14.11.1935
Neðri deild: 73. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í C-deild Alþingistíðinda. (4278)

177. mál, brúargerðir

Flm. (Sigurður Einarsson) [óyfirl.]:

Ég hefi borið þetta frv. fram af því, að svo sérstaklega stendur á, að ein af þeim sýslum landsins, sem verst er sett með samgöngur, þ. e. Barðastrandarsýsla, er nú svo komin, að akvegakerfi landsins er farið að snerta hana. Sem sagt, nú er hægt að komast með bíl inn í Reykhólasveit í Barðastrandarsýslu, sem er ein af fjölmennustu sveitum í sýslunni, en lengra en rétt inn í sveitina er enn ekki hægt að aka, af því að í sveitinni er óbrúuð á, er Bæjará heitir. Telur vegamálastjóri, að brúin muni kosta 7000 kr., og er hún í brúalögum. En þó að svo heppilega tækist til, að sú brú kæmi, þá er það skammgóður vermir og kemur að litlu haldi, ef ekki er meira að gert, því að ekki er nema góð bæjarleið að annari á, Laxá, í sömu sveit. Er hún ófær bílum nema hún verði brúuð. Vegamálastjóri telur, að sú brú mundi kosta viðlíka mikið og brúin á Bæjará, eða báðar 14—15 þús. kr.

Nú er mönnum það mesta áhugamál, að akvegur komist alla leið í þorskafjörð. Stendur þar óvenjulega heppilega á, þar sem vegarstæði er þar óvenju gott, harðir og sléttir melar, sem hægt væri að nota til aksturs, a. m. k. að sumri til, ef árnar yrðu brúaðar. Og þar sem vegamálastjóri álítur, að brú á Bæjará sé ein af þeim fyrstu, sem nú ættu að koma til framkvæmda, þá álít ég illa farið, ef Laxá gæti ekki fylgt þar með. Af þeim ástæðum hefi ég leyft mér að gera till. um, að þessi brú verði tekin í brúalög.

Þá hefi ég einnig lagt til, að þrjár aðrar brýr í vestanverðri sýslunni verði teknar í brúalög, og er um þær svipuðu máli að gegna. Ég skal taka það fram, að þessar ár geta ekki talizt stór vatnsföll, en þó ærinn bagi og háski fyrir þá, sem þar þurfa að ferðast. Er því full ástæða til að taka þær upp í brúalög, svo að þær brýr geti komið til álita jafnt öðrum, þegar ákveðið er um það, hvaða ár skuli brúa.

Ég skal taka það fram, að kjósendur í Barðastrandarsýslu munu gefa því glöggar gætur, hvernig þessu frv. reiðir af, því að það getur engum dulizt, að sú sýsla hefir verið mjög afskipt um brúargerðir og vegalagningar. Mun vera leitun á þeim stað á landinu, sem erfiðara er að komast um en Barðastrandarsýslu, og veldur það fyrst og fremst, hve erfið aðstaðan er þar viða til vegabóta. Sýslan er bæði hálend og vogskorin og margir örðugleikar eru þar fleiri. Hafa menn líka rækilega fengið að kenna á því, þar sem varla getur heitið, að lagður vegarspotti sé innan sýslunnar.

Menn hafa gert sér í hugarlund, og hefir það ráðið afstöðu margra til samgöngumála í Barðastrandarsýslu, að samgöngur á sjó væru þar eðlilegastar og heppilegastar. Þessu er þó ekki svo farið. Það er í rauninni ekki nema sá hluti íbúanna, sem er í Breiðafjarðareyjum, sem hentar bezt samgöngur á sjó, en um alla íbúana í austanverðri sýslunni er það að segja, að þeim er eðlilegast að hafa samgöngur á landi, og þeir telja sig varða það ákaflega miklu, að vegalagningum verði haldið þarna áfram og þessi vötn brúuð.

Ég vil taka það fram, að um leið og Bæjará og Laxá væru brúaðar og hægt að aka í Þorskafjörð, t. d. að Kinnarstöðum, þá er öll Reykhólasveitin komin í akvegasamband, og er þá skammt til þess, að Gufudalssveitin, sem er stór sveit, geti komizt í vegasamband líka. Auk þess mundu íbúar eyjanna nota þessar samgöngur í staðinn fyrir að fara út í Flatey og verða að bíða þar byrjar, eða jafnvel alla leið til Stykkishólms.

Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þetta frv., en vil eindregið mælast til, að það sæti vinsamlegri meðferð í þessari d. og hjá þeirri n., sem fær það til meðferðar. Ég vil leggja áherzlu á það, að á undanförnum árum hefir víða verið lagt fram stórfé til vega- og brúagerða, bæði frá því opinbera og eins fyrir dugnað hlutaðeigandi héraða, en Barðastrandarsýsla hefir í þessu efni verið ákaflega afskipt. Ég ferðaðist síðastl. vor um héraðið með manni úr Skagafirði. Hann hafði ekki áður komið á þessar slóðir, en var hinsvegar vanur hinum greiðfæru vegum í Skagafirði og Eyjafirði. Ósjálfrátt varð honum að bera vegina í Barðastrandarsýslu saman við það, sem hann átti að venjast í þeim héruðum. Enda varð hann alveg steinhissa á því, að á helztu þjóðleiðum í Barðastrandarsýslu þurfti sæmilega hugaður karlmaður að fara af hestbaki hvað eftir annað til þess að sleppa nokkurnveginn ómeiddur. Þetta dæmi sýnir ljóst, hversu mikið skortir á, að þessari sýslu hafi verið gerð sæmileg skil í vegamálum, samanborið við önnur héruð, og ennfremur hversu mikil þörf er á því, að tekið sé vinsamlega undir þær till., sem gerðar eru til þess að bæta vegina í Barðastrandarsýslu. Ég verð því að telja það í mesta máta óeðlilegt og mjög sorglega farið, ef þessar ár verða ekki settar í brúalögin og brúaðar áður en langt liður. Um árnar í austursýslunni, Bæjará og Laxá, þarf ég ekki að fjölyrða frekar, — þar er um svo brýna nauðsyn að ræða, að þær verði sem fyrst brúaðar, og á það legg ég mesta áherzlu. — Læt ég svo máli mínu lokið, en óska, að frv. verði vísað til samgmn.