23.02.1935
Neðri deild: 13. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í C-deild Alþingistíðinda. (3789)

12. mál, sala þjóðjarða og lög um sölu kirkjujarða

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Í gær urðu nokkrar umr. um þetta mál. Fóru þær nokkuð lengra en frv. sjálft gefur stranglega tilefni til. Mál þau, er þá voru dregin inn í umr., voru að vísu svo náskyld þessu máli, að erfitt er að ræða þetta án þess að koma inn á þau líka. Ég hefi þó hugsað mér að víkja aðeins að þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Ég dró fram í gær dæmi um það, hversu mikil nauðsyn væri á því í mörgum tilfellum að beita þessum l., sem nú er lagt til að nema úr gildi, dæmi um fátækan bónda, sem býr á kirkjujörð, sem er lélega hýst. Hann fer fram á annaðhvort, að fá jörðina keypta, eða að gert sé við hús jarðarinnar og þau byggð upp, en það mundi hafa kostað minnst 10 þús. kr. Ég benti á það, að í þessu tilfelli hefði verið sjálfsagt að taka þann kostinn, að selja honum jörðina eins og lagaheimild var til. Ég vil leyfa mér að beiðast þess, að þeir menn, sem eru á annari skoðun, lýsi því þá beinlínis yfir, að í þessu tilfelli hefðu þeir talið réttara, að hið opinbera hefði lagt fram 10 þús. kr. til að byggja upp á jörðinni, í staðinn fyrir að selja manninum jörðina og láta hann sjálfan húsa hana, eins og hann bauðst til að gera. Ég gat þess um leið, að ef annarhvor af þessum tveimur kostum hefði ekki verið tekinn, þá hefði ekki annað legið fyrir en að jörðin hefði farið í eyði. Það var þriðja ráðið. Nú var tekinn sá kosturinn, sem var beztur, að selja manninum jörðina. Hann reisti hús á henni sjálfur, ófullkomin að vísu, en þó svo, að hann unir við þau í bili, og nú unir hann mjög vel á jörðinni, eftir því sem hægt er að vænta nú á þessum erfiðu tímum. Nú kemur hv. 2. þm. N.-M. og segir, að þessi kaup mannsins hafi endað með hörmungum, og það séum við báðir sammála um. Þetta er frekasta fjarstæða, og ég vil frábiðja mér hans íblöndun í mínar skoðanayfirlýsingar í þessu máli sem öðrum. Því vil ég biðja hans flokksmenn, sem hér eru viðstaddir, að skila til hans, fyrst hann getur ekki verið hér sjálfur viðstaddur.

Í sambandi við þetta frv. var það staðhæft af hæstv. landbrh., að í sambandi við kirkjujarða- og þjóðjarðasölu hafi margháttað og mikið brask átt sér stað. Þessu vil ég leyfa mér að mótmæla algerlega sem staðhæfulausum þvættingi. Ég efast um, að hægt sé að nefna eitt einasta dæmi um það, að slíkar jarðir hafi verið keyptar með það fyrir augum að selja þær aftur hærra verði. Og sé ekki hægt að nefna dæmi þess, - ekki eitt, því að það sannar ekkert, heldur mörg -, þá er ekki hægt að tala hér um brask. Annað mál er það, þó að hægt sé að benda á, að jarðir, sem seldar hafa verið sem þjóðjarðir eða kirkjujarðir, hafi siðar verið seldar hærra verði en þegar kirkjujarðasjóður eða ríkissjóður seldi þær.

Nú er sjálfsagt meiningin með þessu frv. að fyrirbyggja áframhaldandi „brask“, eins og þessir menn orða það. Mér finnst, að í þessu efni megi taka upp orð hv. 2. þm. Reykv., sem var að tala um eitthvert miðaldafyrirkomulag í sambandi við óðalsréttinn. Þessir menn fylgjast ekki með tímanum. Hvernig er hægt að hugsa sér brask með þessar jarðir. þegar þær eru að hríðfalla í verði? Hvaða „braskari“, eins og þeir vilja kalla það, mundi vilja kaupa jörð til þess að selja hana aftur með tapi? Allt þetta tal um brask á þjóðjörðum og kirkjujörðum hefir því ekki við nein rök að styðjast.

Eitt einstakt dæmi sannar vitanlega ekkert í þessu efni. Hér hefir líka einmitt oft verið vitnað í eitt einstakt dæmi, en það er sala á kirkjujörðinni Hrafnagili í Eyjafirði, sem var seld fyrir 4000 kr., ég man ekki hvenær, en það mun hafa verið í byrjun stríðsins, ef ekki fyrir stríð. Hún var seld með sannvirði, eftir matsverði. Árið 1910 var hún svo seld aftur fyrir 10-41000, án þess að verulegar umbætur hefðu fram farið á jörðinni. En ég þori að fullyrða, að almennt söluverð jarðarinnar hefir ekki verið yfir 20 þús. kr., m. ö. o., að jörðin hefir fimmfaldazt í verði, en það er einmitt sama hlutfall og búpeningur bænda hækkaði í verði á þessum árum.

En það, sem gerði það, að þessi sérstaka jörð var seld svo miklu hærra verði, var það, að einn maður, mjög vel efnaður, vildi af sérstökum ástæðum, sem mér þykir ekki hlýða að draga inn í þessar umr., kaupa þessa jörð handa tengdasyni sínum, næstum því hvað sem hún kostaði, og annar maður, sem einnig var mjög vel fjáður, eftir því sem um er að tala meðal bænda, keppti við hann um þessa jörð, sennilega meðfram til þess að stríða þeim manni, sem hann vissi, að ætlaði að kaupa jörðina, næstum því hvað sem hún kostaði. Þetta er nú það dæmi, sem svo oft hefir verið vitnað í, og mig skal ekki undra, þó að það eigi eftir að koma fram síðar í sambandi við þetta mál.

Út frá þessu brasktali hafa menn komið að því, að nauðsynlegt sé að stemma stigu fyrir sölu þjóðjarða og kirkjujarða til þess að hefta allt þetta „brask“. En í öðru frv., sem borið var fram á síðasta þingi, var komið með það ráð til að hefta þetta „brask“, sem átt hefir sér stað með jarðir, að innleiða óðalsrétt. Sú lausn málsins verður áreiðanlega happadrýgst, eins og nánar mun verða sýnt fram á við umr. um það mál. Það er það fyrirkomulag, sem frændur vorir Norðmenn hafa búið við frá ómunatíð og þeir telja mikils virði. En það mál hafa sósíalistar reynt að hefta eftir því sem þeir hafa getað, enda eru það þeir, sem hafa nú aðalforgönguna í því máli, sem hér liggur nú fyrir.