08.11.1935
Neðri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í C-deild Alþingistíðinda. (4209)

166. mál, útgerð ríkis og bæja

Finnur Jónsson:

Ég vildi gera stutta aths. við ræðu hv. 6. þm. Reykv., þó að hv. þm. Hafnf. hafi að vísu tekið af mér ómakið að mestu leyti.

Það má ekki standa ómótmælt, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði hér í þessari hv. d. um viðtökur þær, sem frv. þau, er mþn. í sjávarútvegsmálum kom með í fyrra, að það hefði verið álit okkar meirihl.manna í sjútvn., að það ætti ekki að endurnýja togaraflotann, og að það sé loddaraleikur, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé fram komið. Þessi ummæli hv. 6. þm. Reykv. eru eins rakalaus og tilhæfulaus eins og svo margt annað, sem sá hv. þm. leyfir sér að fara með hér í hv. d., og ég vil, með leyfi hæstv. forseta. vitna til frv. meiri hl. sjútvn. á þskj. 739 frá 1934, þar sem einmitt er rætt um þessi mál. Þar segir svo um togaraflotann:

„Einstaklingar hafa ekki orðið þess megnugir eða ekki birt um að endurnýja stórútgerðina. Það opinbera, ríki eða bæjarfélög, verður því fyrr eða síðar að hlaupa undir bagga og gera það eða veita aðstoð til þess, eigi ekki sá hluti útgerðarinnar, sem beztan arð getur gefið og mesta atvinnu á sjó og landi, að leggjast í rústir. Til þessa álitur meiri hl. n. að nota beri fé og lánstraust ríkisins, en ekki í skuldafenið og hin gömlu sökkvandi skip einstaklinga.“

Það þarf ekki að efa það, að hv. 6. þm. Reykv. hafi verið kunnugt um þetta mál, því að svo mjög ræddi hann það í þessari hv. d. í fyrra. En þrátt fyrir það lætur hann sér sæma að standa upp og segja, að það sé meining Alþfl. að leggja togaraflotann í rústir.