18.03.1935
Neðri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í C-deild Alþingistíðinda. (3992)

92. mál, hlutabréf í Útvegsbanka Íslands h/f

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ég sýndi fram á það á þinginu í fyrra, hvað með því mælti, að gerð væri af hálfu þess opinbera þessi rétting á meðferð á þeim mönnum, er lögðu fram á sínum tíma sparifé sitt af fúsum og frjálsum vilja í því skyni að bjarga Íslandsbanka, en það var síðar gert að hlutafé í Útvegsbankanum. Þar sem þessi hv. d. er eins skipuð og á síðasta þingi. Sé ég ekki þörf á því að endurtaka þau rök, er ég færði þá fram í þessu máli.

Frv. þetta fór í n. á síðasta þingi, en var þá ekki afgr. Orsök til þess kann að hafa verið m. a. sú, að frv. var ekki borið fram allra fyrstu daga þingsins. En það vil ég benda hv. þd. á, að réttlátt er að bæta á einhvern hátt hag þessara manna, og brýn þörf er til þess að Alþingi leiðrétti og bæti fyrir það ranglæti, er þeir hafa orðið fyrir. Alþingi þarf a. m. k. að ganga svo frá þessu máli, að hlutabréf þessara manna verði veðhæf eign, því eins og nú er eru þau það ekki, og því lítils virði eigendunum. Ég þykist þess fullviss, að krafa um þetta réttlætismál komi fram á næstu þingum, ef þetta þing telur sig ekki geta tekið hana til greina fremur en síðasta þing. Ég skal ekki að þessu sinni án tilefnis fjölyrða um málið, en leyfi mér að óska þess, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og fjhn.