13.11.1935
Sameinað þing: 21. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

137. mál, fjáraukalög 1933

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég vildi strax við þessa umr. og áður en fjvn. fær frv. til athugunar láta fylgja þau orð til n., að hún færi rækilega gegnum frv. og bæri það saman við samskonar frv. frá undanförnum árum.

Það er ekki að ástæðulausu, að ég vek máls á þessu, ég hefi farið yfir frv. og hefi séð, að þar eru settar inn samskonar upphæðir og tvisvar sinnum áður hafa verið settar í fjáraukalög, en í bæði skiptin teknar út af þeim aftur.

Það er mjög óheppilegt, ef ekki er hægt að fara eftir föstum reglum um það, hvaða tölur séu teknar upp í fjáraukalög. Ef verið er að hringla með það frá ári til árs, er ekki hægt að hafa fjáraukalög undanfarinna ára til hliðsjónar, og verður það þá handahóf eitt, sem ræður, hvaða tölur eru teknar upp í hvert skipti, ef ekki er hægt að binda sig við þær reglur, sem gilt hafa í 12 —13 ár. Þá gæti komið til álita, hvort ekki ætti að taka upp sömu reglu og Danir hafa, þannig að tekin séu upp öll gjöld, sem á landsreikningum eru frávikin fjárhagsáætlun, hvort sem það eru heldur aukin útgjöld eða lækkuð og hvort sem greiðslurnar eru gerðar samkv. ófrávíkjanlegum lögum eða samkv. stjórnarákvörðun. En ég vil benda á, að það er hægt að fylgja þeirri reglu að taka ekki upp á fjáraukalögum þær tölur, sem tvisvar sinnum áður er búið að fella út af þeim.

Það eru hér sjálfsagt 2 —4 liðir, sem svo er um, t. d. í 5. gr. Að vísu eru það smáupphæðir, en við staflið 18 eru a. m. k. 2 slíkar tölur.

Þá vil ég benda á annað. Ég hygg, að í þessu frv. séu ýmsir nýir liðir, liðir sem nú fyrst koma fyrir í fjárl., en ekki eigi heima í þessu frv. En fjáraukalög eru ekki annað en humbug, ef ekki er fylgt föstum reglum um gerð þeirra.