02.12.1935
Neðri deild: 88. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (3602)

148. mál, útflutningsgjald

Jónas Guðmundsson:

Gegn þessu frv. hafa nú risið upp 3 andmælendur, síðan ég talaði hér síðast. Og þrátt fyrir það, þótt ræður þeirra hafi verið nokkuð á reiki, vildi ég minnast á fáein atriði í þeim.

Þá var það fyrst, að hv. 3. landsk. vildi leiða rök að því, að það væri rangt hjá mér, að verðfallið á mjölinu hafi verið eins mikið og ég sagði. Hann kom fram með tölur frá Fiskifél. um, að það hefði verið 60 kr. á tonn. verið getur, að þetta séu réttar tölur hjá Fiskifél. En á mínum útreikningi tók ég hæsta verð fyrir vöruna á þýzkum markaði í fyrra og meðalverð nú. En þrátt fyrir 45 kr. verðfall á tonn af hráefninu, þá verður samt eftir 15 kr. verðfall á tonni af mjöli, sem kemur niður á verksmiðjunum sjálfum. Og í sumum tilfellum, sérstaklega þar sem verksmiðjurnar keyptu hráefnið háu verði á fyrri hl. vertíðar, kemur verðfallið meira niður á þeim en þetta tilfærða dæmi sýnir. Þessar upplýsingar hv. þm. sýna, að verðlækkunin á mjölinu er meiri en verðlækkunin á hráefninu.

Ég sýndi fram á það áðan, og hv. 3. þm. Reykv. hefir ennfremur sýnt fram á það, að það eru ekki innlendir framleiðendur, sem borga tollinn. Ég hefi sýnt fram á, að sjómenn borga hann ekki. Ekki heldur þeir, sem kaupa beinin blaut og þurrka þau til hagnýtingar, því að þeir verða alltaf að gefa fyrir beinin eftir því, hvað verksmiðjurnar gefa fyrir þau. Og Norðmenn mundu alls ekki gefa Íslendingum 30 kr. viðbót við það, sem þeir gætu fengið beinin fyrir hér, þó að útflutningsgjaldið yrði fellt niður.

Hv. 8. landsk. sagði, að miða yrði við það verð, sem væri á þessari vöru, þ. e. hráefninu, á heimsmarkaðinum. En því er þar til að svara, að þetta er nú ekki heimsmarkaðsvara. Það eru aðeins Norðmenn, einir erlendra þjóða, sem kaupa hráefni þetta af okkur. Og þar að auki eru það aðeins tvö norsk firmu, sem hafa samkomulag sín á milli viðvíkjandi verðlaginu, sem kaupa þetta hráefni. Þau hafa samkomulag um að gefa líkt fyrir þetta hráefni. verð þeirra fyrir vöruna getur munað fáeinum kr. á tonni á einstökum stöðum á landinu, en yfirleitt er það svipað alstaðar á landinu.

Hv. þm. sagði, að ef tollurinn yrði afnuminn, þá gætu Norðmenn notað sér það til þess að yfirbjóða íslenzku verksmiðjurnar. Já. Þess vegna var reyndar þessi tollur settur; til þess að vernda íslenzku verksmiðjurnar gegn þeirri betri aðstöðu, sem Norðmenn hafa um vinnslu þessa hráefnis, gegnum langa reynslu í þessu efni. Hvar væri þá tryggingin fyrir því, að framleiðendur fái sæmilegt verð fyrir þessa vöru, ef íslenzku verksmiðjurnar verða að hætta?

Hv. 8. landsk. sagði, að það hlyti að verða kostnaðarsamara fyrir Norðmenn að flytja beinin til Noregs heldur en fyrir ísl. verksmiðjurnar að flytja þau á milli hafna hér innanlands. Nú hefir hv. 3. þm. Reykv. svarað þessu og upplýst það, að Norðmenn geta fengið ódýran flutning á þessu hráefni til sín með skipum, sem annars mundu fara tóm héðan til Noregs og eru í förum vegna annara flutninga, sem þau fá fulla borgun fyrir, án tillits til flutnings á beinunum. Þannig verður það ódýrara fyrir Norðmenn að flytja þetta hráefni til sinna verksmiðja heldur en fyrir ísl. verksmiðjurnar á milli hafna hér, að undanskildum nokkrum höfnum við Faxaflóa, eins og hv. þm. Borgf. gat um, að væri lítill kostnaður við þessa flutninga þar.

Þá sagði hv. 8. landsk., að ég hefði farið með rangar tölur. En ég get hvenær sem er fengið þessar tölur greinilegar og réttar, - hvenær sem er.

Þá vil ég svara hv. þm. Borgf. nokkrum orðum. Hann var að tala um missögn í mínum tölulestri. Hv. þm. sagði, að engin skýring hefði fylgt hjá mér um það, hvernig verksmiðjurnar hefðu farið með þær 150 kr. á hvert tonn, sem þær hefðu haft til ráðstöfunar. Nú hefi ég lagt fram greinilega skýrslu um þetta. En þá segir hv. þm. Borgf., að ég mislesi tölurnar.

Sami hv. þm. sagði áðan, að nú hefði ég sýnt sjómönnum á mér rétthverfuna, en áður hefði ég sýnt þeim ranghverfuna á mér, þar sem ég, með því að vera á móti frv., rísi nú á móti hagsmunum sjómanna. En það eru ekki sjómenn eða útgerðarmenn, sem borga þennan toll. Ekki heldur þeir, sem atvinnu hafa við verksmiðjurnar innlendu. Það eru útlendu verksmiðjurnar, sem borga tollinn. (PO: Þetta eru falsrök). Illur málstaður krefst hávaða og illra aðdróttana. Og hv. þm. Borgf. hefir viðhaft þetta í sinni ræðu til varnar sínum illa málstað.