20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (3702)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Ég var dálítið undrandi yfir þessum brtt., því að mér komu þær fyrir sjónir sem eitt af þeim gömlu og alþekktu ráðum, þegar mistekst að drepa mál, þá að reyna að koma með brtt., sem eru þannig úr garði gerðar, að fullar líkur eru til, að takist að drepa málið á þann veg. Ég býst við, að þessar till. séu sprottnar upp af því, að þeir, sem greiddu atkv. á móti því við síðustu umr. málsins, að Sauðárkrókur fengi þessi réttindi til eins árs, hafi hugsað sér, að það skyldi samt ekki verða, með því að gera málið þannig úr garði, að engar líkur séu til, að það verði samþ. á þessu þingi.

Hv. 1. landsk. kom að vísu inn á það, að það væri allmikil vöntun hjá hv. 6. landsk. í till. hans, þar sem fallið hefðu niður hjá honum þau ákvæði, að þeir, sem þessi skattur á að lenda á, hafi rétt til þess að segja álit sitt um, hvort hann skuli á lagður eða ekki. Ég get tekið undir það með hv. 6. landsk., að það er ekki ósanngjarnt eins og nú er ástatt hjá mörgum hreppsfélögum og kauptúnum, að þeir hafi rétt til þess að leggja á slíkt vörugjald. Það er í sjálfu sér ekki nema eðlilegt til þess að bjarga þeim úr vandræðunum. En það er eftir að finna þá leið, sem er fær og þannig löguð, að þeir, sem eiga að bera þessar byrðar, hafi líka tækifæri til þess að segja álit sitt um það - samþ. eða neita, að slíkt gjald skuli lagt á. Í frv. okkar hv. 2. þm. Skagf. er valin sú leið, að það eru hreppsbúar sjálfir og sýslunefnd Skagafjarðarsýslu, sem á að segja til um þetta. Slíkt mætti vitanlega gera annarsstaðar, þar sem svo hagar til, að verzlunarsvæðið nær yfir það sýslufélag, sem viðkomandi kauptún stendur við. En þegar svo hagar til, sem er mjög víða, að kauptúnið er í öðru sýslufélagi heldur en því, sem aðallega skiptir við það, liggur það í augum uppi, að þessi aðferð getur tæplega komið að notum. Það verður því, ef það sama á að nást og gert er ráð fyrir í okkar frv., að leggja það undir dóm sýslun. þeirrar sýslu, sem verzlar við viðkomandi kauptún, hvort slíkt vörugjald skuli lagt á eða ekki. En mér sýnast ýmsir örðugleikar á því og tel næsta hæpið, að slíkt geti komið til mála, enda vakti þetta aðeins fyrir okkur sem bráðabirgðalausn, en að sjálfsögðu erum við ekki á móti því, ef slíkt gæti komið til greina, þar sem eins hagar til. En eins og brtt. hv. 6. landsk. eru úr garði gerðar, skoða ég þær alveg fráleitar.