12.03.1935
Neðri deild: 26. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í C-deild Alþingistíðinda. (3922)

66. mál, starfsmenn ríkisins og laun þeirra

Flm. (Jörundur Brynjólfsson) [óyfirl.]:

Ég býst við, að áður en þessu máli verður lokið, verði um það sögð mörg orð. Það hefir jafnan verið svo, þegar rætt hefir verið um launakjör starfsmanna ríkisins, að samkomulag hefir ekki orðið, og mjög svo skiptar skoðanir á ýmsum greinum, og því eðlilegt, að það hafi leitt til mikilla umr., enda mun svo enn fara að sjálfsögðu.

Ég mun lítið eitt víkja að þeim ummælum, sem fram hafa komið af hálfu þeirra manna, sem nú þegar hafa rætt þetta mál, og skal ég reyna að gera það í sem fæstum orðum.

Hv. þm. A.-Húnv. vildi halda því fram, að þessi n., sem skipuð var til þess að gera till. um þessi efni, mundi að nokkru leyti hafa brugðizt skyldum sínum, þar sem hún í ýmsum efnum hafði lagt til, að launahækkun ætti sér stað. Hann hélt því fram, að á þeim tímum, sem nú eru ríkjandi, gæti ekki verið um það að ræða að hækka laun manna.

Það er að vísu góðra gjalda vert að gæta fyllstu sparsemi fyrir hönd ríkissjóðs í þessum efnum. En svo framarlega, sem starfið er nauðsynlegt fyrir ríkið, þarf að gæta fyllstu réttsýni í því að skapa þeim, sem þau störf eiga að vinna, ekki verri kjör heldur en ríkið er neytt til og sæmilegt er. Ég býst nú við, að viðvíkjandi þessum till. okkar kunni að vera mjög skiptar skoðanir um, hvort í hóf sé stillt með launakjörin, og ég get vel skilið, að mönnum þyki við í ýmsum efnum hafa verið of ríflegir í þessum till. En að halda fram, að launahækkun geti undir engum kringumstæðum átt sér stað hjá starfsmönnum hins opinbera, getur enginn gert í fullri alvöru, sem kynnir sér þetta mál. Annars var ræða þessa hv. þm. hófleg; hélt hann sig að efninu fullkomlega, og virtist mér hann í öllum greinum gæta fyllstu sannsýni.

Hv. þm. drap á það, að þær till., sem lúta að fækkun sýslumanna, myndu leiða til þess, að störf sýslumannanna færðust umfram það, sem verið hefði, í hendur hreppstjóranna. Ég mótmæli því ekki, að svo kunni að vera, en sumstaðar er þó högum þannig háttað nú orðið, að ég hygg, að það verði ekki að neinu ráði umfram það, sem þegar er orðið.

Þá minntist hv. þm. einnig á prestafækkunina, og virtist mér sem hann gæti að meira eða minna leyti fallizt á þær till.

Þá minntist hv. þm. A.-Húnv. einnig á það, að hann aðhylltist till. minni hl. n., Arnórs Sigurjónssonar, um að vöruverð á innlendri framleiðslu væri látið ráða um kaupgreiðslu til starfsmanna hins opinbera. Ég vék að þessu atriði í minni fyrri ræðu og viðurkenndi fullkomlega, að það væri æskilegt, ef hægt væri að viðhafa þessa aðferð. En mér fyrir mitt leyti, án þess að fara neitt út í þá sálma, virðist ég koma auga á svo marga vankanta á þeirri leið - að þar muni verða svo mörg ljón á veginum -, að erfitt verði viðfangs í framkvæmdinni, hve æskilegt sem það kynni að vera.

Hv. þm. A.-Húnv. drap á, að það yrði að vera samræmi milli launagreiðslna í landinu yfirleitt og þess, sem framleiðslustéttirnar bæru úr býtum. Í þessu efni er ég hv. þm. alveg sammála. Ég tel, að það sé í alla staði óhyggilegt, að það sé eitthvert regindjúp staðfest milli framleiðslustéttanna í landinu og launastéttanna.

Ég get fullkomlega viðurkennt, að þær till., sem við höfum gert í þessu efni, eru það ríflegar, að þeir menn, sem að þessum störfum vinna, munu bera meira úr býtum heldur en framleiðslustéttirnar eins og nú horfir. En ég tel ekki unnt að taka svo tillit til þess ástands, sem nú ríkir, að mögulegt sé að færa launastéttina svo niður á móts við framleiðslustéttirnar, að þar skilji ekkert á milli, heldur sé bezt að reyna að búa svo vel að framleiðslustéttunum, og þá að sjálfsögðu verkamönnum og sjómönnum, að kjör þeirra verði bætt frá því, sem áður var, heldur en að gerðar sé eingöngu ráðstafanir til þess, að eiginlega vegni öllum í landinu illa.

Mér er það fyllilega ljóst, að það er miklum takmörkunum háð, hvað hægt er að gera í þessu efni. En að því leyti, sem við ráðum við að bæta kjör þessara stétta, framleiðslustéttanna, þeirra, sem vinna líkamlega vinnu, þá held ég, að það sé hyggilegra heldur en að þrengja mjög kost þeirra manna, sem verða að lifa við launakjör, sem ríkið lætur þeim í té.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um ræðu hv. þm. A.-Húnv. Ég sé þess enga þörf, því að í grundvallaratriðum virðist mér, að við munum eiga samleið.

Þá ætla ég að fara aftan að siðunum og minnast lítilsháttar á ræðu hv. þm. Borgf. Hv. þm. drap á, að launamálan. mundi fremur hafa rækt slælega það starf, sem hún fyrst og fremst hefði sátt að vinna að, að gera till. um sparnað og um fækkun starfsmanna.

Um þetta mál, eins og flest önnur og ekki sízt þau, sem eru nokkuð fjölþætt, er vitaskuld skoðanamunur, og ég get viðurkennt, að ég hefði gjarna viljað, ef maður hefði séð sér það fært að gera frekari till. um sparnað, og vil ég alls ekki mótmæla, að í ýmsum greinum kunni það að hafa verið hægt, en viðvíkjandi till. um starfsmannafækkunina er það að segja, að það bregður til beggja vona um, hvað hægt er að gera í þeim efnum, og viðvíkjandi þeim till., sem fyrir liggja. verð ég að segja það, að mér virðist nokkuð hæpið, að jafnvel hv. þm. Borgf. geti á þær fallizt.

Hann hélt t. d. öllum dyrum opnum um sýslumannafækkunina og prestafækkunina; kennarafækkunina minntist hann lítið á. En svo minntist hv. þm. á, að ekki væru till. um að fækka starfsmönnum hér í Reykjavík, sem vinna fyrir það opinbera, en lét þess að vísu í þessu sambandi getið, að hann væri út af fyrir sig ekki að átelja n., þó að hún gerði till. um fækkun starfsmanna úti um sveitir landsins, ef það þætti annars ráðlegt, en mér virtist hann harma það, að ekki væru gerðar frekari till. um starfsmannafækkun hér í bænum.

Ég gerði grein fyrir því, af hvaða ástæðu við treystum okkur ekki til að gera till. um beina fækkun starfsmanna hér í Rvík, og ætla ég ekki að endurtaka það, því að ég vona, að hv. þm. muni eftir því. Við reyndum að sniða till. okkar um vinnubrögðin þannig, að þær gæfu fyrirmæli um frekari vinnu, skerptu eftirlitið í þessum stofnunum frá því, sem verið hefir, og ég vil meina, að þetta kunni í reyndinni að leiða af sér nokkurn sparnað í mannahaldi. Ef það er ekki með þessu móti, þá veit ég ekki, hvaða leið maður á að fara til þess að ná því takmarki.

Mér virtist hv. þm. á það líta, eins og vissulega má, að sveitirnar með þessari starfsmannafækkun bæru skarðan hlut frá borði samanborið við Reykjavík, og minntist á í því sambandi allmikinn starfsmannafjölda hér í Reykjavík.

Það þarf enginn að verða hissa á því, þó að hér sé mikill fjöldi starfsmanna ríkisins, því að hér eru settar svo að segja allar meiri háttar stofnanir hins opinbera; þau störf, sem þar eru innt af hendi, þarf að vinna, og þau verða ekki unnin af öðrum en mönnum, sem eru búsettir hér í Rvík. Það er því eðlilegt, að starfsmannafjöldinn sé hér mikill. Ég þarf ekki annað en að minna á ýmsar þessar helztu stofnanir, eins og t. d. banka, stjórnarráðið, skóla og spítala, svo að ekki séu fleiri nefndar. En viðvíkjandi því atriði, að sveitirnar beri fyrir þessar till. okkar, eins og þær eru af okkar hálfu útbúnar, skarðan hlut frá borði hvað fjármuni snertir, þá held ég að það verði ekki í reyndinni.

Mér þykir ekki nema eðlilegt, að hv. þm. Borgf. hafi ekki getað kynnt sér nál. svo, að hann geti gert sér fulla grein fyrir þessu. En ég vil benda honum á, að við ætlumst til, að ríkið greiði umfram það, sem áður tíðkaðist, 75 þús. kr. til barnafræðslu úti um sveitir landsins, og launahækkun hjá símafólki úti á landi nemur um 30 þús. kr. Þetta ætla ég, að vegi nokkuð upp á móti þeim fjármunum, sem tapast við prestafækkunina. Það er ekki heldur rétt hermt hjá hv. þm. viðvíkjandi till. n. um kennarafækkunina, að hún eigi sér alls ekki stað hér í Rvík. Ef miðað er við skólaskyld börn í Rvík, eru hér um 80 kennarar, en í okkar till. er gert ráð fyrir 52 til 53 kennurum hér.

Þá vék hv. þm. Borgf. að því, að eftir till. n. væri ósamræmi milli launa launamannanna og framleiðslustéttanna. Ég er búinn að víkja að því í sambandi við ræðu hv. þm. A.-Húnv. og vísa til þeirra ummæla.

Mér þótti mjög leiðinlegt að heyra hjá hv. þm. Borgf., ef hann sæi sér ekki fært - hann fullyrti raunar ekkert um það - á einhvern hátt að draga úr starfsmannahaldi, því að ég er hræddur um, að þótt eitthvað yrði hægt að fækka hér í Rvík og eitthvað hægt að lækka launin, þá verði aldrei mikil fúlga fjár spöruð ríkissjóði með því einu móti.

En það, sem við gerum að till. okkar, er það, sem við komum auga á, að væri helzta ráðið til þess að reyna að spara án þess að mikið yrði að sök. Menn verða að dæma um það eftir sínum geðþótta og hafa sína skoðun í þeim efnum, hvernig það kann að hafa heppnazt.

Þá kem ég að hv. þm. V.-Sk. Hann átaldi mig sérstaklega fyrir það, að hafa tekið þetta mál á dagskrá áður en nál. hafði legið nægilega lengi frammi fyrir hv. þm. til athugunar. Ég get tekið undir, að það er vorkunnarmál. Ég get ekki gert þá kröfu til hv. þm., að þeir geti gengið í gegnum nál. á einum sólarhring, auk annara starfa, svo að ég tek ekkert til þess, þó að hv. þm. léti þetta í ljós. En ef hann hefði verið svo vænn við mig að hafa það á orði, að hann óskaði, að því yrði frestað að taka málið á dagskrá, þá hefði ég vafalaust orðið við þeirri ósk. því að mér er ljóst, að á þessum hluta þingsins fær málið ekki afgreiðslu.

Ég bjóst satt að segja ekki við, að það mundu verða miklar umr. við 1. umr. málsins, því að venjan er sú, að þegar mál kemur til 2. umr. og einstakar greinar og till. eru ræddar, þá fer aðalumr. fram, og við 3. umr. En þetta var ekki óréttmæt ábending, og dettur mér ekki í hug að fyrtast við þessi ummæli hans. En hitt skil ég ekki, hvernig hann hefir getað fundið það út úr minni framkomu, að ég gerði mig líklegan til þess að ýta á eftir málinn. Ég er ekki nema 1/33 hluti þessarar hv. þingdeildar, og þó að honum hafi þótt framkoma mín gefa til kynna, að mér lægi á að reka þetta mál með offorsi áfram, þá mætti hann sjá, að ég mundi geta sagt mér sjálfur, að slík vinnubrögð hæfa ekki slíku máli, og ég ætla, að ummæli mín hafi ekki gefið tilefni til þess að ætla, að ég byggi yfir slíku. Þessi orð voru því alls ekki eins meinlaus og um hitt, hvað málið var tekið fljótt á dagskrá.

Þá var annað atriði, sem hv. þm. minntist á, og það var viðvíkjandi skipun launamálanefndarinnar - hvert tilefni hefði verið og hvaða tilgangur með skipun hennar. Ef ekki hefði komið neitt fram viðvíkjandi þessu af hálfu Sjálfstfl., þá veit ég ekki, hvað ég hefði átt að halda um þann flokk, því að hv. þm. sagði, að hann hefði ekki skoðað skipun nefndarinnar sem neitt alvörumál. Hún hefði verið skipuð með það fyrir augum að velta þeim mönnum, sem hlutu sæti í henni, atvinnubótavinnu. Eins og því til sönnunar nefndi hann t. d., að enginn lögfræðingur hefði verið skipaður í n. N. mundi ekki hafa verið ætlað annað verk en eitthvað að rýna í þetta mál, skila einhverju áliti, það gengi svo til þingnefndar, hún skrifaði embættismönnum til þess að spyrja ráða, þá væri það komið í góða vöggu og því skyti aldrei upp að eilífu aftur. Þetta var hugsanaferill hv. þm.

Ef hv. þm. G.-K. hefði ekki tekið til máls og borið á móti þessum ummælum hv. þm., hefði náttúrlega legið næst fyrir mig að halda, að flutningur málsins af hálfu flokksmanna hv. þm. V.-Sk, hefði af engri meiningu verið gerður.

Ég finn svo ástæðu til þess í sambandi við þessi ummæli hv. þm. og vegna þess, að mér virtist koma fram hjá honum, að ekki einungis vegna þess, að enginn lögfræðingur átti sæti í nefndinni, heldur einnig, að val mannanna í n. hefði orðið með þeim hætti, að ekki væri neins af henni að vænta, er til bóta horfði, ástæðu til þess að láta í ljós ánægju mína og þakklæti til meðnm. minna. Þeir, sem kosnir voru af Sjálfstfl., tóku á verkefni þessu af alúð og alvöru, eins og vafalaust hefir verið ætlazt til af mörgum mönnum í Sjálfstfl., sem að till. um nefndarskipunina stóðu. Um hina meðnm. mína get ég sagt það sama; þeir ræktu starf sitt eftir beztu getu. En þetta allt kann reyndar ekki að hafa svo mikið að segja, þar sem um slíka menn er að ræða, eftir því sem hv. þm. V.-Sk. lét í ljós.

Hv. þm. V.-Sk. þóttist hafa sýnt fram á það, með því að benda á, að enginn lögfræðingur átti sæti í n., að þar með væri starf hennar dauðadæmt, hvert og hvernig sem það svo hefði verið. Mér dettur ekki í hug að segja, að lögfræðingar séu einskis virði og ekki geti verið gott og gagnlegt að njóta starfskrafta þeirra á þeim sviðum, er snerta sérmenntun þeirra, en bættir þessa máls eru fæstir lögfræðilegir. Ég treysti að sjálfsögðu hv. þm. V.-Sk. og öðrum lögfræðingum til þess að gera tillögur til umbóta hvað lögfræðilega hlið málsins snertir, og veit ég þó ekkert, hversu mikill lögfræðingur hv. þm. er. En ég vil benda honum á það, að þétt lögfræðingarnir séu góðir á sínu sviði, og þótt þeir hafi fengið á sig stimpil sem sérmenntaðir menn, þá er engin ástæða til að taka þá svo hátíðlega, að engin störf sé unnt að leysa vel af hendi án þeirra tilkomu, og að þeir við sitt próf hafi öðlazt hinn eina rétta skilning á hlutunum. Til þess greinir þá allt of mikið á um ýms lögfræðileg efni. Hinsvegar þykir mér leiðinlegt, að hv. þm. V.-Sk. fékk ekki aðstöðu til þess að ljá þessu máli lið, hafi hann langað til þess.

Hv. þm. vildi halda því fram, að þessi milliþn. í launamálum hefði verið skipuð með það fyrir augum að vera einskonar atvinnubótavinna fyrir nefndarmenn. Ég veit ekki, hvort viðhorf hv. þm. til slíkra nefndaskipana er orðið breytt, en hann hefir a. m. k. áður tekið þátt í störfum milliþn., hvort sem hann hefir þá gert það í atvinnubótaskyni eða ekki. Við höfum setið við sama kost og á þingi, haft liðagar 13 kr. á dag, og þeir menn eiga ekki mikils úrkosta, a. m. k. ekki bændur, sem hafa búum að sinna, en þurfa að vera hér um hásláttinn. Það er því hæpin fullyrðing, að nefndarstarfið hafi verið fjárhagslegur ávinningur. - Annars fannst mér, þegar hv. þm. V.-Sk. ræddi þessi efni, allt látbragð hans bera það með sér, að hann hefði á tilfinningunni, að þessi litli salur rúmaði hann ekki. Svo mikið var yfirlætið í ræðu hans bæði um efni og annað. - Hann minntist á, að sér væri ósárt um þetta mál eða á hvern hátt þingið skildist við það. Menn hafa því heyrt hans tillögur og skoðanir í þessu máli, og hann kemst ekki frá þeim, og skal ég hann á þær minna síðar, er fundum okkar ber saman.

Honum virtist það eina leiðin til lausnar þessu máli, að ríkisstj. tæki það að sér og kæmi því á framfæri. Því er ekki að neita, að það væri stórkostlegur styrkur og mestar líkur til, að málið næði fram að ganga með því móti, en engu að síður, þótt svo sé ekki orðið enn, ber hv. þm. að sinna málinu af alúð, og það veit ég, að hv. þm. gerir, en bara á sinn hátt. Ég er ekkert að kæra yfir því.

Nú sé ég, að hinn venjulegi fundartími er að verða úti, en býst hinsvegar við, að meira verði um málið rætt, svo að ég sé enga ástæðu til að þreyta menn að þessu sinn fram yfir venjulegan fundartíma, og mun því láta staðar numið að sinni, en áskilja mér rétt til að halda áfram ræðu minni næst þegar málið verður tekið fyrir. [Frh.].