20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (3703)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Brtt. þær, sem liggja fyrir á þskj. 580, gera ráð fyrir því, að öllum kaupstöðum utan Reykjavíkur og hreppsnefndum í kauptúnum verði heimilað að leggja á vörugjald. Ef á að hverfa að því að afgr. eitthvað um þessi mál og ekki á að fresta því til næsta þings, þá vil ég gera þá aths. við þetta sérstaklega, að í fyrsta lagi tel ég, að óhjákvæmilegt sé, að samþykki sýslunefndar komi til. Í öðru lagi vil ég benda á það, að þessi leið felur í sér möguleika fyrir kauptún, þar sem verzlunarfyrirtæki eru, sem verzla við þau héruð, sem þar liggja að, til þess að afla sér tekna með því að leggja gjald á vörur, sem seldar eru íbúum annara sveitarfélaga. Út frá þessu finnst mér, að komið gæti til athugunar, hvort ekki væri réttara, ef á að fara inn á þessa braut yfirleitt, að láta sýslufélögin hafa heimild til þess að afla sér með þessu móti tekna og létta sýslusjóðsgjaldinu af hreppunum á þann hátt. Mér sýnist þetta meiri sanngirni heldur en að láta kauptúnið, sem hefir verzlunarfyrirtækin, sem verzla við allt héraðið, sitja eitt að þessari álagningu.

Annars vil ég segja um þessi mál yfirleitt, að mér finnst eðlilegast, að þeim málum, sem um þessa tekjuöflun fjalla, verði frestað til næsta þings, en í stað þess verði samþ. till. til þál., sem komin er fram á þskj. 545 og flutt er af þm. úr öllum flokkum, þar sem gert er ráð fyrir því, að fyrir næsta þing verði þessi mál rannsökuð og undirbúnar till. til úrlausnar á þeim.

Þessi mál eru svo vandasöm og um þau liggja fyrir svo margar till. nú þegar, að mér finnst óvarlegt að rjúka í að samþ. eitt eða annað af þessu tægi á þeim stutta tíma, sem nú er fyrir hendi til þess að rannsaka málið. Vildi ég því eindregið leggja til, að þessum málum verði frestað til næsta þings, en þáltill. á þskj. 545 verði samþ. En ef á að samþ. eitthvað um þetta almennt, vil ég leggja ríka áherzlu á, að þessu máli verði frestað að þessu sinni og tekið út af dagskrá, svo að mönnum gefist kostur á að athuga þær stórfelldu brtt., sem fyrir liggja á þskj. 580.