, og er tonnið þá komið upp í 216 kr. Eru þá eftir aðeins 24 kr. fyrir verksmiðjuna til að borga vinnulaun og standa undir opinberum gjöldum, vöxtum, afborgunum og öllum öðrum kostnaði. Það þarf enginn að halda, að þetta nái nokkurri átt. Ef þetta tilfelli hefir átt sér stað, þá hafa kaupin verið gerð af einhverjum alveg sérstökum ástæðum. Þau hafa verið gerð vegna þess, að einhver hefir verið búinn að gera samning um sölu á ákveðnu magni og hefir orðið að kaupa þetta til þess að geta staðið við þann sölusamning. Það þarf enginn að segja mér, að fyrir 24 kr. sé hægt að gera vöru úr einu tonni af beinum. Ef þessi kaup hafa átt sér stað (og ég er ekki að efa, að hv. þm. Borgf. segi eins og hann veit sannast, hvort sem því kynni að hafa verið skrökvað að honum), þá hefir það verið af alveg sérstökum ástæðum.

Hv. þm. sagði, að við hefðum aldrei lagt það á borðið, hvað yrði af þeim 150 kr. af tonni, sem verksmiðjurnar fengju. Verð á fiskmjöli er nú í dag 240 kr. tonnið, komið til Þýzkalands. Meðalverð ársins er nokkru hærra, en það stafar af því, að fyrri hluta ársins var salan nokkru hagstæðari.

Frá þessum 240 kr. dregst fyrst og fremst verðið á hráefninu, en það er 105 krónur tonnið, og verður þá afgangurinn 135 kr., en ekki 150 kr. Kostnaðurinn við að flytja hráefnið til verksmiðjanna er um 23 kr. á tonn; að vísu mun þessi kostnaður vera minni hér við Faxaflóa, en almennt er þetta ekki of hátt áætlað. Þá er flutningskostnaður á mjölinu til Þýzkalands 25 kr., - frá Reykjavík mun hann vera um 20 kr. á tonn, en frá flestum öðrum stöðum 25 kr. Hér eru þá komnar 50 kr. Þar við bætist svo a. m. k. 10% rýrnun. Ef beinin eru vel þurr, verður rýrnunin ekki yfir 10%, en á 2. flokks vöru er rýrnunin oft 15% og getur jafnvel komizt upp í 20%, og venjulega mun mega telja hana 10-15%. Vélaorku má reikna 10 kr. á tonn. Hér í Reykjavík er það rafmagn, en annarsstaðar kol, olía og koks og a. þ. k., og mun þetta ekki ofreiknað á 10 kr. Ég reikna þetta rúmt, en annars er hægt að fá þetta greinilega sundurliðað hjá verksmiðjunni hér í Reykjavík, því hún hefir góða bókfærslu, og gæti hún vel látið hv. þm. Borgf. í té fullkomna skýrslu um þetta. - Umbúðirnar kosta 10 kr. á tonn. vinnulaun er ekki hægt að reikna minna en 25 kr. Því auk vinnunnar við sjálfa vinnsluna er mikil vinna við tilflutning á hráefni. vátrygging og fleiri smáútgjöld eru lágt reiknuð 10 kr. Lóðagjald, útsvör og skattar eru líka lágt reiknað 10 kr. á tonn. Samtals verða þetta 125 kr. á tonn, og sé það lagt við verð hráefnisins, sem er 105 kr., þá eru það 230 kr., og eru þá eftir um 10 kr. á hvert tonn af fiskmjöli, en þá er líka eftir að taka tillit til vaxtagreiðslu, og verksmiðjurnar kosta eitt til tvö hundruð þús. kr. 0g mest af verði þeirra er lánsfé, því verksmiðjurnar eru svo ungar, að lítið er búið að borga af stofnkostnaðinum. Einnig er eftir að taka tillit til stjórnarkostnaðar, sem ekki er beinlínis tekinn með í vinnulaunum; líka er eftir að gera afskrift á vélum, en þær eru dýrar og skemmast oft, einkum ef hráefnið er ekki vel verkað og t. d. leynist í því járn eða annað, sem sérstaklega getur skemmt vélarnar. Það er líka eftir að taka tillit til óhappa, sem geta orðið við sölu á mjölinu, og upp í allt þetta á verksmiðjan að hafa 10 kr. á tonn.

Það má vel vera, að hv. þm. Borgf. telji þetta rangt reiknað, en ég skal þá leggja fram, ef þess er óskað, sundurliðaðan reikning frá verksmiðjunni hér í Reykjavík. Frá minni verksmiðju get ég ekki lagt fram skýrslu um þetta fyrr en þá á næsta þingi, því ég þarf að komast heim til þess að ná í reikninga hennar. - Þetta læt ég svo nægja sem svar við því, að við höfum ekki lagt neitt á borðið, sem sýni það, hvað verður af þeim 150 kr., sem hv. þm. Borgf. sagði, að verksmiðjurnar fengju af andvirði þess fiskmjöls, sem þær seldu.

Eitt var það, sem hv. þm. Borgf. hafði eftir formanni Fiskifél. og mig furðar á, að hann skyldi láta frá sér fara. En hv. þm. Borgf. virðist tilbiðja form. Fiskifél. eins og skurðgoð og gleypa við öllu, sem hann segir, án þess að gagnrýna það nokkuð. Hann segir, að vinna við flutning beinanna verði ettir sem áður í landinu, þó að Norðmenn kaupi beinin. Sjá ekki allir, hver reginvitleysa þetta er? Ef Norðmenn kaupa beinin, þá flytja þeir þau sjálfir út á skipum, sem þeir senda hingað til þess að smala þeim saman á höfnunum. En ef ísl. verksmiðjurnar kaupa beinin, þá verða það ísl. skip, sem flytja þau, og ísl. menn, sem vinna að flutningnum, og vinnan við að koma þeim í mjöl verður framkvæmd af ísl. verkamönnum. Öll þessi vinna tapast út úr landinu, ef Norðmenn kaupa beinin, og ennfremur er það, að sé mjölið unnið hér í landinu, þá verður það líka flutt út á ísl. skipum, og þau munar um minna en 7 þús. tonn. Og svo vill hv. þm. halda því fram, að þetta bréf frá form. Fiskifél. sé einskonar páfabréf, sem allir eigi að fara eftir.

Mín skoðun er sú, að þetta frv. eigi ekki annað betra skilið en að farið sé eftir till. meiri hl. sjútvn. og frv. sé fellt nú við 2. umr.

Ég hefi haldið því fram, að rétt væri að banna útflutning á þeim hráefnum, sem við sjálfir getum unnið úr. Það er okkur til minnkunar að flytja þau hráefni út, á meðan við höfum mikið af atvinnulausu fólki í landinu og á meðan við erum í vandræðum með erlendan gjaldeyri til þess að kaupa fyrir nauðsynlegar vörur.

Ég hefi sýnt fram á, að það eru ekki sjómenn eða útgerðarmenn, sem borga þennan toll. Ég hefi sýnt fram á, að það eru ekki þeir, sem kaupa beinin blaut og þurrka þau, sem borga hann, heldur eru það eingöngu hinir erlendu kaupendur.

En ef það þætti tryggja hag þeirra, sem eiga hráefnin, þá væri hægt að láta ríkisverksmiðjurnar taka þau til vinnslu fyrir sannvirði. Ef eigendur teldu sér það betra en selja vöruna fyrir ákveðið verð, þá ætti sú leið að standa opin. En það er okkur til minnkunar að flytja út hráefni, sem við getum unnið úr hér í landinu.

Ég ætla ekki að þreyta hv. d. með lengri ræðu; ég hefi ekki leyfi til að taka aftur til máls, en vænti þess þó, að ef sérstaklega verður hallað réttu máli, þá leyfi hæstv. forseti mér að gera stutta aths.