15.03.1935
Neðri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í C-deild Alþingistíðinda. (3967)

79. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Flm. (Thor Thors):

Það eru nokkur atriði í ræðu tveggja hv. síðustu ræðumanna, sem ég vil svara. Hv. þm. Hafnf. sagði, að flokksbróðir sinn, hv. 2. þm. Reykv., væri ákaflega samvinnuþýður. Ég skal ekki efa, að hann geti verið það, en ég held þá, að sú hlið snúi aðeins að samflokksmönnum hans, en ekki andstæðingum. Ég býst við, að flokksmenn hans verði meir varir blíðu hans en við andstæðingar hans. Það er rétt hjá honum, að frv. meiri hl. allshn. er flutt í samráði við meiri hl. háskólaráðs; hv. 9. landsk. minntist á hið sama, en ég vil benda á það, að í svari háskólaráðs til hæstv. kennslumálaráðh. út af þessu frv. er það tekið fram, að háskólaráðið geti fallizt á frv. með því móti, að úr því væru felld nokkur atriði. Þetta hefir að vísu verið gert, ákvæðin hafa verið felld úr frv., en þó ekki betur en svo, að þó ákvæði þessi hafi verið felld úr frv. sjálfu, þá byggir grg. enn á þeim ákvæðum. Það hefir því ekki fyllilega verið gengið inn á skilyrði háskólaráðsins, og ennfremur segir háskólaráðið í bréfi sínu, að það áskilji sér rétt til þess að koma með brtt. við frv. á þinginu. ef því sýnist þess þörf við nánari athugun. Háskólaráðið hefir því enganveginn samþ. frv. eins og það er, heldur óskað að mega flytja brtt. við það. Háskólaráðið hefir því svipaða afstöðu til frv. og n. á Alþingi, sem vill, að eitthvert sérstakt mál nái fram að ganga og skrifar undir álit þess efnis, en einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að flytja brtt. í málinu. Og hv. þm. vita, að þessi réttur nefndarmanna getur náð til verulegra málsatriða. Þó það hafi marizt í gegn að fá þrjá menn úr háskólaráðinu af fimm til þess að tjá sig frv. fylgjandi í aðalatriðum, þá er mér kunnugt, að fjórir af meðlimum háskólaráðsins hafa hug á því að koma með verulegar brtt. við þetta frv., sem allar stefna í sömu átt og okkar frv., og hv. 9. landsk. má enganveginn misskilja það, þó háskólaráðið hafi fallizt á þetta frv. í bili, þar sem það sér, að það, sem betra er, fæst ekki, og álitur því rétt að sætta sig við það, sem minna er. Afstaða háskólaráðs virðist því sú, að það tekur við öllu, sem að því er rétt, en eigi „með auðmýkt né knúsandi lotning“, eins og mig minnir, að þessi hv. þm. hafi komizt að orði eitt sinn í vísu í skóla. Vilji háskólaráðsins er sá sami og var á síðasta þingi, er frv. um atvinnudeild var borið fram af kennurum háskólans, og þeirra óskir eru ennþá þær sömu og verið hefir.

Hv. 9. landsk. fór mörgum orðum um sjálfsforræði vísindastofnana og virtist því hlynntur, enda er svo, að engin menningarþjóð lætur sér sæma neitt annað en fullkomið sjálfsforræði sinna vísindastofnana, því að um leið og þær væru sviptar frelsi sínu væri girt fyrir allan vöxt þeirra og þróun. Það nægir t. d. að benda á, hve ríka áherzlu Englendingar leggja á það, að þeirra háskólar hafi algerð ráð yfir öllum sínum málefnum, ekki aðeins fullkomið sjálfsforræði til vísindalegrar starfsemi, heldur einnig fullkomin fjárráð. Þeir háskólar í hinu brezka heimsveldi, sem standa á traustustum grundvelli, eru háskólarnir í Oxford og Cambridge, sem eru algerlega sjálfstæðar stofnanir og óháðar ríkisvaldinu.

Þá vil ég aftur víkja að hv. þm. Hafnf. Mér fannst kenna þess hjá honum, að hann sem sá strangvísindalegi maður, eins og hann er eða vill vera, vildi gera fyllstu kröfur til vísindalegrar starfsemi háskólans. Ég verð að taka undir það, sem flokksbróðir hans, hv. 9. landsk., sagði, að Háskóli Íslands getur ekki, af þeim ástæðum, sem hann tók fram, orðið nokkurntíma fullkomin vísindaleg stofnun. Hv. þm. Hafnf. sagði, að að þessum mikilvægu málum og vísindagreinum, sem rætt er um í þessu frv., starfaði fjöldi sérfræðinga og prófessora erlendis. Það er rétt, en þetta sama á sér stað um aðrar deildir háskólans, sem nú eru starfandi. Það mun t. d. hvergi í heiminum þekkjast, að prófessorar í læknisfræði séu látnir kenna jafnmikinn fjölda vísindagreina og hér. Og hvergi nokkursstaðar þekkist, að prófessorar í lögfræði séu látnir kenna jafnmargar greinir lögfræðinnar og hér. Við höfum orðið að gera þetta, því að við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti. Hv. þm. Hafnf. spurði. hvaða heilvita maður gæti látið sér til hugar koma að láta prófessor í fiskifræði kenna stærðfræði. En hver er kominn til að segja, að prófessor í fiskifræði geti ekki haft verulega þekkingu á stærðfræði? Á sama hátt mætti segja, að það sé óviðeigandi að láta sérfræðing í refsirétti kenna ríkisrétt, og eins mætti segja, að ófært væri að láta prófessor í lyfjafræði kenna handlækningafræði. við verðum að blanda þessu saman að meira og minna leyti, vegna þess að við höfum ekki ráð á að halda við háskólann allan þann sérfræðingafjölda, sem stærri og ríkari þjóðir geta veitt sér.

Hv. þm. Hafnf. sagðist geta fallizt á, að það gæti orðið nokkuð mikið gagn að þessum fyrirlestrum fyrir þá stúdenta, sem ætluðu sér í atvinnudeildina, en vildi skopast að því, að ég hafði látið þau orð falla, að að því mundi verða eitthvert alþýðlegt gagn. Mér þykir það koma úr hörðustu átt, þegar maður úr Alþfl. skopast að því, sem kallað er alþýðlegt gagn, en ég vil telja það, að almennt gagn út af fyrir sig, þó að það sé ekki strangvísindalegt, sé spor í rétta átt. En mér fannst kenna missagnar í ræðu þessa hv. þm. þegar hann í sambandi við þetta atriði sagði, að upphafið væri ekki rétt að kenna hér, en sagði svo síðar, að undirstöðuna í þessum greinum mætti kenna hér við háskólann, en „toppinn“ yrði að fá erlendis. Hér fundust mér rökin stangast.

Ég hygg, að það atriði sé réttara, að einmitt upphafið megi kenna hér heima, og þá sérstaklega með því að leiðbeina stúdentum um, hvaða bækur þeir eigi að lesa, og síðan komi svo „toppurinn“ erlendis, ef þeir óska að fullnema sig vísindalega. Hv. þm. Hafnf. viðurkenndi í þessu sambandi, að nokkuð mætti draga úr straumi stúdenta til erlendra háskóla með stofnun atvinnudeildar, en ég hygg, að sá straumur verði aldrei stöðvaður, og ég efast um, að rétt væri að stöðva hann. Það eru til þær vísindagreinir, sem menn munu alltaf nema betur við stærstu háskóla erlendis heldur en hér heima. En það er annað, sem það getur haft áhrif á að stofna atvinnudeild, og það er, að með því er hægt að bjarga mörgum stúdentum úr læknadeildinni og lögfræðingadeildinni, þeim stúdentum, sem neyðast til að fara í þær deildir, frá því að eyða sínum beztu árum í nám, sem fyrirsjáanlegt er, að ekki getur veitt þeim lífsviðurværi, og að þjóðin hefir ekki þörf fyrir á næstu árum. Þetta er ef til vill stærsta atriðið, að breyta þessum stúdentastraum, hvort sem hann verður kyrr innanlands af fjárhagsástæðum eða öðrum ástæðum.

Ég efast um, að þýði nokkuð að lengja þessar umr. Það er orðið nokkuð skýrt, hvað á milli ber, en í sambandi við það atriði, sem kom fram í ræðu hv. 9. landsk., að hann teldi það litla ræktarsemi við háskólann, þó að atvinnudeildin væri stofnuð, þá vil ég minna á það, að þessi nýja deild miðar að því að gera háskólann fjölbreyttari og fjölþættari en áður. Hún miðar að því að gera honum kleift að taka við fleiri stúdentum en áður hefir verið, og gerir honum ennfremur kleift að senda frá sér kandídata og menntamenn út á fleiri svið þjóðlífsins en hingað til hefir verið. Ég vil telja, að þessi atriði sem öll miða að því að efla og styrkja háskólann, hljóti að benda til þess, hvort um ræktarsemi til háskólans er að ræða eða ekki.