23.02.1935
Efri deild: 11. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (3661)

14. mál, jarðræktarlög

Flm. (Þorsteinn Briem) [óyfirl.]:

Það er kunnugra mál en á þurfi að minnast, hversu íslenzkur landbúnaður stendur nú höllum fæti. Það hafa á undanförnum árum verið gerðar ýmsar tilraunir til þess að rétta þann atvinnuveg við, og þarf ekki á það að minnast. Seinasta tilraunin var gerð á síðasta Alþ. með lagasetningu, sem miðaði í þá átt að bæta verðlag afurðanna innanlands. Enn er ekki komin full reynsla af þeirri löggjöf. Við verðum að vænta, að af henni leiði nokkra hagsbót fyrir landbúnaðinn, en það held ég, að flestum mönnum komi þegar saman um, að hún muni hvergi nærri einhlít. Þegar um það er að ræða að bæta aðstöðu þessa atvinnuvegar, þá er það sérstaklega tvennt, sem menn líta á. Annað er það, að reyna að koma afurðunum í hærra verð, og að því var reynt að vinna á síðasta Alþ., hitt að reyna að lækka framleiðslukostnaðinn, og miðar þetta frv., sem hér er flutt, einmitt í þá átt. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hversu mikill munur er á því, hvort landbóndinn hefir ræktað land til þess að framleiða þann heyjaforða, sem hann þarf handa sínum búpeningi, eða hann þarf að afla heyja á óræktuðu landi víðsvegar úti um bithaga við hina verstu aðstöðu. Það er svo á flestum jörðum, að það borgar sig naumast að hafa aðkeypt verkafólk til slíkra heyaflana og auk þess notast miklu verr af þeim vinnukrafti, sem heimilin annars eiga ráð á, svo sem börnum og unglingum, þegar þarf að sækja heyskapinn langt burt frá bænum. Þetta horfir öðruvísi við, þegar ekki er á nema ræktað land að ganga, tún við bæinn. Þess vegna hygg ég, að menn geti fallizt á, að það sé rétt stefna, sem hér kemur fram í þessu frv., að styðja að því, að framleiðslukostnaðurinn geti lækkað einmitt með því að styðja að betri jarðrækt í landinu, á líka lund og hér er farið fram á.

Fyrir utan þann mikla kostnað, sem landbóndinn verður að hafa af kaupgjaldi til verkafólks, þá er það einn liður í búrekstrinum, sem vissulega er gaumur gefandi, og það eru hin miklu áburðarkaup. Til þeirra kaupa þarf erlendan gjaldeyri, og ég hygg, að valutaástand ríkisins sé ekki þann veg sem stendur, að ekki sé æskilegt að geta dregið úr þeim kaupum. Þess vegna er það fyrsta atriði, sem þetta frv. miðar að, að skapa bændum aðstöðu til þess að geta dregið úr kaupum erlends áburðar og þar með unnið að nokkrum gjaldeyrissparnaði fyrir þjóðina í heild. Frv. miðar að því að draga úr áburðarkaupunum, með því að styðja að betri hagnýtingu innlends áburðar, þess áburðar, sem búpeningurinn sjálfur framleiðir og kostar aðeins það að hafa aðstöðu til þess að hirða hann svo, að þau næringarefni fyrir jurtirnar, sem í honum felast, geti komið að fullum notum. Þess vegna er það lagt til í þessu frv., að styrkur til safnþróa verði hækkaður um 50 aura fyrir hvert metið dagsverk. Það er sameiginlegt álit allra þeirra, sem þekkingu hafa á landbúnaði, að mest fari forgörðum af þeim dýrmætu efnum, sem í búfjáráburðinum eru innibundin, í þvaginu, og þá liggur næst að styrkja bændur til þess að geta varðveitt þau efni, og það því fremur sem köfnunarefnin, sem í þvaginu felast, eru sérstaklega dýr áburðartegund. Enn sem komið er er ekki lengra komið hirðingu áburðarins hér á landi heldur en svo, að samkv. síðustu skýrslum hefir ekki verið byggt yfir nema 28% af þeim áburði, sem til fellur í landinu. Er þetta nokkuð mismunandi í hinum ýmsu sýslum landsins, sumar hafa komið upp áburðargeymslum yfir allt að helming áburðarins, eða vel það, en aðrar aftur ekki yfir nema rúm 9%, og sjá allir, hversu þá er langt í land til þess að svo sé sem vera ætti um þetta efni. Hinsvegar er á það að líta, að ef allur áburður undan búfé landsmanna væri svo hirtur sem hægt væri, mundi búfénaðurinn geta framleitt 2 aðalefnin, sem nauðsynleg eru í áburðinn, fosforsýru og kalí. Það hefir víða þótt bera á því við jarðabætur, sem framkvæmdar hafa verið á undanförnum árum, að menn tækju ekki það bezta land til ræktunar, tækju jafnvel leirmóa og lélegt land, af því þeir gætu ekki lagt í þann mikla kostnað að taka deiglendismóa til ræktunar, vegna þess, hve framræslan væri mikil og kostnaðarsöm. Það er sameiginlegt mál þeirra manna, sem bezta þekkingu hafa á þessum hlutum, að í mýrunum okkar felist yfirleitt frjóefnaríkasti jarðvegurinn, sem við eigum kost á. En framhjá þessu landi hefir víða verið gengið, vegna þess hve framræslukostnaðurinn hefir verið mikill, og jafnvel þar, sem deiglendi hefir verið tekið til ræktunar, hefir víða ekki verið framræst svo sem skyldi, og afraksturinn hefir þá orðið eftir því bæði minni og sérstaklega lakari að gæðum. Af opinberum skýrslum er það fyllilega ljóst, hversu framræsla er mjög skammt á veg komin hér á landi, aðeins 7% af hinu ræktaða landi, jafnvel þó matjurtagarðar séu taldir með, hefir verið ræst fram. Þess vegna er lagt til í þessu frv., að styrkur til framræslu á ræktuðu landi sé hækkaður um 50 aura fyrir hvert metið dagsverk í opnum skurðum og upp í 2 kr. í lokræsum, því það hefir þótt við brenna, að lokræsagerðin væri vanrækt vegna þess, hve kostnaðarsöm hún væri. Auk þess er á það að líta, að með framræslunni er betur tryggð ending jarðabótanna, og góð framræsla kemur í veg fyrir, að ræktað land þýfist aftur á fáum árum, eins og þótt hefir við brenna þar, sem framræslu hefir verið áfátt.

Ein af þeim vörum, sem við verðum að kaupa til manneldis frá öðrum löndum, eru jarðepli og ýmiskonar garðamatur. Þess vegna er m. a. af gjaldeyrisástæðum fyllsta nauðsyn þess að styðja betur heldur en enn hefir verið gert að aukinni garðrækt í landinu. Það er nauðsynlegt, sérstaklega fyrir smábóndann, að gera garðræktina að stærri lið í framleiðslunni, því hún hefir þann kost með sér, að til hennar þarf miklu minni höfuðstól heldur en til búfjárræktar. Þess er sannarlega þörf, að lögð sé áherzla á þær greinir landbúnaðarins, sem heimta minnstan höfuðstól, og fyrir nýbýlinginn, sem er að koma fótum fyrir sig, liggur næst að stunda garðræktina og auka hana sem mest, bæði til heimilisþarfa og til markaðssölu. Auk þess er á það að líta, að hin síðustu ár hefir borið allmjög á ýmiskonar veikleika og sýki í búfénaði, sérstaklega sauðfé. Skiptir þá ekki litlu, að bóndinn hafi eitthvað annað jafnframt við að styðjast, þegar einhver slík veiki kemur upp og gerir tilfinnanlegt tjón. Við megum því vera rannsóknarstofu háskólans þakklát fyrir það mikla verk, sem hún hefir unnið til þess að finna upp lækningarmeðul og varnarlyf gegn sumum þessum sjúkdómum. En þó eru sumir sjúkdómar, sem enn hefir ekki verið fundið neitt meðal við, t. d. riðuveiki, sem hefir gert mikið tjón hér á landi, og veit ég dæmi um einn ungan bónda, sem var nýbyrjaður að búa, að hann varð einmitt vegna þessarar veiki að fella svo til allan sinn sauðfjárstofn, og sneri hann sér þá vitanlega að garðmetisframleiðslu, sem ég hygg, að sé það skjól, sem menn geta helzt flúið í, þegar slíkt kemur fyrir. Þess vegna er í þessu frv. lagt til, að styrkur til garðræktar verði hækkaður um þriðjung og að vandaðir vermireitir og gróðurhús njóti einnig styrks, því ef á að framleiða fjölbreyttan garðamat, þá eru vermireitir og gróðurhús nauðsynleg.

Þá er það kunnugt mál, að íslenzkur landbúnaður hefir á undanförnum öldum oltið á því, hvernig hefir tekizt með nýtingu heyja, og er hún alveg undir veðráttunni komin. Þegar heyskaparveðrátta hefir brugðizt, hefir sú orðið reyndin á, að heyin hafa verið stórskemmd eftir sumarið. Það eru eftirtektarverð orð, sem forstöðumaður rannsóknarstofu háskólans í atvinnuvegunum segir í álitsskjali sínu, sem ég hygg hann hafi sent atvmrn. Þar segir meðal annars svo:

„Nýting heyja er komin undir hverflyndi veðra, og afkoma manna og búpenings í voða eftir óþurrkasumar, ef ekki fer því betri vetur á eftir. Það eru slæmar heynýtingar, sem er höfuðorsökin til þess, að mannfellir hefir orðið að meðaltali 20. hvert ár frá því landið byggðist. Þótt landsmenn virðist hafa gleymt harðærinu í bili, þá þarf ekki mikla svartsýni til að spá endurtekningu á því, sem ávallt hefir endurtekið sig svo lengi sem sögur fara af þessari þjóð.“

Það þarf ekki neinu við þessi orð að bæta. En ég vil aðeins minna á, að nokkurt ráð er til gegn þessum voða, og það er, að bændur komi upp votheyshlöðum, til þess að geta tryggt sér nokkurn veginn nýtingu a. m. k. þriðjungs heyaflans. Það er reynsla fyrir því, að það má alveg að skaðlausu fóðra skepnur á votheyi að 1/3. Tilraunir sumra manna, t. d. búnaðarskólastjórans á Hvanneyri, benda í þá átt, að nota megi volhey að skaðlausu í miklu stærri stíl. Hinsvegar er svo ástatt í landinu, að votheyshlöður eru til aðeins yfir 31/4% ársaflans. Í grg. frv. eru skýrslur, sem sýna, hvernig þessu er háttað í hverju einstöku héraði. T. d. get ég nefnt, að í Suður-Múlasýslu eru ekki til votheystóftir fyrir nema 330 hesta. Verður þó þetta að teljast votviðrasamt hérað. Ætla ég, að mönnum, sem bera landbúnað fyrir brjósti, sé ljóst, að hér verður að vinna að umbótum, og að það má ekki lengur svo til ganga, að ekki sé kippt í liðinn. Við höfum fengið rækilega áminningu hvað eftir annað í þessu efni - og nú síðast á því sumri, sem síðast leið - um það, hversu landbúnaðurinn stendur höllum fæti eftir votviðrasumar, og hversu tilfinnanlegt er fyrir bændur að kaupa jafnmikið af fóðurbæti eins og þeir hafa orðið að gera í tveimur til þremur landsfjórðungum síðastl. haust. Er þó ekki enn séð, hvernig fer um framgöngu fénaðar á komandi vori. Einmitt af því, hversu þörfin er ákaflega brýn og hversu mikil nauðsyn er á því, að stigið sé allmyndarlegt spor til framfara á þessu sviði, þá er hér lagt til, að styrkur til votheystófta sé hækkaður úr 50 aurum upp í 2 kr. á dagsverk.

Það hefir komið í ljós ofan á alla aðra erfiðleika, sem bændur í þremur landsfjórðungum áttu við að stríða síðastl. sumar, að þegar hey voru komin í garð eða hlöðu, drap þau til stórskemmda í austanrigningum síðastl. haust. Má öllum vera ljóst mál, hversu geysilegur skaði slíkt er og voði fyrir íslenzkan landbúnað, ef svo á til að ganga framvegis. Þess vegna er nauðsyn að styrkja bændur betur en gert er til að koma sér upp þurrheyshlöðum yfir heyafla sinn. Er því lagt til, að slíkar byggingar séu ekki einbundnar við steinsteypu, eins og nú er í lögum, heldur megi einnig veita styrk til hlöðubygginga úr öðru efni, ef þær eru vandaðar, til þess að herða á, að þessar nauðsynlegu byggingar rísi upp sem víðast. Það má fullyrða, að í hinum þurrviðrasamari sveitum séu hlöður úr öðru efni allvaranlegar, ef þær eru traustlega og vel byggðar. En kostnaðurinn er hinsvegar allmikill. Auk þess stendur allvíða svo á, ekki aðeins á einstökum bæjum, heldur í einstökum sveitum, að ekki eru tök á því að afla innlends efnis til steinsteypu. Eru þá þeir aðilar algerlega afskiptir þessum styrk. Þess vegna er hér lagt til, að styrkur til hlöðubygginga fáist með rýmkuðum skilyrðum.

Um leið og lagt er til, að aukinn sé styrkur til sérstakra jarðræktarframkvæmda, leiðir af sjálfu sér, að það verður að láta þá bændur, sem eru leiguliðar á opinberum jarðeignum, njóta samræmis við aðra bændur að því er tekur til þeirra jarðabóta, sem leiguliðar nota til landskuldargreiðslu af jörðum sínum, og eru ákvæði um það einnig í þessu frv.

Reynslan hefir leitt í ljós, að þá fyrst kemur skriður á jarðræktarframkvæmdir í hverri sveit og héraði, þegar kostur gefst á vélum til jarðvinnslu. Hin seinvirka aðferð hvetur menn ekki nærri eins til þess að hefjast handa um jarðabætur eins og afköst nýtízku véla. Það hvetur menn mjög að sjá, hversu fljótt þær vinna og hversu fljótt jarðabætur þær, sem unnar eru með þeim, koma að fullum notum.

Hinsvegar eru jarðræktarvélar svo dýr áhöld, að búnaðarfélögum og jafnvel heilum búnaðarsamböndum hefir reynzt ofurefli að festa kaup á þeim, svo að þess eru ekki fá dæmi, að þau hafa orðið jafnvel ár eftir ár að sækja um greiðslufrest á þeim lánum, sem fengin voru til vélakaupa. Virðist því reynslan hafa sýnt, að sá styrkur, sem nú er veittur til þessara vélakaupa. sé ekki nægilegur, og sé því nauðsynlegt að hækka hann nokkuð, enda er það lagt til í þessu frv.

Eins og mönnum er kunnugt, er um merkilega nýjung að ræða í íslenzkum landbúnaði, þar sem eru tilraunir Búnaðarfélagsins með kornrækt. Reynslan virðist jafnvel sýna það ljóst nú þegar, að byggrækt gæti hér á landi orðið alveg árviss; og yrði þá fengin ný aðstaða til þess ekki aðeins að bæta fóðurforðann handa búpeningi landsmanna og tryggja þar með afurðir hans, heldur stórbæta aðstöðu til eggjaframleiðslu og svínaræktar, þótt ekki sé talað um það mikla búsílag, sem byggræktin má veita til manneldis. Þess vegna er lagt til, að kornskurðaráhöld og þreskivélar njóti sama styrks og aðrar jarðyrkjuvélar.

Vegna hins örðuga hags ríkissjóðs munu nú ýmsir segja, að hann sé ekki megnugur að standast kostnað þann, sem af breyt. á jarðræktarl. samkv. frv. þessu mundi leiða. En ég verð þó að segja, að þetta horfir allmikið öðruvísi við nú á þessu þingi heldur en í byrjun síðasta þings, þegar frv. um þetta sama efni var flutt. Því að síðan hafa verið samin tekjuaukalög, sem munu gefa af sér um 2 millj. króna í ríkissjóð. Virðist þá mega ætlast til þess, að a. m. k. töluverðum hluta af þeirri upphæð verði varið til þess að auka jarðræktina í landinu og styrkja þannig bændur til sjálfshjálpar, því að þess er og að geta, að þeim styrk, sem varið er til jarðræktar, honum er ekki kastað á glæ. Hann er ekki aðeins til hagsbóta fyrir þá bændakynslóð, sem nú lifir í landinu, heldur og fyrir komandi kynslóðir. Og það má segja um það fé, sem varið er til jarðræktar, eins og segir í dæmisögunni um byggkornið, að það byggkorn mun síðar verða að gulli.

Áður en ég lagði þetta frv. fram á síðasta þingi, bað ég hr. Sigurð Sigurðsson búnaðarmálastjóra að gera fyrir mig útreikning samkv. þeim skýrslum, sem fyrir lágu þá, hversu miklu myndi nema fyrir ríkissjóð, ef jarðræktarl. yrði breytt á þann hátt, sem þá var lagt til. Samkv. hans útreikningi var kostnaðaraukinn rúmar 50 þús. kr., miðað við skýrslur 1933. Og er þá þessi kostnaðarauki sem svarar 1/40 hluta af þeim tekjuauka, sem ríkissjóður fær samkv. l., sem samþ. voru á síðasta þingi. Virðist þá ekki óeðlilegt, þótt þess sé farið á flot fyrir landbúnaðarins hönd, að hann njóti a. m. k. 21/2% af þeirri tekjuaukaupphæð.

Þá vil ég geta þess, að Bændafl. flutti á síðasta þingi frv. um það, að frestað yrði framkvæmd á 5. gr. l. frá 1933, að mig minnir, um bifreiðaskatt, þannig að fellt yrði niður framlag til malbikunar í kaupstöðum. Sú upphæð nemur 15% af bifreiðaskattinum, 60 þús. kr. að minnsta kosti. Hefði slíkt frv. verið samþ., voru þar með fengnir þeir peningar, sem þarf til þess að standast þann kostnað, sem leiðir af þeirri lagasetningu, sem hér er farið fram á. Það varð nú ekki, en það mun verða flutt till. í sömu átt á þessu þingi. Og þeir menn, sem að þessu frv. standa, munu verða fúsir til þess, ef nauðsyn krefur, að flytja lækkunartill. við fjárl. eða á annan hátt, til þess að ekki þyrfti að bera það í vænginn, að ekki væri séð fyrir neinu fé til þessara framkvæmda.

Þegar litið er á það, hversu mjög þykir skorta á næga atvinnu fyrir fólkið í landinu, þá virðist sannarlega þess vert, að reynt sé að styðja að því, að það fólk, sem í sveitunum lifir, þurfi ekki að flýja vegna þess að það geti ekki séð afkomu sinni borgið, og flykkjast í kaupstaðina ofan á þann atvinnuleysingjahóp, sem þar er fyrir. Þess vegna vil ég líta svo á, að þetta sé ekki aðeins mál sveitanna, heldur sé það og mál kaupstaðanna; því að það má öllum ljóst vera, að ef sá straumur rennur stríðar, sem verið hefir á undanförnum árum úr sveitum í kaupstaði, þá vofir einnig voðinn yfir kaupstöðunum sjálfum. - Ég vil því halda því fram, að þetta sé ekki aðeins mál bændastéttarinnar, heldur allra stétta í landinu.

Fer ég svo ekki fleiri orðum um þetta mál að sinni. Skal aðeins að lokum geta þess, að frv. þetta hefir fengið beztu meðmæli búnaðarmálastjóra, búnaðarþings þess, sem nú situr, og svonefnds landsfundar bænda. Ég legg til, að frv. verði vísað til landbn.