25.11.1935
Neðri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í C-deild Alþingistíðinda. (3726)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það eru alltaf að koma fram nýjar og nýjar játningar frá hv. 6. landsk. um það, að sósíalistar hafi misst trúna á þetta höfuðstefnumál sitt, að afla tekna með beinum sköftum. Hv. þm. sagði það síðast, að þar sem tekjur manna væru jafnóvissar og hér er, þá gæti það ekki átt við. Það hefir nú komið fram bæði hjá sjálfstæðismönnum og öðrum, að atvinnuvegirnir væru svo óvissir, að þetta gæti ekki átt við. Hv. 6. landsk. hefir ekki aðeins horfið frá fyrri stefnu flokks síns, heldur hefir hann líka tekið upp rök sjálfstæðismanna um að stefnan væri ómöguleg í framkvæmd.

Ég verð nú að segja það, að eftir að allar þessar brtt. eru komnar fram við þetta mál, og ekki sízt eftir þær brtt., sem bornar hafa verið fram á þessum fundi, þá er ekki jafnauðvelt að leysa það eins og virtist í fyrstu. Það er nú komið svo, eftir sambræðslubrtt. frá þeim hv. þm. V.-Húnv. og hv. þm. Snæf., að ef sú till. verður samþ., þá hygg ég, að sú leið liggi opin fyrir — ef málið er samþ. á þeim grundvelli, sem það var upphaflega flutt á, en það var að leggja gjald bæði á innfluttar og útfluttar vörur - að þá geti þau hreppsfélög, sem gera út norður á Siglufirði eða suður með sjó, fengið hluta af því vörugjaldi, sem lagt er á á Siglufirði eða suður með sjó. Þegar búið er að færa út kvíarnar eins og hv. þm. Snæf. með samþ. hv. þm. V.- Húnv. leggur til, þá liggur sú leið opin fyrir. (Forseti: Það er ekki búið að lýsa till.). En ég er búinn að lesa hana, en að vísu aðeins lauslega. Og þetta, sem ég hefi sagt, er byggt á þeirri meiningu, sem ég lagði í till. við fljótan yfirlestur. En það er ekki gott að kynna sér till., sem bornar eru fram á sama fundi, sem málið er rætt á. Og þegar ekki er búið að bera till. fram áður, þá verða menn að mynda sér skoðunum þær af þeim upplýsingum, sem menn geta aflað sér með því að hlaupa milli flm. í d. Það er öðru máli að gegna, ef málið er tekið af dagskrá og till. eru prentaðar. - Ég tel þessa till. ekki til bóta, þó að í henni felist möguleiki til þess að sníða þá vankanta af frv., að einstök sveitarfélög geti velt yfir á aðra, sem eru kannske ekkert betur stæðir, nokkru af byrðum sínum. Brtt. fer í rétta átt, en hún verður vanköntuð í framkvæmdinni, þar sem hún leggur svona breiðan grundvöll undir skattaálagninguna. Hv. þm. V.-Húnv. benti réttilega á, hve mjög till. hæstv. fjmrh. er ábótavant, því hún verndar ekki Eyjafjarðarsýslu fyrir álagningu á Akureyri, eins og hv. þm. Ak. benti réttilega á, og mun hann hafa hug á að bæta úr því. - Ég skal svo ekki frekar fara út í það. Ég held, að þetta mál allt sé komið á þann rekspöl, að allt beri að einum og sama brunni með það, að framkvæmdir í því hljóti að verða neikvæðar. Ég hygg, að annað sé ekki fært en samþ. þáltill. þá, sem nú liggur fyrir þinginu. Og í sambandi við þá þáltill. og rannsókn þá, sem gert er ráð fyrir að fari fram, hefi ég bent á aðstöðu mína til þessa máls í ræðu, sem ég flutti áðan. En út af því, sem hv. 6. landsk. sagði um það, að þingið yrði nú að velja milli þess annarsvegar að veita bæjar- og sveitarfélögum þessa bráðabirgðalausn, og hinsvegar þess, að ríkið verði að taka bæjar- og sveitarfélögin upp á sína arma með beinum fjárframlögum, og benti hann í því sambandi á hina miklu erfiðleika á Austfjörðum, þá vil ég skjóta því til hv. þm., hvort þessi bráðabirgðabreyt. muni vera einhlít til þess að bjarga kaupstöðunum á Austfjörðum úr því erfiða ástandi, sem þeir nú eiga við að búa.

Ég veit ekki, hvað víða að er rekin verzlun í Neskaupstað. Ég veit nú ekki, hversu breiðar lengjur hann getur fláð af Norðfjarðarhreppi. Ég veit ekki betur en hér liggi fyrir þinginu beiðni um að létta undir með þessum hreppi. Og sú eina breyt., sem farið er fram á fyrir Neskaupstað, er, að hann fái að færa nokkuð af sínum erfiðleikum yfir á hreppinn. Það er sú eina úrlausn, sem Neskaupstaður fær. Það getur verið, að hann geti eitthvað sótt víðar, eins og t. d. á Mjóafjörð. En ef þessi kaupstaður getur ekki flutt eitthvað af sínum erfiðleikum yfir á aðra, þá vil ég spyrja, hvaða úrlausn felist í þessari till. Ég sé ekki, að hún sé nein. Það skapar ekki nýja möguleika fram yfir niðurjöfnun, að láta þetta heita vörutoll, því að hann kemur niður á sömu gjaldendur. Mismunurinn er því aðeins í orði, en ekki á borði. Ég vil aðeins benda á þetta út af því, að hv. þm. var að tala um þetta sem úrlausn. Þetta er aðeins betri leið til þess að seilast ofan í vasa annara. En eru þessir aðrir þá betur stæðir heldur en hinir, sem eru að seilast ofan í vasa þeirra? Svo bezt bjarga menn einum, að þeir dragi ekki annan jafnlangt niður og sá var, sem á að bjarga.