25.02.1935
Neðri deild: 14. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (3812)

17. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Flm. (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

Ég hefði nú ekki búizt við því, að stj. tæki málið upp á þeim grundvelli að taka 5 millj. kr. lán, eins og gert var ráð fyrir í frv. landbn. í fyrra, ofan á það 12 millj. kr. lán, sem hún er nýbúin að taka. En máske eru þessar 5 millj. innifaldar í 12 milljónunum? Þessar 5 millj. eru þýðingarmikill þáttur, ef leysa á málið á þeim grundvelli, sem eitthvað verður að koma í staðinn fyrir.

Hæstv. ráðh. sagði, að mér væri það kunnugt, að frv. ætti að koma um þetta efni. En þó að stj. sé nú þunn, þá sé ég samt ekki í gegnum hana. Það hefir alls ekki bólað á þessu frv. enn, enda hefir n. ekki ráðfært sig við okkur á nokkurn hátt. En það má vera, að stj. rumski nú fyrst, er málið er fram komið fyrir tilstilli okkar.

Það er alveg rétt, að nauðsyn er á því að styðja atvinnuvegi þjóðarinnar, og það þarf að styðja þá alla, svo að þeir komist á heilbrigðan grundvöll. En það þýðir ekki að berja sér á brjóst út af því vandamáli, eins og hæstv. forsrh. gerði, heldur verður að finna lausn á því, og einhversstaðar verður að byrja. Og ef stj. treystir sér ekki til þess að taka málið fyrir í heild, ætti hún þó að taka þetta atriði sérstaklega fyrir.

Það, sem ég legg aðaláherzluna á, er, að málið verði tekið til rækilegrar meðferðar af hv. landbn., sem ég vona, að hafi skilning á óhjákvæmilegri þörf til þess að gera eitthvað til úrlausnar fasteignalánum landbúnaðarins.

Ég var búinn að benda á, að jafnvel formaður sósíalista í Ed. hafi tekið það fram, að ekki væri unnt að framkvæma frv. í því formi, sem það kom til Ed. í. Þær till., sem bornar voru fram af honum og öðrum nm., komu ekki til atkv. í Ed. sökum tímaleysis, svo að frv. var, að þingi loknu, alveg eins og það var, þegar það fór frá Ed., eða svo að segja óbreytt frá því, sem það var, þegar n. flutti það fram. Það er þegar víst, að frv. verður breytt í verulegum atriðum, sem hafa áhrif á vaxtakjörin, sem hafa áhrif á það, að framlag ríkissjóðs verður meira en n. ætlaðist til með III. kafla, að viðbættri þeirri vaxtal., sem gerð yrði á jarðrbr., sem er sama sem framlag úr ríkissjóði. Ef það hefir verið nægileg ástæða á móti frv. okkar í fyrra, að það átti að leggja nokkuð af byrðinni af þessu á herðar ríkissjóðs, þá er sama ástæða fyrir hendi á móti frv. n. Þetta hlýtur að verða framlag úr ríkissjóði, og þeim mun meira, ef á millj. kr. lánsheimildin verður felld niður. Stj. virðist ætla að notfæra sér þessa lánsheimild þannig, að hún geti byggt útreikning sinn á þeim grundvelli, að þetta lán hafi verið tekið. Slíkur útreikningur er vitanlega falskur og er að sjálfsögðu ekkert annað en pappírsgagn eitt. Það verður að koma með eitthvað, sem hefir raunveruleg áhrif á lækkun fasteignalánsvaxta. Það legg ég aðaláherzluna á. Að öðru leyti er ég reiðubúinn til samvinnu um málið, næstum á hvaða grundvelli sem er, ef það leiðir til sömu niðurstöðu, sem sé, að fasteignalánavextir fari ekki fram úr 4%, auk þeirrar lækkunar, sem ég tel sjálfsagt, að gerð verði á lánum byggingar- og landnámssjóðs, sem hv. landbn. gerir ekki ráð fyrir, að hægt sé að sinna að neinu leyti. Þar hefir hún ekki viljað að neinu leyti ganga inn á okkar kröfur í málinu, og þó er það um leið viðurkennt og talið sjálfsagt, að fasteignalánsvextir væru lægri en vextir af öðrum lánum, en samt ættu byggingar- og landnámssjóðslán að vera með enn lægri vöxtum.

Það er nauðsynlegt að taka föstum tökum á þessu atriði málsins, eins og öllum öðrum atriðum viðvíkjandi þessu vaxtamáli.