04.11.1935
Neðri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í C-deild Alþingistíðinda. (4155)

153. mál, garðyrkjuskóli

Sigurður Einarsson [óyfirl.]:

Í síðari ræðu hv. 2. þm. Árn. var dálítið, sem ég ekki gat skilið, og vil því leyfa mér að leggja fyrir hann sem flm. frv. nokkrar spurningar. Á að skilja ákvæði 1. gr. og ákvæði 8. gr. um burtfararpróf með hliðsjón af 7. gr. með öllum þeim námsgreinum, sem þar eru upp taldar, á þá leið, að útskrifa eigi fyrsta árgang að loknu fyrsta árs námi? Og á að skilja það í því tilfelli svo, að hv. flm. og aðrir, sem ekki vilja fara varhluta af því að hafa átt þátt í samningu þessa frv., telji, að hægt sé að ljúka forsvaranlegu námi í öllum þeim námsgreinum, sem þarna eru taldar upp, á tímabilinu frá 1. marz til 30. nóv., auk verklegra útistarfa og annarar vinnu, sem slíkt nám útheimtir, eða er þetta bara sett til málamynda, til þess að koma með einhvern orðamun frá því, sem var í okkar frv.? Og ef svo er, er þá meiningin, að gengið sé frá með reglugerð um endanlegan námstíma hvers nemanda? Ef þetta er allt í þoku, fer að verða dularfullt að ráða í það, hvað rak þessa áhugasömu menn til þess að flytja frv. um þetta efni.

Ég skal ekki fara að deila um það. hverjir hafi átt hugmyndina að þessu máli; framgangur þess er aðalatriðið. En ég vil taka það fram út af því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði, að það er engin ástæða til að ætla, að framleiðsla, sem kynni að verða rekin í sambandi við garðyrkjuskóla, gæti komið til greina sem keppinautur framleiðslu bænda. Hér getur aldrei verið um svo stórvirkar framkvæmdir að ræða meðan skólinn er bara skóli, sem leggur fram nægilega mikið verkefni handa sínum nemendum.

Þá vildi ég aðeins bæta við einu atriði. Ég held sem sé, að þegar allt kemur til alls, þá eigi frv. helzt heima í menntmn., og geri ég því að till. minni, að því verði vísað þangað. Okkar frv. átti heima í landbn., því það var bara um garðyrkjuskóla, en ekki almenna vísindastofnun í arfgengisfræði, efnafræði o. fl.