23.03.1935
Neðri deild: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í C-deild Alþingistíðinda. (4052)

110. mál, eignarnám lands handa kaupfélagi Rangæinga

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Þetta frv. er flutt inn í þingið eftir ósk stjórnar kaupfélagsins, sem hefir aðsetur sitt við Rauðalæk. Þar hagar svo til, að það eru þrír eigendur og tveir ábúendur að Brekkum, jörðinni, sem hús kaupfélagsins standa á, og beitilandið hjá þeim er sameiginlegt. Þess vegna er dálítið erfitt að ná samningum við þá um kaup á landi til afnota fyrir kaupfélagið. Hinumegin við lækinn, sem hús kaupfél. standa við, er land Efri-Rauðalækjar, sem að eru tveir eigendur. Allt þetta hefir orðið til þess, að samningaumleitanir um að fá keypt þarna land fyrir ferðamenn, sem sækja til kaupfélagsins, til að beita hestum sínum á, hafa gengið stirt. Þess vegna er það, að þetta frv. er flutt, í því trausti, að greiðara gangi um samninga á eftir, og í öðru lagi að mögulegt verði fyrir félagið að fá þarna land, ef samningar ekki takast. - Ég óska, að málinu verði, að umr. lokinni, vísað til allshn.